Matvælaráðherra sem er umhverfissóði, tryggir hátt kolefnisspor og stöðvar veiðar smábáta sem eru umhverfisvænir. Það er það sem heimurinn kallar á í dag, enda eru allir að leggja sig fram í að vernda móður jörð fyrir heimsendi. Er þetta fólk ekki bara að vinna fyrir sjálft sig með því að nýta sér aðstæður á alla kanta fyrir sig og sína? Alla vega er hvergi að sjá að þetta fólk standi við sín kosningaloforð!
Eru trillusjófólk einskisvirði í augum ríkisstjórnar og finnst þeim því óþarft að gefa út hvernig framtíðar horfur fyrir strandveiðar eiga að líta út næstu áratugina? Nú eða er stefnt að því að taka umhverfisvænni veiðar úr leik og færa allt á aukið kolefnisspor stórútgerðar?
Það væri gott ef hægt væri að fá svör við einföldum spurningum sem gæfu fólki sem vill stunda strandveiðar fyrirsjáanleika með sín 700 + fyrirtæki sem skapa fullt af atvinnu um allt land og eru sennilega einu fyrirtæki í sjávarútvegi sem ógna ekki fiskistofnum þjóðarinnar og ekki heldur lífríki sjávar.
Hvernig tekur ráðherra einhliða ákvörðun í hvalamálum? En segist svo ekki geta það þegar um strandveiðar er að ræða. Þó var hægt að finna heimildir til að tryggja 48 daga ef grásleppuveiðar yrðu kvótasettar.
Hvernig á maður að trúa nokkru einasta orði sem dettur út úr skoltunum á þessu fólki sem var treyst til að tryggja fólkinu í landinu afnot af sinni auðlind og lýðræðislegt umhverfi í ákvörðunum um nýtingu auðlinda? Jafnframt var kosið um umhverfismál!
Virðist sem svo að almenningur hafi verið blekktur sem má sjá á að umhverfisvænustu veiðar strandveiðibáta eru takmarkaðar og stöðvaðar þrátt fyrir hávær köll að utan um umhverfisvænni fisk á alla markaði. Er það þetta sem VG stendur fyrir? Matvælaráðherra er umhverfissóði í orði og verki.
Nei, það er alls ekki rétt að kalla þennan flokk umhverfisvænni en aðra flokka. Nær væri að kalla slíkan flokk umhverfissóða sem tryggja skipum með gríðarlegt kolefnisspor veiðar allt árið. Nær væri í ljósi matvælaöryggis og stöðu heimsins varðandi tortímingu hans af mannavöldum að taka afstöðu með umhverfisvænni strandveiðiaðferð við veiðar og tryggja þeim heimildir allt árið.
En sumt fólk stígur ekki í vitið, svo einfalt er það.
Umræða