„Umræða hefur skapast um af hverju nýttur er laugardagur á páskum til þess að hafa viðhaldsstopp. Ástæða þess er sú að bilun sem kom upp fyrir stuttu í rafkerfi skipsins hefur valdið því að ekki hefur verið hægt að sigla skipinu með fullu afli. Mjög mikilvægt er að vera með fullt afl og fulla stjórn á skipi þegar veður er slæmt og ölduhæð mikil. Á það bæði við þegar siglt er í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn,“ segir í tilkynningu frá Herjólfi.
„Sem betur fer hefur veður verið ágætt undanfarið og áætlun lítið raskast en þó meira en ef skipið hefði siglt fyrir fullu afli. Ástæða þess að valinn er þessi dagur til verksins er sá að varahlutir komu nú rétt fyrir páska. Ekki hefur verið hægt hefja viðgerð fyrr, þar sem verkið þarfnast undirbúnings.
Viðgerð mun taka lágmark um 6 klukkustundir. Næturstopp er því ekki nægur tími til viðgerðar, því klára þarf verkið í einni törn. Vonandi klárast þessi viðgerð á laugardagskvöldið eða aðfaranótt sunnudags svo unnt verði að sigla á áætlun á sunnudag (Páskadag) og vonandi mánudag í Landeyjahöfn þegar viðgerð er lokið og skipið með fullt afl,“ segir í tilkynningunni og sagt að starfsfólk Herjólfs kappkosti að veita framúrskarandi þjónustu við þetta samfélag á hverjum degi og mun gera það áfram.
Umræða