Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatns og eldissviðs Hafrannsóknarstofnunar segir að stofnunin haldi utanum skráningu á hnúðlöxum eins og öðrum fiskum sem veiðast í ám og vötnum. Hann segir að tölur um skráða veiði fyrir 2023 séu ekki nema að litlum hluta komnar í hús. Yfirleitt eru heildar tölur um veiði ekki komnar saman fyrr en á vormánuðum árið á eftir þar sem skil á tölum eru oft mjög sein. Bæjarins besta fjallaði um málið.
„Ég hef verið að giska á að fjöldi veiddra hnúðlaxa hafi verið ca 800 samanborið við 368 [árið] 2021 og byggi það á þeirri aukningu sem ég hef heyrt af í nokkrum ám, en það skýrist frekar á næstunni.“
Hjörtur Cýrusson staðfestir í samtali við Bæjarins besta að 73 hnúðlaxar hafi veiðst í Staðará í Steingrímsfirði í sumar. Hann segist telja að hnúðlaxinn sé kominn til þess að vera. Farið var í ána í september með silunganet og dregið fyrir eldislax og hnúðlax. Veiddust 73 hnúðlaxar.
Hjörtur sagði að hnúðlaxinn héldi sig á grynnra vatni en villti laxinn og væri því á öðrum stað í ánni. Hnúðlaxinn drepst eftir hrygningu. Seiði hnúðlaxins færu fljótt í sjó að sögn Hjartar og væru ekki í samkeppni við seiði villta laxins um æti.
Samkvæmt síðustu tilkynningu Hafrannsóknarstofnunar sem var 18. október voru komnir 306 laxar til greiningar og höfðu þá greinst 161 eldislax og átti þá eftir að erfðagreina 142 laxa. Sex laxanna höfðu veiðst í Staðará.