Athugun á yfirráðum í Brimi
Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um athugun Samkeppniseftirlitsins á yfirráðum í Brimi telur eftirlitið rétt, í þágu upplýstrar umræðu, að taka eftirfarandi fram:
- Við úrlausn samrunamála geta vaknað spurningar um hvort stofnast hafi til yfirráða í tilteknu fyrirtæki. Ef aðili með yfirráð í einu fyrirtæki nær yfirráðum í öðru fyrirtæki telst samruni hafa átt sér stað í skilningi samkeppnislaga. Ef velta viðkomandi fyrirtækja uppfyllir tiltekin fjárhæðamörk kveða samkeppnislög á um að tilkynna beri Samkeppniseftirlitinu um samrunann áður en hann kemur til framkvæmda, svo eftirlitið geti metið hvort samruninn skaði samkeppni og kalli á íhlutun í samræmi við samkeppnislög.
- Í samkeppnisrétti miðar athugun á yfirráðum í einföldu máli að því að komast til botns í því hver eða hverjir geta í reynd haft afgerandi áhrif á ákvarðanir og viðskiptastefnu fyrirtækis. Matið ræðst því t.d. ekki af tilteknum eignarhlutföllum einum og sér, heldur geta ýmis önnur atriði haft áhrif á matið, s.s. samningsskuldbindingar, mæting á hluthafafundi, sameiginleg viðskiptasaga, fjölskyldutengsl og fleira sem dregur fram hvar yfirráð liggja í reynd.
- Til athugunar er nú hvort stofnast hafi til yfirráða í Brimi, sem tilkynna hefði átt lögum samkvæmt til Samkeppniseftirlitsins áður en þau komust til framkvæmda. Nánar tiltekið er eftirlitið að taka afstöðu til þess hvort Útgerðarfélag Reykjavíkur hf., Fiskitangi ehf., KG Fiskverkun ehf. og FISK-Seafood eignarhaldsfélag (í dag RE-13 ehf.) hafi myndað yfirráð í Brimi. Fyrir eftirlitinu liggur að afla frekari gagna og gefa öllum aðilum málsins ítrasta tækifæri á að koma skýringum og sjónarmiðum á framfæri. Ekki er hægt að fullyrða um endanlega niðurstöðu málsins fyrr en að undangenginni þessari rannsókn.
- Athugunin hófst sem liður í rannsókn á kaupum Brims á Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf. Tilkynnti Brim um þau kaup og tók eftirlitið afstöðu til málsins innan lögbundinna tímafresta. Í málinu færði Samkeppniseftirlitið rök fyrir yfirráðum Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila í Brimi. Mótmæltu samrunaaðilar því frummati eftirlitsins. Til þess að geta tekið afstöðu til kaupanna á Kambi og Grábrók skoðaði eftirlitið hvort þau myndu hafa skaðleg áhrif á samkeppni ef umrædd yfirráð í Brimi væru lögð til grundvallar. Niðurstaðan varð sú að svo væri ekki og því ekki ástæða til að gera athugasemdir við kaupin, hvort sem yfirráðin væru talin vera til staðar eða ekki, sbr. nýlega ákvörðun nr. 19/2020.
- Yfirráð í Brimi komu einnig til skoðunar í tengslum við kaup Brims (þá HB Granda) á Ögurvík á árinu 2018, sbr. ákvörðun nr. 30/2018. Á þeim tíma þótti ekki forsenda til þess, á grundvelli fyrirliggjandi gagna og gegn eindreginni neitun félaganna, að slá því föstu að Útgerðarfélag Reykjavíkur hefði öðlast yfirráð í Brimi. Hins vegar var tekið fram að málið yrði hugsanlega tekið upp að nýju ef frekari vísbendingar kæmu fram sem bentu til yfirráða. Slíkar vísbendingar hafa nú komið fram.
- Komist Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu í athugun sinni að stofnast hafi til framangreindra yfirráða í Brimi þarf ennfremur að taka afstöðu til þess hvort umræddum aðilum hafi borið að tilkynna um yfirráðin í sérstöku samrunamáli og hvort vanræksla á því kalli á viðurlög samkvæmt samkeppnislögum en lögbundin tilkynningarskylda fyrirtækja á breytingum á yfirráðum er mikilvægur þáttur í samrunaeftirliti Samkeppniseftirlitsins. Ef niðurstaðan verður sú að til tilkynningarskylds samruna hafi stofnast þarf síðan að taka efnislega afstöðu til hans.
- Tilgangur samrunareglna samkeppnislaga er m.a. að vinna gegn skaðlegri samþjöppun á mörkuðum, sem skaðað getur hagsmuni viðskiptavina, keppinauta og almennings. Þannig getur samkeppni t.d. skaðast með því að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist. Sjávarútvegsfyrirtæki starfa á fjölþættum mörkuðum, þ.m.t. mörkuðum fyrir viðskipti með aflaheimildir, tilteknar tegundir veiða, vinnslu sjávarafla, fiskmarkaði, útflutningi afurða o.s.frv. Samþjöppun á ýmsum þessara markaða getur haft skaðlegar afleiðingar fyrir íslenskan almenning og efnahagslífið.
- Vegna umfjöllunar í Kastljósi þann 7. maí sl. vill Samkeppniseftirlitið taka fram að það hefur ekki krafist þess að Guðmundur Kristjánsson láti af starfi sem forstjóri Brims. Fyrir Samkeppniseftirlitinu liggur að taka afstöðu til þess hvort breyting hafi orðið á yfirráðum í Brimi, og ef svo er, hver áhrif þeirra eru á samkeppni.
- Efnisreglur samkeppnislaga um eftirlit með samrunum eru sniðnar að samrunareglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Um mat á yfirráðum og tilhögun rannsókna sækir Samkeppniseftirlitið í margreynd fordæmi annarra samkeppnisyfirvalda á svæðinu.
https://gamli.frettatiminn.is/var-stefan-eiriksson-ad-horfa-a-kastljosid/
Umræða