Skýrslan inniheldur tillögur að aðgerðum sem miða að aukinni nýsköpun og þróun í greininni en einnig tillögur er varða framkvæmd niðurgreiðslna raforku til garðyrkjubænda. Meðal tillagna starfshópsins eru endurskoðun á heildarfjárhæð niðurgreiðslna vegna raforkukostnaðar, endurskilgreining á mörkum niðurgreiðsluhlutfallsins, ítarlegri skilgreiningar í búvörusamningum um hvaða ræktun eigi rétt á niðurgreiðslu rafmagns til lýsingar, stofnun rannsókna- og þróunarsjóðs garðyrkjunnar sem myndi veita styrki til verkefna á sviði framleiðniaukandi nýsköpunar, nýrra umhverfisvænna ræktunaraðferða og þróunar orkusparandi tækni fyrir garðyrkju, áhersla á aukna notkun orkusparandi ljósgjafa og aðrar orkusparandi aðgerðir og kannaður fýsileiki þess að stofna Garðyrkjuklasa Íslands. Allar eru þessar tillögur með fyrirvara um fjármögnun.
Skýrsla starfshópsins verður tekin til frekari skoðunar og er hún m.a. mikilvægt framlag í matvælastefnu fyrir Ísland þar sem áherslu er lögð á uppruna matvæla og kolefnisfótspor við framleiðslu matvæla. Hér er um mikilvægt loftlagsmál að ræða og að sama skapi undirstrikar skýrslan fjölbreytta möguleika á sviði nýsköpunar og tækniþróunar innan íslenskrar garðyrkju.