Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu sem hægt er að lesa hér að neðan vegna máls Atla Jasonarsonar sem sakar lögreglu um harðræði við handtöku síðastliðið sumar. Atli birti meðfylgjandi færslu um málið:
,,Fyrir 187 dögum var ég í fyrsta skipti á ævi minni handtekinn.
Fyrir jafnmörgum dögum var ég ég í fyrsta skipti á ævi minni laminn í aftursætinu í lögreglubíl.
Viku síðar, fyrir 180 dögum, sendi ég í fyrsta skipti inn formlega kvörtun vegna starfa lögreglu.
Í jafnmarga daga hef ég beðið eftir svari um hvort þetta hafi verið í lagi.
Þann 4. júli 2019, stuttu eftir miðnætti, kom ég að eldri konu sem lá meðvitundarlaus á Austurstræti. Það fyrsta sem ég gerði var að hringja á Neyðarlínuna en þegar hún, konan, komst til meðvitundar þrábað hún mig um að hringja ekki þangað. Ég sagði henni að ég væri því miður búinn að því en ég skyldi vera með henni.
Stuttu síðar komu tveir lögreglubílar (þrátt fyrir að ég hafi beðið um sjúkrabíl, enda var konan meðvitundarlaus og með stórt sár á andlitinu). Ég sagði við lögregluþjónana sem komu út úr öðrum bílnum að hún hefði verið mótfallinn aðkomu lögreglunnar og spurði hvort þeir skutluðu henni ekki bara upp á spítala. Á því andartaki vatt sér að mér lögreglumaður úr hinum bílnum, ýtti mér upp að fyrri lögreglubílnum og sagði mér að ég væri handtekinn fyrir að trufla störf lögreglunnar. Hann spurði mig til nafns, sem ég neitaði að gefa upp, sem voru mistök af minni hálfu (ekki fylgja mínu fordæmi), svo hann setti mig í járn og stakk mér inn í lögreglubíl, þar sem hann settist aftur í með mér.
Fyrir þá sem ekki vita er vont að vera með handjárn; það þrengir að úlnliðunum og að vera með hendurnar læstar saman fyrir aftan bak er ekki ýkja þægilegt, svo, þar sem ég sat í aftursæti lögreglubílsins, við hlið lögreglumannsins sem handtók mig, hallaði ég mér aðeins til hliðar.
Það voru einhver heimskulegustu mistök ævi minnar.
Andartaki síðar fékk ég olnboga lögreglumannsins í andlitið. Hann öskraði á mig að ég skyldi ekki reyna að flýja (úr lögreglubíl, sem var á fullri ferð) og að ég skyldi horfa út um gluggann.
Viðbrögð mín við þessu voru einnig afar heimskuleg, því ég horfði ekki út um réttan glugga. Aftur fékk ég olnboga í andlitið — í þetta skiptið fastar en áður og lögreglumaðurinn lagðist ofan á mig með tilheyrandi öskrum. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega hvað það var sem hann sagði en það tengdist því eitthvað að ég skyldi hlýða honum.
Meðan á þessu stóð heyrðist ekkert í lögregluþjóninum sem ók bílnum.
Sem betur fer var ferðin að lögreglustöðinni stutt. Þar var mér komið fyrir inni í klefa og u.þ.b. 10 mínútum síðar var ég færður inn í herbergi til skýrslutöku. Þar var mér tjáð að lögregla vissi nú af mér og að hún gæti flett mér upp.
Eftir ræðuna, sem haldin var yfir mér inni í þessu herbergi, var ég sendur út af lögreglustöðinni, á bílastæðið fyrir aftan, í fylgd lögregluþjónsins sem hafði ekið bílnum. Ég rataði ekki út af bílastæðinu, svo lögregluþjónninn sagði mér að útgangurinn væri til vinstri. Annað sagði hann ekki við mig þetta kvöld.
Að öllu þessu loknu fannst mér þetta skondið. Mér fannst hegðun lögreglumannanna hjákátleg og barnaleg. Ég hringdi í vin minn, sem hafði verið með mér fyrr um kvöldið, við hlógum að þessu og hann keyrði mig heim.
Með hverjum deginum sem líður hefur mér þó þetta þetta minna fyndið — og ég hef áttað mig á að þetta hefur haft töluvert meiri áhrif á mig en ég hélt fyrst. Þið vitið, svona andlega. Fyrst um sinn áttaði ég mig nefnilega ekki á því að hálfu ári síðar myndi þetta enn angra mig. Ég bjóst ekki við því að verða stressaður við það eitt að sjá lögreglubíl, eða að fyllast vanlíðan við að sjá einhvern handtekinn í kvikmynd.
En kannski er það einfaldlega vegna þess að mig hefði aldrei órað fyrir því að það tæki meira en hálft ár að fá svar við því hvort hegðun lögregluþjónsins þetta kvöld hafi ef til vill bara verið í lagi.“
Í yfirlýsingu frá lögreglunni vegna málsins, segir að lögreglan líti það alvarlegum augum þegar kvartað er undan meintu harðræði. Gögnum hafi þegar verið safnað saman og send til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu.
„Vegna umfjöllunar um mál karlmanns á þrítugsaldri, sem kvartaði undan meintu harðræði lögreglumanns sl. sumar, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að hún lítur slík tilvik ávallt alvarlegum augum. Eftir að kvörtun mannsins barst í júlí 2019 tók við hefðbundið verklag embættisins þar sem öllum gögnum málsins, m.a. upptökum úr myndavélum, var safnað saman og þau send nefnd um eftirlit með störfum lögreglu í lok ágúst 2019.“ Segir í yfirlýsingunni.
https://www.facebook.com/atlijas/posts/10221317110543276