Alþýðusambandið hefur um nokkurra missera skeið lagt áherslu á að lögin um atvinnuleysistryggingar verði endurskoðuð í heild sinni. Sú afstaða byggir annars vegar á þeim breytingum sem orðið hafa og eru að verða á vinnumarkaði og skipulagi vinnunnar og hins vegar á þeirri skoðun að mikilvægt sé að fólk í atvinnuleit hafi geti nýtt þann tíma til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði með því að sækja sér menntun eða auka hæfni sína með öðrum hætti.
Alþýðusambandið hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að atvinnuleysisbætur verði þegar í stað hækkaðar og tekjutengda tímabilið lengt.
Nú eru grunnbætur úr atvinnuleysistryggingasjóði m.v. fullt starf kr. 289.510 á mánuði (auk þess sem greidd er lág fjárhæð með hverju barni á framfæri yngra en 18 ára). Þá eru tekjutengdar bætur að hámarki kr. 456.404 á mánuði, en þó aldrei hærri en 70% af meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru lengst greiddar í þrjá mánuði, en þó ekki fyrstu tvær vikur í atvinnuleysi.
Við þær aðstæður sem nú eru uppi á vinnumarkaði og fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum er nauðsynlegt að gera breytingar til að forða fólki sem misst hefur vinnuna frá enn verri áföllum en felast í atvinnumissi og því tekjutapi sem honum fylgir.
Í þessu sambandi má einnig benda á að upphæð atvinnuleysisbóta var lengi miðuð við 7. taxta Dagsbrúnar eftir 1 ár. Sambærileg viðmiðun í launataxta verkafólks mundi gefa mun hærri upphæð en nú er. Þá má benda á að grunnbæturnar eru nú ríflega 86% af lágmarkstekjutryggingu skv. kjarasamningi Starfsgreinasambandsins en voru árið 2010 ríflega 95%. Á sama hátt er hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta nú í lágmarki miðað við grunnbæturnar frá því tekjutengingin var tekin upp.
Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusambandi til breytingar m.v. núgildandi lög og upphæðir atvinnuleysisbóta. Um er að ræða hóflegar breytingar sem eru einfaldar og hægt er að hrinda strax í framkvæmd en með því fororði þó að heildarendurskoðun laganna fari fram og þá verði fjárhæðir atvinnuleysisbóta og annar stuðningur úr atvinnuleysistryggingasjóði tekinn til gagngerrar skoðunar með það að markmiði að forða fólki frá tekjufalli.
Tillaga Alþýðusambandsins er eftirfarandi:
Grunnatvinnuleysisbætur verði sem svarar 95% af tekjutryggingu m.v. fullt starf. Sú fjárhæð er í dag kr. 318.250 (þ.e. um 9,9% frá núverandi fjárhæð). Þá verði greiðsla með hverju barni á framfæri yngra en 18 ára hlutfallslega sú sama og í dag.
Tekjutengdar atvinnuleysisbætur nemi sem næst 70% af meðaltali heildarlauna á vinnumarkaði. Sú fjárhæð er í dag kr. 529.381.
Þá verði dregið úr tekjutengingu þannig að tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu skerði ekki tekjutengdra bætur. Sú fjárhæð er í dag kr. 335.000.
Tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt tímabundið úr þremur mánuðum að hámarki í sex mánuði