Í skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors og Indriða H. Þorlákssonar fyrir Eflingu er það lagt til að veiðigjöld verði hækkuð verulega og að auðlindagjald verði innheimt við orkuframleiðslu, fiskeldi og ferðaþjónustu. Gjaldtaka eigi að miðast við að ríkissjóður fái í sinn hlut að minnsta kosti 75% af umframarði í sjávarútvegi með veiðigjöldum og/eða uppboði á kvóta. Breytingarnar eru rökstuddar með fullyrðingu um að ekki hafi verið tryggt að þjóðin fái réttmæta hlutdeild í arðinum þegar nýtingarréttur auðlinda í eigu ríkis og sveitarfélaga er í höndum einkaaðila.
Í skýrslunni er fjallað um að leiðir verði kannaðar til þess að leggja auðlindagjald (aðstöðugjald eða uppboð) á þá aðila sem fengið hafa einkarétt til nýtingar á náttúruauðlindum til ferðaþjónustu. Þá leggja þeir til að sérstakt orkugjald verði lagt á sölu orku til stóriðju sem taki mið af mismun af orkuverði til stóriðju á Íslandi og í Evrópu.
Varðandi fiskeldi og námuvinnslu er lagt til að auðlindagjald verði lagt á leyfi til slíkrar nýtingar náttúruauðlinda og að unnið verði að frekari breytingum á innheimtu veiðigjalda af sjávarútvegi.
Þá segir jafnframt í skýrslunni að „Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár og laga um eign þjóðarinnar á náttúruauðlindunum hefur þeim verið ráðstafað til einkaaðila án eðlilegs endurgjalds.
Breyting á því er í senn réttlætismál og tekjulind fyrir ríkissjóð sem getur í staðinn létt sköttum af almenningi,“