7.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

Allt að tvö hundruð lyfjaskammtarar í notkun á reykvískum heimilum

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Undanfarið rúmt ár hafa lyfjaskammtarar verið í prófun meðal notenda heimaþjónustu samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar. Þeim hefur verið vel tekið og er nú innleiðing þeirra formlega hafin. Lyfjaskammtarar eru fyrsta tegund velferðartækni sem verður að fullu innleidd hjá Reykjavíkurborg. Innleiðing stendur yfir á ýmiss konar tæknilausnum sem hafa það markmið að viðhalda eða auka öryggi, virkni eða sjálfstæði fólks í daglegu líf.

Fram til þessa hafa lyfjaskammtarar verið í prófunum hjá heimaþjónustu Reykjavíkurborgar að því er fram kemur hjá borginni, en til stendur að nýta þá í fleiri þjónustuleiðum velferðarsviðs, til dæmis í íbúðakjörnum og utankjarnaþjónustu fyrir fatlað fólk.

Tæknilausn sem styður við sjálfstæði og valdeflingu

Lyfjaskammtararnir sem hafa verið til prófunar eru frá finnska fyrirtækinu Evondos. Á dögunum var undirritaður samningur við Icepharma, sem flytur inn lyfjaskammtarana, til næstu tveggja ára um leigu á allt að 200 skömmturum.

Lyfjaskammtarar tryggja að fólk fái lyfin sín á réttum tíma, í réttum skammti án daglegrar aðkomu starfsmanns. Þeir eru því tæknilausn sem styður við sjálfstæði skjólstæðinga og stuðlar að þátttöku og valdeflingu við að viðhalda eigin heilbrigði. Tæknin eykur einnig skilvirkni þjónustunnar og gerir heimaþjónustunni kleift að þjónusta fleiri skjólstæðinga en ella.

Lyfjaskammtari virkar þannig að hann leiðbeinir skjólstæðingum að taka lyf með því að gefa frá sér hljóð- og raddmerki ásamt skrifuðum skilaboðum á skjá.​ Í hann eru settar lyfjarúllur með fyrirfram skömmtuðum lyfjum skjólstæðinga frá apóteki​. Ef lyf eru ekki tekin á réttum tíma sendir lyfjaskammtarinn skilaboð til umönnunaraðila, með sms-i og skilaboði í miðlægt kerfi, þannig hægt er að bregðast við og tryggja að viðkomandi fái lyfin sín.

Ekki mögulegt án starfsfólksins

Lykillinn að því að vel gangi að innleiða velferðartækni er að starfsfólk sé tilbúið til að breyta sínum starfsháttum og læra inn á nýja tækni. Kristín Sigurðardóttir, verkefnastjóri í Velferðartæknismiðjunni, segir starfsfólk almennt mjög jákvætt og spennt fyrir tækninýjungum á borð við lyfjaskammtara. „Við gætum aldrei ráðist í svona nýsköpunarverkefni ef við hefðum ekki svona flott starfsfólk, sem er tilbúið að vinna með okkur að breyttu verklagi og prófa nýjar leiðir við veitingu þjónustunnar,“ segir Kristín.

Sama gildi um notendur þjónustunnar. „Notendur taka tækninýjungum yfirleitt mjög vel og eru tilbúnir að prófa þær með okkur. Margir af okkar þjónustunotendum eiga það til að efast um tæknigetu sína en yfirleitt kemur það þeim á óvart hvað þeir eiga auðvelt með að læra á tæknina og hversu auðveld og örugg tæknin er í notkun,“ segir Kristín.

Teymi heldur utan um rafræna heimaþjónustu

Sérstakt teymi hefur verið stofnað innan heimaþjónustu Reykjavíkurborgar sem heldur utan um rafrænar þjónustuleiðir á borð við lyfjaskammtarana. Þeir eru sem fyrr segir fyrsta velferðartæknin til þess að komast af prófunarstigi og yfir í fulla innleiðingu hjá borginni. Reykjavíkurborg er með fleiri tegundir velferðartækni til prófana. Má þar nefna skjáheimsóknir, þar sem þjónustuþegar heimaþjónustu fá vitjanir í gegnum myndsímtal, en þær hafa einnig mælst vel fyrir. Þá er framundan prófunarverkefni með fjarvöktunarbúnað, þar sem á að fylgjast með einkennum hjartabilaðra einstaklinga í gegnum fjarbúnað. Skjólsæðingar mæla þá sjálfir lífsmörk eins og blóðþrýsting, mettun og þyngd og skrá inn í smáforrit. Smáforritið sendir svo upplýsingarnar í miðlægt kerfi sem hjúkrunarfræðingar fylgjast með og bregðast við ef einkenni eða líðan versna.