Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skrifaði í dag undir stækkun friðlýsingar fólkvangsins í Garðahrauni efra í Garðabæ. Garðahraun var friðlýst sem fólkvangur í apríl 2014. Það er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum og er talið sérstætt á heimsvísu. Á svæðinu sem bætist við fólkvanginn nú, á jaðri hraunsins við Hraunhóla, er helluhraun, en innar á hrauninu tekur við klumpahraun.

„Garðbæingar hafa verið til fyrirmyndar í því að taka frá svæði í þágu náttúruverndar og nú stækka friðlýst svæði innan marka Garðabæjar enn,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við sáum það svo skýrt í heimsfaraldrinum hvað aðgengi að friðlýstum svæðum í nærumhverfinu skiptir fólk miklu máli til ýmiss konar útivistar og afþreyingar. Við vitum líka að aðgengi að grænum svæðum eykur lífsgæði og stuðlar og bættri lýðheilsu, svo þetta er heillaskref fyrir Garðbæinga og okkur öll sem getum nýtt svæðið.“
Viðstaddir undirskriftina voru auk ráðherra og bæjarstjóra, fulltrúar bæjarstjórnar, skipulagsnefndar og umhverfisnefndar Garðabæjar, ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins og fulltrúum Oddfellow, Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins, en stækkunin hefur verið unnin í góðu samráði fulltrúa þessara aðila.