Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, heimsótti Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ og ræddi stöðuna á vinnumarkaði og veturinn framundan, en ljóst er að bæði sveitarfélög hafa orðið fyrir miklum áhrifum vegna Covid-19 faraldursins. Með í för voru Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, ásamt starfsfólki ráðuneytisins og starfsfólki Vinnumálastofnunar.
Ráðherra fundaði með fulltrúum sveitarstjórna í bæði Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, starfsfólki Vinnumálastofnunar á svæðinu, stéttarfélögum á Suðurnesjum og Félagi atvinnurekenda, ásamt öðrum fulltrúum atvinnulífsins. Atvinnuleysi sem er bein afleiðing af áhrifum Covid-19 faraldursins leggst mjög þungt á sveitarfélögin á Reykjanesi og var tilgangur fundanna að ræða leiðir til að bregðast við þeim efnahagslegu afleiðingum sem faraldurinn hefur.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Sveitarfélögin á Reykjanesi hafa orðið fyrir miklum áhrifum vegna Covid-19 faraldursins og þau eru að glíma við mikið atvinnuleysi. Þess vegna fannst mér mjög mikilvægt að funda með fulltrúum svæðisins og skoða hugsanlegar aðgerðir í vinnumarkaðsmálum sem hægt er að ráðast í og styðja betur við, ekki bara Reykjanesið, heldur önnur sveitarfélög sem eru í sambærilegri stöðu.“