Héraðsdómur Reykjaness sakfelldi 23 ára mann fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára barni. Hann braut gegn stúlku á heimili sínu í Reykjavík í febrúar á síðasta ári. En þá bjó hann einn í innréttuðum bílskúr í Reykjavík en hann kynntist ungu stúlkunni á samfélagsmiðlinum Snapchat. Maðurinn átti kærustu þeim tíma er hann braut gegn barninu.
Í ákæru segir m.a. að maðurinn sé ákærður „Fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa þriðjudaginn 1. febrúar 2022, á þáverandi heimili sínu að […], Reykjavík, án samþykkis og með því að beita ólögmætri nauðung, haft samræði og önnur kynferðismök við A, kt. […], sem þá var 13 ára, en ákærði lét stúlkuna hafa við sig munnmök og hafði við hana samræði.“
Maðurinn var jafnframt sakaður um grófa og ítrekaða kynferðislega áreitni gagnvart annari stúlku sem stóð yfir á nokkurra mánaða tímabili.
Í ákæru segir m.a. að maðurinn sé ákærður „Fyrir kynferðislega áreitni, með því að hafa í nokkur skipti á tímabilinu frá janúar til júní 2022, á heimili B, kt. […] og í bifreið sinni, áreitt B kynferðislega, en ákærði þuklaði að minnsta kosti fjórum sinnum á brjóstum stúlkunnar innanklæða og reyndi tvisvar sinnum að færa hönd að kynfærum hennar og í eitt skipti rassskellti hann stúlkuna og sagði henni að hún væri með flottan rass.“
Í dómnum kemur fram að maðurinn er 23 ára gamalli hælisleitandi og hefur búið á Íslandi í þrjú ár.
Ákærði neitaði sök gagnvart báðum ákærum en framburður brotaþola þótti mjög trúverðugur og stöðugur auk þess sem gögn um samskipti á samskiptaforritum ýttu undir sekt mannsins. Ljóst er að samræðið var með vilja stúlkunnar en hinn ákærði hélt því fram að hann hefði ekki vitað um réttan aldur hennar. Sá framburður hans var hins vegar reikull og ekki í samræmi við samskiptagögnin. Niðurstaða dómsins er að hann væri ekki sekur um nauðgun varðandi ákæru um það brot, samkvæmt fyrirliggjandi dómi.
Braut gegn stjúpdóttur sinni
Maðurinn neitaði að hafa beitt aðra stúlku margsinnis kynferðislegri áreitni á nokkurra mánaða tímabili en sú stúlka glímir við þroskahömlun, ákærði átti í ástarsambandi við móður hennar. Stúlkan leit á hann sem stjúpföður sinn í tæpt ár. Á grundvelli framburðar brotaþola og sérhæfðra vitna þótti sök hans sönnuð,
Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum og dæmdur til að greiða 13 ára stúlkunni 1,5 milljónir króna í miskabætur og þroskahömluðu stúlkunni 1 milljón króna.