Hugleiðingar veðurfræðings
Nú er víðáttumikil lægð djúpt suðvestur af landinu og líkt og undanfarna daga beinir hún til okkar mildu og röku lofti. Því verður austan- og suðaustanátt í dag, gola, kaldi eða stinningskaldi og súld eða rigning með köflum.
Á norðanverðu landinu verður þó yfirleitt þurrt fram eftir degi, en seinnipartinn má búast við dálítilli vætu norðaustanlands. Hiti víða á bilinu 7 til 14 stig.
Á morgun er útlit fyrir hægan vind á landinu og súld eða dálitla rigningu með köflum, en það verður úrkomulítið á Austurlandi. Hiti 4 til 12 stig, svalast á Norðurlandi. Spá gerð: 08.05.2023 06:18. Gildir til: 09.05.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu
Austan og suðaustan 5-13 m/s og súld eða rigning með köflum. Þurrt að kalla á norðanverðu landinu, en dálítil væta norðaustanlands seinnipartinn. Hiti víða á bilinu 7 til 14 stig. Breytileg átt 3-8 á morgun og súld eða dálítil rigning með köflum, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti 4 til 12 stig, svalast á Norðurlandi.
Spá gerð: 08.05.2023 04:36. Gildir til: 09.05.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Breytileg átt 3-8 m/s og súld eða dálítil rigning með köflum, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti 5 til 12 stig.
Á miðvikudag:
Fremur hæg breytileg átt. Skýjað að mestu á landinu og líkur á stöku skúrum. Hiti frá 4 stigum við norðurströndina, upp í 14 stig á Suðausturlandi.
Á fimmtudag:
Hægt vaxandi suðaustanátt, 8-15 m/s og fer að rigna sunnan- og vestanlands síðdegis. Hægari vindur og bjartviðri um landið norðaustanvert. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast norðanlands.
Á föstudag:
Suðvestan- og sunnanátt og víða skúrir, en rigning suðaustanlands fram eftir degi. Hiti 6 til 14 stig.
Á laugardag og sunnudag:
Breytileg átt og rigning eða slydda með köflum, einkum norðanlands. Kólnandi veður.
Spá gerð: 07.05.2023 20:58. Gildir til: 14.05.2023 12:00.