-2.2 C
Reykjavik
Þriðjudagur - 7. febrúar 2023
Auglýsing

,,Uppskrift að sjálfsmorði“

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

,,Mér brá mikið að sjá mynd sem árvökull maður setti inn á ónefnda síðu áhugamanna um stangveiði, vægast sagt“ Segir veiðimaður og skipstjóri til 40 ára sem skrifaði þessa aðsendu grein.

Í athugasemdinni segir um ofangreinda mynd: ,,Vona að þetta megi vera hér inni: Tveir á Þingvallavatni í gær. Bál hvasst og engin voru vestin. Þeir voru í vöðlum (sem ég myndi reyndar aldrei vera í ef ég væri í bát) og ekki að spyrja að leikslokum ef annar eða báðir féllu út fyrir.(sem stundum mátti litlu muna þann tíma sem ég horfði á þá). Í guðs bænum verið í björgunarvestum!!“ 

Ég verð bara að segja það að ég tek heils hugar undir með manninum sem fylgdist með þessum æfingum á Þingvallavatni. Mér er málið nokkuð skylt vegna þess að fyrir nokkrum árum var ég ásamt öðrum þaulvönum sjómanni á vatninu á bát með utanborðsmótor. Ég hef verið með skipstjórnarréttindi í 40 ár, stundað vetrarvertíðir, lent í flestu sem hægt er að lenda í á sjó á miðunum við Ísland og Grænland á öllum stærðum skipa.

Í ísnum við Grænland var oft erfitt, og lífshættuleg slagsíða á togaranum undan vetrarveðrum og ís sem þurfti að berja af í marga sólarhringa með exi, 10 manns á hverri vakt. Að ógleymdu mesta fárviðri sem geysað hefur á miðunum í kringum 1989 ca. það mældist ekki, vindmælirinn var einfaldlega í botni og fór ekki hærra. Ég var aldrei hræddur, vissi hvað mátti bjóða þessum skipum sem voru þó eins og korktappar í háloftunum stundum en héldust alltaf á floti og á réttum kyli.

Allt er þetta sem ég nefni hér að ofan í raun smáræði miðað við veðrin og „sjólagið“ sem getur orðið á Þingvallavatni og þeirra fljótandi fara sem þar eru. Ég var þar með þaulvanum sjómanni sem hafði stundað sjómennsku í áratugi á vetrarvertíðum í öllum veðrum á Atlantshafinu. Við fórum út á bátnum snemma morguns og vorum að veiðum allan daginn. Þegar fer að kvölda, var búið að þykkna vel upp og farið að blása verulega. Miðað við þann bát sem við vorum á sem er þó hafskip miðað við þessa eintrjáninga sem eru á myndinni, þá var ekkert „sjólag“ fyrir bátinn og ég dróg stöðugleika hans í efa ef við skyldum t.d. flatreka. Það voru þarna 7-9 vindstig og báturinn var eins og korktappi í öldunum og komið myrkur. Það er nóg fyrir mig að skoða myndina og þá sé ég að það er farið að hvítna í báru eins og er sagt á sjómannamáli en þá eru vindstigin að fara úr 5 í 6.

Þá tók ég ákvörðun sem bjargaði örugglega lífi okkar beggja að okkar mati, ég sagði við félaga minn, að við skyldum bara fara með bátinn í fjöru að vestanverðunni og labba að bílnum sem var að norðaustanverðu. Við gerðum það og vorum svo ótrúlega heppnir að fá bílfar yfir að bílnum en enginn var á ferð nema þessi eini maður sem var óvænt á ferðinni og skutlaði okkur yfir.

Ég treysti bátnum einfaldlega ekki yfir vatnið, þetta var bara vatnabátur, ekki hafskip eða togari frekar en þessir eintrjáningar á myndinni og að auki var ég ekki viss um hve mikið eldsneyti væri á tanknum en mótorinn var mjög sparneytinn. Ég veit um nokkra menn sem drápu sig á bátum á vötnum á árum áður með því að fara ekki varlega í stangveiðinni sem ég hef stundað í hálfa öld.

Lokaorð

Mín lokaorð til þessara manna og þeirra sem leika þetta eftir eru þau að vera í flotgalla við þessar aðstæður, alls ekki vöðlum, (það er sjálfsmorð). Flotgallar eru ódýrasta líftryggingin og vel hannaðir og öruggir og halda á þér líkamshita þangað til þyrla eða bátur kemur og nær í þig. Gott er að vera t.d. með 112 appið í símanum í vatnsheldum vasa og það er bara einn smellur til að þyrlan og björgunarsveit fari af stað til að bjarga þér. Í bátum og skipum er STK búnaður sem sér um þetta en ekki í leiktækjum. Leiktækin eru hættulegri en atvinnutækin við sömu eða svipaðar aðstæður.

Þessi búnaður og þær aðfarir sem sýndar eru á myndinni eru í raun uppskrift að sjálfsmorði því þú lifir bara í fáar mínútur í þessu ískalda vatni. Það hafa því miður of margir farið yfir í sumarlandið við veiðar, sem hefðu annars lifað með því að taka réttar ákvarðanir. Ef þú vilt ekki taka þessari ábendingu frá mér, þá vinsamlega gerðu það fyrir þá sem þykir vænt um þig.