Sjálfsvíg ungmenna
Sterkustu áhrifaþættirnir fyrir tilraun til sjálfsvígs, voru ef vinur eða nákominn hafði gert tilraun til sjálfsvígs, þunglyndi, reiði, að hafa verið beittur kynferðisofbeldi eða hafa reykt kannabis
Landlæknisembættið hefur skilað frá sér nýrri skýrslu er varðar Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna og eru niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016. Um mjög nákvæma úttekt er um að ræða sem að nær yfir langt tímabil. Skýrsla unnin af Rannsóknum og greiningu fyrir Embætti landlæknis
,,Niðurstöður sýna að sjálfsskaði jókst meðal stúlkna á árunum frá 2010 til 2016. Árið 2016 höfðu 22% stúlkna hugsað um að skaða sig 5 sinnum eða oftar yfir ævina og 13% stúlkna höfðu skaðað sig 5 sinnum eða oftar yfir ævina. Hugsanir um sjálfsskaða eru nátengdar hugsunum um sjálfsvíg.
Ungmenni sem höfðu hugsað um að skaða sig einhvern tíma á ævinni voru 24 sinnum líklegri til að hafa í alvöru hugleitt sjálfsvíg og 21 sinnum líklegri til að hafa gert tilraun til þess. Ungmenni sem höfðu skaðað sig einhvern tíma á ævinni voru 13 sinnum líklegri til að hafa í alvöru hugleitt sjálfsvíg og 24 sinnum líklegri til að hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Ungmenni sem höfðu skaðað sig 5 sinnum eða oftar á ævinni voru 33 sinnum líklegri til þess að hafa í alvöru hugleitt sjálfsvíg og 42 sinnum líklegri til að hafa gert tilraun til sjálfsvígs heldur en þeir sem höfðu aldrei skaðað sig.
Um helmingur stúlkna og rúmlega þriðjungur drengja í framhaldsskólum hafa upplifað að einhver greini þeim frá sjálfsvígshugsunum. Á milli áranna 2000 og 2016 helst hlutfallið nokkuð óbreytt en árið 2010 voru talsvert færri sem höfðu upplifað það að einhver hafði sagt þeim frá því að vera að hugleiða sjálfsvíg, eða um 36% stúlkna á móti 28% drengja. Árið 2016 þekktu 55% stúlkna og 38% drengja einhvern sem hafði reynt sjálfsvíg.
Frá fyrstu mælingu árið 2000 og fram til ársins 2016 helst hlutfallið óbreytt fyrir stúlkur en fyrsti og síðasti tímapunkturinn eru með hæsta gildið og því var hlutfallið lægra á árunum á milli og lægst var það árið 2010 þegar 45% stúlkna þekktu einhvern sem hafði reynt sjálfsvíg.
Árið 2000 þekktu 43% drengja einhvern sem hafði reynt sjálfsvíg og lægst var hlutfallið árið 2013 þegar einn af hverjum þremur svarar því játandi. Á 13 ára tímabili frá árinu 2000 til 2013 lækkaði hlutfall þeirra sem þekktu einhvern sem hafði fallið fyrir eigin hendi úr 38% í 25% á meðal stelpna og úr 29% í 18% meðal drengja. Hlutfallið hækkaði hins vegar aftur árið 2016 og þá þekktu 30% stúlkna og 22% drengja einhvern sem hafði tekið líf sitt. Aðspurð hvort einhvern nákominn hafi gert tilraun til sjálfsvígs svarar um 35% stelpna og 25% stráka því játandi árið 2000 á móti 40% stelpna og
26% stráka árið 2016. Um 1 af hverjum 10 ungmennum hafa átt góðan vin eða einhvern nákominn sem fallið hafði fyrir eigin hendi. Fleiri ungmenni sögðust í alvöru hafa hugleitt sjálfsvíg árið 2016 en árin á undan eða 33% stelpna og 23% stráka árið 2016 samanborið við 27% stelpna og 23% stráka árið 2000. Rúmlega helmingur þeirra sem sögðust í alvöru hafa hugleitt sjálfsvíg höfðu sagt einhverjum frá því. Hlutfall drengja í framhaldsskólum sem hafa gert tilraun til sjálfsvígs hefur haldist stöðugt í kringum 5% til 7% frá 2000 til 2016. Hjá stúlkum má greina breytingar yfir tímabilið.
Hlutfall þeirra sem hafði gert tilraun til sjálfsvígs var 9% árið 2000, hækkaði í 11% í næstu mælingu árið 2004 og lækkaði niður í 7% lækkaði árið 2010 og tók aftur að hækka til 2016 þegar að 12% stúlkna í framhaldsskólum höfðu gert tilraun til sjálfsvígs. Sjálfsvígsatferli annarra eykur líkur á sjálfsvígshugsunum og sjálfsvígshegðun meðal ungmenna í framhaldsskólum Nemendur sem höfðu upplifað það að einhver greindi þeim frá sjálfsvígshugsunum voru tæplega tvöfalt líklegri til þess að hafa gert tilraun til sjálfsvígs og til þess að hafa í alvöru hugleitt sjálfsvíg.
Nemendur sem áttu góðan vin eða einhvern nákominn sem hafði gert tilraun til sjálfsvígs voru tæplega þrefalt líklegri til þess að hafa sjálf gert tilraun til sjálfsvígs og 1,5 sinnum líklegri til þess að hafa í alvöru hugleitt sjálfsvíg. Einnig voru þeir sem höfðu átt góðan vin eða einhvern nákominn sem hafði tekið líf sitt 1,4 sinnum líklegri til þess að hafa gert tilraun til sjálfsvígs og 1,2 sinnum líklegri til þess að hafa í alvöru hugleitt sjálfsvíg. Notuð var tvíkosta lógitísk aðhvarfsgreining til að meta gagnlíkindahlutfall og 95% öryggisbil fyrir það að hugleiða sjálfsvíg og gera tilraun til sjálfsvígs. Sterkustu sjálfstæðu áhættuþættirnir fyrir sjálfsvígshugsanir voru einkenni þunglyndis, reiði, sjálfsvígshugsanir annarra, það er ef einhver hafði sagt viðkomandi frá hugleiðingum um sjálfsvíg, kynferðisofbeldi og lítill stuðningur foreldra í þessari röð.
Sterkustu sjálfstæðu áhrifaþættirnir fyrir tilraun til sjálfsvígs voru ef vinur eða einhver nákominn hafði gert tilraun til sjálfsvígs, þunglyndi, reiði, að hafa verið beittur kynferðisofbeldi og að hafa reykt kannabis um ævina. Meðal annarra sjálfstæðra áhættuþátta juku lítill stuðningur foreldra, lítill stuðningur vina og það að hafa orðið viðskila við vin líkurnar á sjálfsvígshugsunum og tilraun til sjálfsvígs. Stúlkur voru 1,2 sinnum líklegri til sjálfsvígshugsana en drengir eftir að búið var að stjórna fyrir öðrum þáttum. Ungmenni af erlendum uppruna sem búa á heimilum þar sem er talað annað tungumál, eða íslenska og annað tungumál voru 1,6 sinnum líklegri til að hafa
gert tilraun til sjálfsvígs samanborið við ungmenni sem búa á heimilum þar sem eingöngu er töluð íslenska. Að lokum var skoðað hvort að kynhneigð tengdist hugsunum um sjálfsvíg. Ungmenni sem sögðust laðast að sama kyni eða báðum kynjum voru borin saman við þau sem sögðust laðast að gagnstæðu kyni. Ungmenni sem sögðust laðast að báðum kynjum voru 1,4 sinnum líklegri til að hafa gert tilraun til sjálfsvígs og 1,7 sinnum líklegri til þess að hafa hugleitt sjálfsvíg eftir að búið var að taka tillit til annarra þátta.“ Segir í kynningu á skýrslunni.
Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild sinni