Hugleiðingar veðurfræðings
Mánudagur heilsar með svipuðu veðri og var um helgina. Í stuttu máli sagt má búast við austlægri átt áfram í vikunni og fremur kalt hjá okkur. Él á víð og dreif og líkur eru til þess að allir landshlutar hafi fengið skammt af éljum áður en vinnuvikan er á enda. Ef við leyfum okkur að rýna lengra fram í tímann, þá gefa spár sterkar vísbendingar um að veðrið skipti um gír um næstu helgi og þá taki við sunnanátt með hlýindum og rigningu sem einkum verður bundin við sunnanvert landið.
Veðuryfirlit
Um 800 km SA af Hvarfi er allvíðáttumikil 982 mb lægð sem þokast ASA. Yfir N-Grænlandi er kyrrstæð 1045 mb hæð. Samantekt gerð: 08.02.2021 03:29.
Veðurhorfur á landinu
Austlæg átt 5-13 m/s. Skýjað með köflum og þurrt að kalla, en él á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti kringum frostmark, en vægt frost norðanlands. Kólnar í kvöld. Norðaustan 3-10 á morgun, en 10-15 á Vestfjörðum. Dálítil snjókoma um landið norðanvert, en él sunnanlands seinnipartinn. Hiti frá frostmarki syðst, niður í 8 stiga frost í innsveitum fyrir norðan.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Austan 5-10 m/s, en 3-8 á morgun. Skýjað með köflum. Hiti 0 til 3 stig í dag, síðan vægt frost.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Norðaustan 3-10 m/s, en 10-15 á Vestfjörðum. Él um landið norðanvert og einnig syðst á landinu. Frost 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.
Á miðvikudag:
Breytileg átt 5-13 og víða dálítil snjókoma eða él, en hægari vindur og úrkomulítið á Austurlandi. Frost 0 til 7 stig, en frostlaust syðst.
Á fimmtudag og föstudag:
Suðaustan 8-13 og él sunnantil á landinu, hiti 0 til 4 stig. Þurrt á norðurhelmingi landsins og frost 0 til 5 stig.
Á laugardag:
Ákveðin suðaustanátt með rigningu eða slyddu, en úrkomulítið á Norðurlandi. Hlýnandi veður.
Á sunnudag:
Sunnanátt og rigning, en áfram úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 3 til 8 stig.