Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í leiðtogaumræðum á ráðstefnunni Global Challenges Summit sem haldin er á vegum Hillary Clinton og Swansea-háskóla.
Global Challenges Summit er alþjóðlegur rafrænn viðburður þar sem fjallað er um helstu áskoranir við uppbygginguna sem framundan er vegna COVID-19. Auk forsætisráðherra og Clinton tóku þau Ellen Johnson Sirleaf, fyrrverandi forseti Líberíu, og Alexander Stubb, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, þátt í umræðunum.
Í umræðum leiðtoganna ræddi forsætisráðherra meðal annars um áherslu íslenskra stjórnvalda á jafnréttismál í víðum skilningi og velsældarhagkerfið þar sem frekar er horft til velsældar íbúa en hagvaxtar við mat á árangri samfélaga. Slík nálgun væri sérstaklega mikilvægur þáttur í uppbyggingunni vegna COVID-19.
Loftslagsmál og COP26 voru líka til umræðu. Forsætisráðherra lagði áherslu á að ríki heims þurfi að ganga lengra í að draga úr losun ef markmið Parísarsamkomulagsins eiga að nást. Þá ræddi hún einnig um uppfærðar skuldbindingar Íslands og mikilvægi þess að allt samfélagið komi að því að smíða lausnir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.