MEIRIHLUTI UTANRÍKISMÁLANEFNDAR NEITAR AÐ LÁTA GERA GREINARGERÐ VEGNA ORKUPAKKA 4
Nú hefur mér borist neitun frá meirihluta utanríkismálanefndar um skoðun á áhrifum og breytingum sem sk. fjórði orkupakki hefur á lög og umhverfi orkumarkaðarins á Íslandi. Þetta kemur fram í grein Gunnars Braga Sveinssonar.
Meirihlutinn ber því við að þingflokkar geti gert þetta sjálfir og vísa í því tilefni til samkomulags um þinglok. Þar stendur að þingflokkum sé heimilt að láta framkvæma ákveðna vinnu os.frv. Hvergi kemur fram að Alþingi eða framkvæmdavaldið muni ekki skoða málið frekar. Það er með ólíkindum að meirihlutinn undir forystu Sjálfstæðisflokksins skuli neita að leita svara við mikilvægum spurningum!
Ég óskaði því eftir því að meirihlutinn vísaði erindi mínu til Utanríkisráðuneytisins.
Fróðlegt verður að sjá hvort meirihluti utanríkismálanefndar verður við þeirri ósk og þá hvort ráðuneytið svari.
Til upprifjunar þá læt ég hér fylgja erindið sem ég sendi nefndinni.
„Komiði sæl. Vona ég að sumarið hafi farið vel með ykkur.
Hér með óska ég eftir því að Alþingi eða Utanríkisráðuneytið láti vinna greinargerð/skýrslu um neðangreint. Óska ég þess jafnframt að Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson hafi aðkomu að verkefninu.
Óskað er eftir greinargerð/skýrslu um innihald og réttaráhrif orkupakka 4. Þar verði m.a. fjallað um breytingar á íslenskum lögum og reglum sem gera þarf, gerð grein fyrir áhrifum á íslensk orkufyrirtæki og íslenskan orkumarkað.
Þá verði sérstaklega gerð grein fyrir þróun laga og reglna (evrópskra og íslenskra) sem verða á reglum orkupakka 3 við innleiðingu á 4. orkupakka. Hvað breytist?
Hvaða breytingar verða á starfs- og valdsviði ACER og áhrif þeirra breytinga gagnvart Íslandi.
Jafnframt verði gerð grein fyrir helstu álitaefnum sem komið hafa fram innan EES svæðisins vegna orkupakka 4 sem og hvort íslensk stjórnvöld telji þörf á undanþágum frá pakkanum eða hluta hans og þá hvaða hluta og hvaða undanþágum vænst er að ná.
Gerð verði grein fyrir þróun evrópska orkumarkaðarins og markmiða Evrópusambandsins varðandi hinn sameignlega orkumarkað.
Er þess óskað að greinargerð / skýrsla þessi verði tekin fyrir á fundum utanríkismálanefndar í ágústmánuði. Þess skal jafnframt getið að óskað verður eftir gestum á fundi nefndarinnar til að ræða orkupakkana. Þá er ekki útilokað að óskað verði eftir frekari upplýsingum, greinargerðum og/eða skýrslum.
Gunnar Bragi Sveinsson