4.8 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 26. janúar 2023
Auglýsing

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir næsti útvarpsstjóri?

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img

 

Við höfum öllu að tapa

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir fer yfir fjölmiðlamarkaðinn og býður sig fram til embættis útvarpsstjóra á facebooksíðu sinni

Nýlega hafa skapast umræður um stöðu Ríkisútvarpsins vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnunina, vegna fjölmiðlafrumvarps mennta- og menningarmálaráðherra og vegna þess að nú þarf að ráða nýjan útvarpsstjóra. Pólitískt kjörin stjórn Ríkisútvarpsins hefur, í þeirri von að fleiri hæfir umsækjendur sæki um starfið, ákveðið að umsækjendur njóti nafnleyndar.
Ísland er fámennt land, eiginlega bara hverfi, og nálægðin gerir okkur erfitt fyrir. Við erum nátengd í gegnum samfélagið allt og sú nærmenning sem hér ríkir gerir það að verkum að hægt er að benda á óeðlileg tengsl fólks nánast hvert sem litið er, hvort sem er í opinberri stjórnsýslu eða á vinnumarkaðnum. Maður þekkir mann og ef maður þekkir mann, þá er maður betur settur en sá sem ekki þekkir mann, þótt hann þekki örugglega einhvern mann sem þekkir manninn.

Fjölmiðlar heimsins standa frammi fyrir vanda. Eignarhald auðæfa er á fárra höndum, lýðræðið hopar fyrir einræði og öfgasjónarmiðum og í ofgnótt upplýsingastreymis er erfitt að sjá hið sanna. Til þess þarf mannafla, peninga og ritstjórnarlegt sjálfstæði.

Þar sem lýðræði á undir högg að sækja eru fjölmiðlar lífsnauðsynlegir. Staða ríkisfjölmiðla gagnvart einkareknum fjölmiðlum er til umræðu á Íslandi (og annarsstaðar í heiminum reyndar líka) og þar takast á ólík sjónarmið. Umræðan er bæði um rekstur og hugmyndafræði. Hverjar eru skyldur fjölmiðla við almenning, að fræða eða hræða? Er fólk neytendur eða bara njótendur? Skarast þessi hlutverk almennings stundum innan fjölmiðla? Og hver á að borga fyrir upplýsinguna?
Hlutverk fjölmiðla er alltaf að reyna að ná athygli fólks en tilgangur þeirrar athyglisföngunar er ekki alltaf sá sami. Fjölmiðlar – ríkisreknir annars vegar og einkareknir hinsvegar – verja ólíka hagsmuni en það er fásinna að trúa því að allir fjölmiðlar geti þjónað öllum alltaf.
Nokkrir einkareknir fjölmiðlar reyna að höfða til breiðs hóps fólks með þægilegri dægur- umræðu og dagskrá sem engan stuðar. Sumir einkareknir fjölmiðlar taka endurtekið upp hanskann fyrir óvinsæl sjónarmið eða hagsmuni minnihlutahópa. Aðrir reyna að gæta hlutleysis og enn aðrir ganga augljósra erinda hagsmunafla. Skýrasta dæmið á Íslandi er Morgunblaðið, sem hefur fengið mest rekstrarfé allra einkarekinna fjölmiðla. Morgunblaðið er beinlínis gert út af útgerðinni og var lengst af málgagn Sjálfstæðisflokksins en er nú vegna fýlu Davíðs við Bjarna orðið málgagn Miðflokksins. Þetta er ekkert leyndarmál, þetta vita allir. Morgunblaðið á ríkustu vinina, með mestu hagsmunina og í krafti þess getur Morgunblaðið haft mikil áhrif á þær upplýsingar sem landsmönnum berast.
Aðrir einkareknir fjölmiðlar eiga ekki eins ríka vini og þurfa stuðning eins og þann sem menntamálaráðherra talar nú fyrir í frumvarpi sínu að hljóta eigi styrki. Einkareknir fjölmiðlar verða að geta borið sig og þurfa til þess fjárhagslegan stuðning.
Þrátt fyrir að Ríkisútvarpið eigi að vera fjölmiðill allra landsmanna er það ekki svo í allra augum. Fólk ætti samt að staldra við þegar ráðamenn og háværar raddir slá því fram að tilvist Ríkisútvarpsins sé úrelt, að útvarpsgjaldið ætti ekki að innheimta og að stofnunin ætti ekki að njóta tekna af auglýsingum. Auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins, sem bætast ofan á tæplega 17.000 króna útvarpsgjald, eru 20% af þeim heildartekjum sem fjölmiðlar hafa af auglýsingagerð í landinu. Stór hluti þeirra tekna er af sjónvarpsauglýsingum sem myndu ekki færast til annara miðla nema í litlum mæli ef Ríkisútvarpið væri ekki á auglýsingamarkaði. Þá myndi fjöldi hæfileikafólks, hönnuða og leikstjóra missa framfæri sitt og þekking flytjast burt eða glatast. Sjálfsagt ætti að þykja að hafa íslenskt auglýsingaefni, því auglýsingar varðveita sérkenni þjóða og menningu. Á eftir Ríkisútvarpinu tekur Morgunblaðið mest til sín, þrátt fyrir að hafa sterkastan bakhjarlinn, þá Vísir/365 og Fréttablaðið og svo reka lestina miklu minni miðlar sem eiga ekki eins ríka vildarvini. Fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra er tilraun til að skapa sanngjarnara umhverfi fyrir einkarekna fjölmiðla sem halda úti ólíkum sjónarmiðum og eru lýðræðinu lífsnauðsyn.
Að fjármálaráðherra samþykki frumvarp Lilju menntamálaráðherra með fyrirvara um endurskoðun á auglýsingastöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði segir okkur tvennt; að hann óttast að fjölmiðlar aðrir en þeir sem eru honum þóknanlegir – sjálfstæðir fjölmiðlar eða Ríkisútvarpið – fái vald til að flytja okkur fréttir af hlutlægni þar sem okkar hagsmunir eru í fyrirrúmi. Hinsvegar bendir þetta til þess að hann sé veraldlega sinnaður gaukur sem skilur ekki mikilvægi menningarverðmæta sem ekki er hægt að kaupa og selja.
Bjarni Benediktsson vill ekki bara stjórna ríkisbókhaldinu, heldur upplýsingunni allri. Þessu eigum við að hafna, burt séð frá því hvort okkur finnst Bjarni gúddí gaur eða ekki. Réttara væri að klæða hann í aðsniðinn samfesting sem heftir afskipti hans af Íslandssögunni eins og hún er og verður vonandi varðveitt áfram í fjölþættri dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.
Ríkisútvarpið er í eðli sínu fremur íhaldssöm stofnun, en það er hlutverk hennar og ég skal reyna að útskýra hvers vegna það er og verður að vera þannig áfram. Það getur vel verið að margt af dagskrárefni Ríkisútvarpsins sé ekki fullkomlega aðgengilegt öllum, höfði til fárra og virki stundum beinlínis fráhrindandi á fólk. Ýmislegt af efni Ríkisútvarpsins, bæði gamalt og nýtt, er framsett af dagskrárgerðarfólki sem teflir fram efni sem hefur hvorki augljóst aðdráttarafl eða beina skírskotun til líðandi stundar. Oft þykir tónn í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins útilokandi og sumir segja að þar svífi stundum ákveðinn menntahroki og yfirlætistónn yfir vötnum. Margt í dagskrá Ríkisútvarpsins tekur ekki bara á hinu almenna heldur hinu sértæka. Það sinnir ekki straumum og tískusveiflum, heldur kynnir það sem er framandi, fáheyrt og endurvekur löngu gleymdan arf úr sameign okkar. Fjölbreytt sérviska Ríkisútvarpsins er auður allra landsmanna því Ríkisútvarpið lítur ekki á notendur sína sem hungraða neytendur heldur reynir að kappkosta að búa til, samhliða nútímalegri dagskrárgerð, efni sem fangar ólíklegustu kima mannlegrar tilveru og varðveita hana til frambúðar fyrir komandi kynslóðir. Ekki sýndarsjóði, sem við erum að missa úr höndunum þrátt fyrir stjórnarskrárvarinn rétt okkar, eins og auðæfi hafs og lands, heldur raunverulegan sameignarsjóð landsmanna sem ekki er hægt að selja, græða á, né gefa.
Ég held að öllum þyki á einhvern undarlegan hátt dálítið vænt um Ríkisútvarpið. Það er fastur punktur í tilverunni sem allflestir landsmenn eiga einhvern snertiflöt við. Við eigum Ríkisútvarpinu margt að þakka, efnisflutning sem tengir okkur við fortíð okkar og uppruna þar sem tíðarandi, viðhorf og málfar eru varðveitt. Raddir og áhrif þeirra Íslendinga sem fyrst störfuðu við frétta og dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi og setja enn þann dag í dag sinn lit á allt starf stofnunarinnar. Margir okkar þekktustu og ástsælustu leikara og skemmtikrafta, leikstjóra, höfunda, hönnuða, kvikmynda- og auglýsingagerðarfólks hlaut sína fyrstu skólun við Ríkisútvarpið. Víðsýnt, stundum sérviturt, en umfram allt fjölbreytt tónlistaruppeldi hefur Ríkisútvarpið séð um, skilningur er á mikilvægi dagskrárgerðar fyrir börn á litlu málsvæði og þá staðföstu stefnu stofnunarinnar að á Íslandi verði að framleiða mikið af efni á íslensku. Allt þetta til að gæta þess að við sem þjóð missum ekki sjónar á sérkennum okkar og menningarsögu.
Ein frumskylda Ríkisútvarpsins samkvæmt lögum er að flytja fréttir af hlutLÆGNI ekki hlutLEYSI með almannahagsmuni að leiðarljósi. Það þýðir að starfsfólki er uppálagt að upplýsa almenning um allt sem hann varðar beint, taka afstöðu MEÐ almannahagsmunum og það hefur í för með sér að þar birtast óhjákvæmilega óþægilegar og afhjúpandi fréttir fyrir þá sem hafa hagsmuni fárra fremur en margra að leiðarljósi. Fyrir vikið fær fréttastofa Ríkisútvarpsins og útvarpsstjóri iðulega yfir sig skammir og í þvínæst umræðu um sjálfan tilverurétt stofnunarinnar. Þetta er segin saga. Dæmin eru endalaus og reiðir hagsmunaaðilar hafa verið úr öllum flokkum í gegnum tíðina, þótt sumir og sérlega þeir sem hafa sérhagsmuna eða ímyndar að gæta, séu hvað illskeyttastir gagnvart Ríkisútvarpinu. Sem er að sinna lögbundinni skyldu sinni við OKKUR. Við eigum ekki að hoppa á sveif með þeim sem vilja slökkva á Ríkisútvarpinu eða skerða starfsemi þess að óathuguðu máli. Við verðum að hugsa sjálf, draga ályktanir samkvæmt bestu visku og láta ekki teyma okkur áfram hugsunarlaust. Viljum við allar fréttir sem varða almannahagsmuni þótt fólk reiðist stundum, verði sárt, finnist að sér vegið og umfjöllun leiði jafnvel til álitshnekkis og refsinga ef lög hafa verið brotin? Ég held að flestir svari því játandi. Ég trúi því að við séum flest sannleiksleitandi, sanngjörn og viljum að réttlæti nái fram að ganga.
Í nálægðarsamfélaginu Íslandi finnst mér fréttastofa Ríkisútvarpsins oft alltof kurteis og alls ekki hafa nægilegt svigrúm til að fylgja málum eftir. Hvernig stendur á því að það er ekki gengið á eftir aðdróttunum fráfarandi ríkislögreglustjóra, Haraldar Jóhannessonar, um spillingu innan lögreglunnar og í stað þess gerður við hann starfslokasamningur sem flestum óar við vegna þess hróplega óréttlætis sem samningurinn áréttar að viðgangist í íslensku samfélagi? Hvað veit Haraldur um okkar samfélag sem við vitum ekki en þyrftum að vera upplýst um?
Á bestu stundum fréttastofunnar verða til þættir eins og Kveikur, sem fletta hulunni af alvarlegu misnotkunar- og spillingarmáli sem varðar okkur öll og alla innviði samfélags okkar. Þessa dagskrárgerð borguðum við meðal annars með skattpeningum okkar og við eigum að vera stolt af og meðtaka að Ríkisútvarpið er á sínum bestu dögum hinn raunverulegi samherji allra landsmanna.
Að þessu sögðu gengst ég fús við því að ég ætla mér að sækja um stöðu útvarpsstjóra vegna þess að mér þykir vænt um Ríkisútvarpið og trúi staðfastlega á mikilvægi þess og læt engan segja mér annað. Ég á enga vildarmenn í ráðandi ríkisstjórn, þekki engan stjórnarmann Ríkisútvarpsins persónulega og hef bókstaflega engu að tapa. –  #RUV #RÚV #Ríkisútvarpið #Fjölmiðlar

Hefur þú áhuga á að sjá Fréttatímanum vaxa og dafna áfram sem frjálsan og óháðan?
Með því að styrkja Fréttatímann mánaðarlega eða einu sinni, stuðlar þú að því.

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10156268609500834&set=a.50019950833&type=3&eid=ARAVZlBYw-UWhDkzCZZkU4FeLV_vOHJc_eLz4GM4rmVZ6VBd-5_sXGGkDi20SyvNanVsGs5Zgo0RMqhQ