-0.2 C
Reykjavik
Þriðjudagur - 31. janúar 2023
Auglýsing

Dómsmálaráðuneytið: Vegna umræðu um alþjóðlega réttaraðstoð

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

 
Dómsmálaráðuneytið er samkvæmt lögum miðlægt stjórnvald þegar kemur að gagnkvæmri alþjóðlegri réttaraðstoð. Hlutverk ráðuneytisins í slíkum málum er eingöngu að leggja mat á hvort skilyrði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, sem og ákvæði annarra laga sem við eiga séu uppfyllt eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir.  Telji ráðuneytið svo vera er beiðnin framsend viðeigandi stjórnvaldi, þ.e. ríkissaksóknara, til frekari meðferðar.
Ráðuneytið getur ekki tjáð sig um einstök sakamál sem eru til rannsóknar.
Rétt er að taka fram að íslenskt sakamálaréttarfar byggir á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Þróun síðustu áratuga hefur verið sú að efla enn frekar sjálfstæði ákæruvalds og rannsóknarvalds en ríkissaksóknari, sem nýtur sjálfstæðis í embætti sínu, er jafnframt æðsti yfirmaður sakamálarannsókna og tekur ekki við fyrirmælum frá neinum öðrum stjórnvöldum. Er þetta í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins um að sakamálarannsóknir lúti einungis lögum en ekki pólitískum afskiptum. Þróunin hérlendis hefur því verið sú að færa þetta vald frá dómsmálaráðuneytinu og til ríkissaksóknara. Af þessu leiðir að dómsmálaráðuneyti og dómsmálaráðherra hafa engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi.
Starfsemi ákæruvaldsins er því sérstaks eðlis og hefur sérstöðu hvað varðar eftirlitsheimildir ráðherra. Það eru takmarkanir á því með hvaða hætti ráðherra getur haft eftirlit með ákæruvaldinu og verður það aðeins gert á grundvelli skýrrar lagaheimildar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð sakamála hefur dómsmálaráðherra eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafist þess að ríkissaksóknari láti í té gögn og greinagerð um meðferð einstakra mála. Ráðuneytið lítur svo á að í ákvæði þessu felist ekki almenn heimild fyrir ráðherra til að endurmeta hvort málsmeðferð lögreglu eða ríkissaksóknara í sakamáli samræmist lögum, enda gengi slík regla gegn meginreglunni um sjálfstæði ríkissaksóknara sem æðsta handhafa ákæruvalds í landinu, sbr. 1. mgr. 20. gr. sml.
Alþjóðleg samvinna á sviði sakamála felur þó í sér, þrátt fyrir framangreint, að ráðuneytið gegnir miðlægu hlutverki. Brýnt er þó að túlka hlutverk ráðuneytisins í þeim sakamálarannsóknum í samræmi við þá meginreglu sem fjallað er um hér á undan. Hlutverk ráðuneytisins sé eingöngu, eins og farið verður nánar yfir hér að neðan, að fara yfir lagaskilyrði fyrir því að verða við beiðnum erlendra ríkja og, ef lagaskilyrði eru fyrir því, að koma þeim í farveg hjá viðeigandi stjórnvöldum. Hefur það því verið framkvæmdin hjá dómsmálaráðuneytinu að það eru sérfræðingar og embættismenn sem fara yfir þessi mál og eru þau ekki borin á borð ráðherra né hans pólitísku aðstoðarmanna. Verður sá háttur hafður á hér eftir sem hingað til.
Almennt um réttaraðstoð
Varðandi málsmeðferð erlendra réttarbeiðna þá er dómsmálaráðuneytið miðlægt stjórnvald þegar kemur að réttaraðstoð og fer um meðferð slíkra mál í samræmi við lög nr. 13/1984 og samninga sem íslenska ríkið hefur gengist undir.
Alþjóðleg réttaraðstoð eða gagnkvæm réttaraðstoð í sakamálum er í grundvallaratriðum reist á frjálsum vilja ríkis til að veita öðru ríki eða ríkjum aðstoð við rannsókn sakamáls. Það ræðst af velvilja og gildandi löggjöf ríkis hvort annað ríki getur fengið að njóta réttaraðstoðar þess. Þá hefur fjöldi ríkja skuldbundið sig með samningum, gjarnan fjölþjóðlegum, til að veita öðru ríki margvíslega aðstoð við rannsókn sakamáls.
Alþjóðleg réttaraðstoð í sakamálum er grundvallarþáttur í baráttunni gegn hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og netglæpum, sem og öðrum glæpum sem fara þvert á landamæri og því mikilvægt að ríki setji sér ekki hindranir við meðferð slíkra mála. Markvisst hefur verið unnið að því á alþjóðlegum vettvangi að stuðla að greiðri og skilvirkri réttaraðstoð við rannsókn sakamála enda hefur þróun undanfarinna ára sýnt að brotastarfsemi virðir ekki landamæri og því er nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu sífellt að aukast. Í samræmi við þetta á Ísland aðild að mörgum fjölþjóðlegum samningum sem hafa það að markmiði að efla samvinnu og samstarf þjóða í baráttu gegn ýmis konar afbrotum.
Grundvallarsamningur á þessu sviði er Evrópuráðssamningurinn um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 sem Ísland fullgilti, ásamt fyrsta viðauka við hann, þann 18. september 1984 með lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Flest Evrópuríki, eða 47 ríki, hafa fullgilt samninginn, auk þriggja ríkja utan Evrópu, þ.e. Chile, Ísrael og Suður Kórea. Samkvæmt samningnum skuldbinda samningsaðilar sig til að veita hver öðrum, samkvæmt ákvæðum samningsins, víðtæka gagnkvæma aðstoð í sakamálum vegna afbrota sem eru þess eðlis að refsivald fyrir þau sé innan lögsögu dómsmálayfirvalda beiðanda þegar farið er fram á aðstoðina. Framangreint er almenns eðlis og ber að túlka rúmt þannig að einnig skal heimila aðstoð í málum þótt afbrotið falli líka undir lögsögu þess aðila sem beðinn er um aðstoð. Þá er gagnkvæm aðstoð vegna máls á hendur ríkisborgara þess ríkis sem beðið er um aðstoð ekki undanskilin ákvæðum samningsins.
Meðal annarra samninga á þessu sviði sem Ísland á aðild að má nefna samninginn um framkvæmd Schengen-samkomulagsins (II. kafli hans ber heitið „Gagnkvæm réttaraðstoð í sakamálum“), Evrópusambandssamninginn um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000 og bókun við hann frá 16. október 2001 og Norðurlandasamninginn um gagnkvæma dómsmálaaðstoð frá 26. maí 1975. Þá kveða Evrópusamningurinn um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990, samningur Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóvember 2011, samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988 og samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri brotastarfsemi frá 15. nóvember 2000, á um gagnkvæma aðstoð í sakamálum ásamt fleiri samningum sem Ísland er aðili að annars vegar á vettvangi Evrópuráðsins eða Sameinuðu þjóðanna.
Þrátt fyrir framangreint er það ekki skilyrði þess að Ísland geti veitt aðstoð samkvæmt íslenskum lögum að í gildi sé tvíhliða eða marghliða samningur milli Íslands og ríkis sem biður um aðstoð. Beiðni getur því borist og verið afgreidd á grundvelli íslenskra laga þrátt fyrir að viðkomandi ríki sé ekki aðili að samningi við Ísland eða aðili að fjölþjóðlegum samningi sem Ísland á aðild að. Til dæmis er ekki í gildi sérstakur samningur milli Íslands og Bandaríkjanna um gagnkvæma réttaraðstoð, þó getur beiðni um réttaraðstoð frá Bandaríkjunum grundvallast á ofangreindum samningi Evrópuráðsins um tölvubrot, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri brotastarfsemi. Í samstarfi ríkjanna um gagnkvæma réttaraðstoð hefur verið byggt á Evrópuráðssamningnum um gagnkvæma aðstoð í sakamálum og lögum nr. 13/1984, sem og gagnkvæmni (principle of reciprocity). Í gegnum tíðina hafa íslensk og bandarísk stjórnvöld átt í góðu samstarfi á sviði rannsókna sakamála, en íslensk löggæsluyfirvöld hafa reglulega óskað eftir liðsinni við rannsóknir sakamála hér á landi, oft á tíðum í tengslum við yfirheyrslur bandarískra ríkisborgara og til að afla upplýsinga vegna samfélagsmiðla, þ. á m. facebook og snapchat. Sem dæmi má nefna að á árinu 2018 fengu íslensk stjórnvöld tvær réttarbeiðnir frá bandarískum stjórnvöldum. Sama ár sendu íslensk stjórnvöld tvær beiðnir til bandarískra stjórnvalda um aðstoð í íslenskum sakamálum.
Íslensk löggjöf
IV. kafli laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum geymir ákvæði um réttaraðstoð í sakamálum, en gagnkvæm réttaraðstoð í sakamálum hefur einkum snúist um að afla sönnunargagna vegna rannsóknar í sakamálum í öðru ríki. Hún kann að vera fólgin í yfirheyrslu vitna eða grunaðra, húsleit, haldlagningu, lokun reikninga, birtingu fyrirkalla eða annarra skjala, svo dæmi séu tekin.
Ef erlent ríki óskar eftir aðstoð skal leita eftir henni með svokallaðri réttarbeiðni. Meginreglan samkvæmt lögunum er að réttarbeiðni skal send dómsmálaráðuneytinu nema annað sé ákveðið með samningi við annað ríki. Flestar réttarbeiðnir sem hingað berast og sem héðan eru sendar öðru ríki styðjast við Evrópuráðssamninginn um gagnkvæma aðstoð í sakamálum, en samkvæmt honum skulu allar beiðnir fara í gegnum dómsmálaráðuneytið sem miðstjórnarvald. Síðustu ár hafa íslensk stjórnvöld fengið frá 50 – 100 réttarbeiðnir árlega frá erlendum stjórnvöld. Íslensk stjórnvöld hafa jafnframt sent erlendum stjórnvöld u.þ.b. 10 – 30 slíkar beiðnir árlega.
Í réttarbeiðni skulu vera upplýsingar um tegund afbrots og hvar og hvenær það var framið, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna. Er hér átt við afbrot það sem er til rannsóknar í því ríki sem biður um aðstoð. Óheimilt er að verða við beiðni ef verknaðurinn sem hún er tilkomin vegna eða sambærilegur verknaður er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða ef hann samkvæmt ákvæðum í 5.–7. gr. laganna getur ekki verið grundvöllur framsals. Hafni dómsmálaráðuneytið ekki þegar beiðni um réttaraðstoð, sbr. skilyrði 3. mgr. 22. gr. laganna, eða vegna þess að ljóst þykir að ekki er hægt að verða við henni, skal málið sent til ríkissaksóknara til frekari fyrirgreiðslu og skal hann hlutast til um að nauðsynleg rannsókn fari fram, sbr. 5. mgr. 22. gr. laganna.
Réttarbeiðni um aðstoð frá erlendum yfirvöldum ber að meta með sama hætti og ef aðgerðirnar ætti að framkvæma í íslensku sakamáli á grundvelli íslenskra laga. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skulu erindi frá erlendum dómstólum og yfirvöldum um aðgerðir hér á landi í tengslum við sakamál sæta meðferð samkvæmt þeim lögum, þ.e. íslenskum lögum um meðferð sakamála. Í einhverjum tilvikum kunna erlend yfirvöld að setja fram sérstakar formkröfur í tengslum við rannsóknaraðgerðir, t.d. um eiðfastar skýrslur eða annað slíkt. Orðið er við slíkum beiðnum nema þær eða framkvæmd þeirra sé í andstöðu við íslensk lög.
Sé þess óskað í réttarbeiðni að fulltrúar frá erlenda ríkinu séu viðstaddir í sambandi við framkvæmd mikilvægra rannsóknaraðgerða yrði venjulega orðið við slíkri beiðni nema eitthvað sérstakt mæli því í mót. Fulltrúar erlendra lögregluyfirvalda mega hins vegar ekki framkvæma sjálfstæðar rannsóknaraðagerðir hér á landi án samþykkis íslenskra stjórnvalda, enda væri slíkt í andstöðu við meginreglu þjóðaréttar um forráðasvæðislögsögu ríkja, þ.e. algeran fullveldis- og einkarétt ríkis á að framkvæma ríkisvald á yfirráðasvæði sínu. Það er í höndum íslenskra lögregluyfirvalda að framkvæma rannsóknina sjálfa. Til dæmis skulu lögregluskýrslur sem ritaðar eru í sambandi við rannsókn vegna réttarbeiðni frá erlendu yfirvaldi ritaðar á íslensku af íslensku lögreglunni. Þetta hefur í för með sér, hvort sem sá yfirheyrði á kröfu til eða ekki, að túlkur verður að vera viðstaddur í þeim tilvikum þegar fulltrúar frá erlendu yfirvaldi fá tækifæri til að spyrja hinn yfirheyrða. Einstaklingur sem sætir yfirheyrslu á skýran rétt til þess að vita réttarstöðu sína, tilgang yfirheyrslu og mögulegar afleiðingar hennar.
Þegar efni réttarbeiðninnar hefur verið framkvæmt og rannsókn hefur verið lokið sendir ríkissaksóknari dómsmálaráðuneytinu öll gögn málsins og álitsgerð um það. Í kjölfarið sendir ráðuneytið gögn málsins til viðkomandi ríkis.