Framlög til menningar-, íþrótta- og æskulýðsmála aukast um 7% milli áranna 2020-2021 samkvæmt nýkynntu fjárlagafrumvarpi ársins 2021. Þau eru áætluð alls 17,6 milljarðar kr. og aukast um 1,1 milljarð kr. milli ára, sé miðað við fast verðlagi.
„Menningarlíf auðgar tilveru okkar allra og við erum stolt af þeirri fjölbreyttu og blómlegu menningu sem landsmenn á öllum aldri geta notið. Menningarstarf skilar líka miklum efnahagslegum gæðum til samfélagsins í formi atvinnu og framleiðslu á vöru og þjónustu. Skapandi greinar vaxa hraðar en aðrar atvinnugreinar og skapa virði fyrir aðra geira; efling þeirra samræmist því vel áherslum okkar á atvinnusköpun til framtíðar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Sem lið í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar er veitt 500 milljónum kr. til uppbyggingar safna, annars vegar 300 milljónum kr. vegna uppbyggingar Náttúruminjasafns Íslands og 200 milljónum kr. til undirbúnings vísinda- og upplifunarsýningar fyrir börn og ungmenni. Heildarframlag þess átaks til menningar, lista og skapandi greina nemur einum milljarði kr. Alls 75 milljónir kr. renna aukalega til að efla starfsemi höfuðsafna; Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands.
Framlag vegna framkvæmda við menningarsal á Selfossi nemur 140,5 milljónum kr. samkvæmt frumvarpinu en ráðgert er að heildarframlag ríkisins til þess verkefnis nemi alls 281 milljónum kr. sem skiptist niður á tvö ár.
Frumvarpið gerir ráð fyrir 225 milljóna kr. hækkun vegna tímabundinnar fjölgunar listamannalauna á næsta ári. Fyrr á þessu ári var 250 milljónum kr. veitt aukalega til listamannalauna sem lið aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum COVID-19. Þessi tímabundna hækkun er ígildi aukaúthlutunar um 550 mánuði sem kemur til viðbótar við 1600 mánuði sem almennt er úthlutað skv. lögum. Eyrnamerkt fjármagn vegna listamannalauna verður því 905,6 milljónir kr. á næsta ári samkvæmt frumvarpinu.
Samkvæmt nýrri kvikmyndastefnu verður 412 milljónum kr. varið til að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en alls nema framlög vegna nýrrar kvikmyndastefnu 550 milljónum kr. í frumvarpinu. Framlagið er liður í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar.
Áfram er haldið að efla bókasafnasjóð höfunda, sem greiðir höfundarétthöfum fyrir afnot verka sinna, og eru fjárheimildir hans auknar um 75 milljónir kr. Þá er ráðgert að verja 25 milljónum kr. til að efla starfsemi bókasafna, og rannsóknir og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Á árinu 2021 verður unnið að aðgerðaáætlun nýrrar menningarstefnu og áfram unnið að ýmsum aðgerðum og verkefnum sem stuðla að bættu aðgengi almennings að menningu og menningararfi.
Framlög til íþrótta- og æskulýðsmála nema 1,2 milljörðum kr. samkvæmt frumvarpinu. Þar er unnið að því að bæta umgjörð og auka gæði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Undirbúningur vegna uppbyggingar þjóðarleikvanga í knattspyrnu og inniíþróttum er í fullum gangi og verið er að móta stefnu í æskulýðsmálum. Framlög í íþróttasjóð hækka milli ára og nema 22,2 milljónum kr. samkvæmt frumvarpinu.