Þriggja vikna ferð til Spánar fyrir mánaðarlaunin
„Og lái mér það hver sem vill þó að ég hugsi mig um tvisvar áður en ég fer í þessa ljónagryfju aftur.“
Þau orð lét Guðni Þórðarson, Guðni í Sunnu, falla í viðtali árið 1985 eftir að hafa í 30 ár barist gegn ráðandi öflum í þjóðfélaginu sem hann lenti upp á kant við fyrir þá sök eina að vilja bjóða Íslendingum upp á sólarlandaferðir á viðráðanlegu verði.
Saga Guðna er ótrúlega merkileg því hann var ekki sekur um neitt nema gera fólkinu í landinu gott eitt. Hann bauð fyrstur upp á sólarlandaferðir til Mallorca og þurfti að fara ótrúlegar krókaleiðir til að veita þá þjónustu eftir að Flugfélag Íslands, nú Icelandair, kippti grundvellinum undan rekstri hans og fengu íslensk stjórnvöld í lið með sér til að troða Guðna í svaðið. Fararheill rifjaði upp sögu Guðna á dögunum. Þar segir að saga hans sé dómur yfir þeim viðurstyggilegu öflum sem hér réðu öllu langt fram eftir síðustu öld og margir þeirra enn að í dag eins og ekkert hafi í skorist.
Guðni, góðu heilli, lét sig hafa að hoppa aftur ofan í þessa „ljónagryfju“ áður en yfir lauk en hann átti og rak ferðaskrifstofuna Sunnuferðir.
Hér að neðan viðtal sem tekið var við Guðna í Helgarpóstinum sáluga í júlí 1985. Þar sést glögglega þvílíkt skítaþjóðfélag þetta var… og sumt hljómar kunnuglega ekki satt?
„Eg ferðaðist talsvert mikið á þessum árum. Einhvern tíma var það að ég var beðinn um að skipuleggja og sjá um ferðalag bankamanna og fleiri til Parísar. Eg samdi um flugið fyrir þá — og þetta varð upphaf kynna minna og fyrrverandi forráðamanna Flugfélags íslands. Eg fór að gera meira af þessu — að skipuleggja ferðir og vera fararstjóri. Áður en ég vissi af, þá var mín ferðastarfsemi orðin ferðaskrifstofa í fullum gangi. Og óx svo hratt að ég gerði mér satt að segja ekki grein fyrir því hvert stefndi.
Fólk á Iðju-taxta gat notað mánaðarlaunin til þess að fara í þriggja vikna ferð til Spánar
1958 byrjaði ég að leigja flugvélar til að fara með fólk til sólarlanda. Fyrst var það í gegnum Kaupmannahöfn— páskaferð suður á bóginn. Fyrstu leiguflugsferðirnar voru til Mallorca. Ég held að það sé áreiðanlega víst, að þessar ferðir hafi verið fyrstu ferðirnar með Islendinga til sólarlanda.
Kanaríeyjaferðir hófust 1962 og voru leigðar flugvélar til þeirra ferða hjá Flugfélagi Islands. Á þessum tíma var annríkið hjá þessum flugfélögum ekki meira en svo, að leiguvélin gat beðið yfir páskana þarna suður frá á meðan fólkið spókaði sig.
Einu sinni var ég með tvær slíkar vélar bíðandi á vellinum í Palma. Ég held að ég hafi hitt á þróun sem var að verða í sambandi við ferðaþjónustu á þessum árum. Hvernig sem það nú var þá fann fólk að það hafði gott af því að slappa af í sólarlöndum. Þetta varð fljótlega mjög umfangsmikil starfsemi. Eitt sumarið leigði ég nýju Flugfélagsþotuna. í mörg ár kölluðu menn hana bara „þotuna“ — ég leigði hana til Mallorcaferða hálfsmánaðarlega út sumarið. Ætli það hafi ekki verið 1968.
„Þegar þessar sólarlandaferðir fóru að verða stórar í sniðum, þá fóru nú fleiri að fá áhuga á þessari grein viðskiptanna. Í hópi þeirra áhugasömu aðila var Flugfélag Islands sjálft sem opnaði ferðaskrifstofu — til að keppa við kúnnana(!) Þegar þeir stofnuðu sína ferðaskrifstofu, þá hækkuðu þeir verðið til mín til þess að auðvelda nýju ferðaskrifstofunni sinni fyrstu sporin í samkeppninni.
Ég og mín starfsemi gekk á skjön við helmingaskiptaregluna
Ég fór þá út í það að leigja og reka skrúfuþotu. Það leið nú ekki á löngu áður en sá rekstur var litinn hornauga. Eftir fyrsta sumarið, var flugrekstrarleyfið afturkallað. Án skýringa. Ég fór auðvitað í mál. Og eftir langvinn málaferli fyrir Hæstarétti var ríkissjóður dæmdur til að greiða mér skaðabætur vegna þessarar leyfissviptingar. Þær skaðabætur rýrnuðu nú í verðbólgunni því að málið dróst á langinn — en ríkissjóður eða ráðherra var dæmdur vegna þessara aðgerða sinna.“
„Mín starfsemi hafði einfaldlega vaxið of mikið. Og ég var óvart lentur í vipskiptastríði við þessa aðila. Þessa sem hafa með sér samkomulag um hagsmunaskipti á íslenskum markaði. Eg og mín starfsemi gekk á skjön við helmingaskiptaregluna. Ég stofnaði svo Air Viking. Það var 1973 að ég hóf aftur flugrekstur. Ég byrjaði með því að leigja Coronado Conver þotu. Það gekk ágætlega yfir sumarið. í ársbyrjun 1974 keypti ég svo tvær þotur af United Airlines í Bandaríkjunum. Og ég lét þjálfa unga og efnilega íslenska flugmenn á þessar þotur. Þetta voru tvær Boeing 720 þotur. Rekstur þeirra gekk Ijómandi veL 1974 var metár í sólarlandsferðum héðan af fslandi. Og þessar tvær þotur fluttu meirihlutann af þeim sem það sumar fóru í sólina.
Það var hægt að lækka verð á þessum ferðum þannig að fólk á Iðju-taxta gat notað mánaðarlaunin til þess að fara í þriggja vikna ferð til Spánar. Þannig voru þessar ferðir suður eftir orðnar almenningseign. 1975 færðist þessi starfsemi enn í aukana. Við vorum þá reyndar farin að flytja þýska ferðamenn hingað, flugum leiguflug frá Dússeldorf einu sinni í viku — en nú fórum við að taka að okkur í vaxandi mæli erlend verkefni. Við flugum leiguflug fyrir svissneska aðila til Thailands, með Dani flugum við frá Kaupmannahöfn til karabísku eyjanna.
Við flugum með 1500 íslendinga á hundrað ára afmæli íslendingabyggðar í Vesturheimi. Við gerðum stóran samning um flutning á pílagrímum frá Vestur-Afríku til Mekka. Og einnig frá Sú-dan og frá Jemen til Mekka. Við tókum einnig að okkur áætlunarflug fyrir súdanska flugfélagið milli London og Súdan. Við flugum fyrir flugfélagið í Saudi-Arabíu milli S-Arabíu og Hong Kong. Og við flugum áætlunarflug fyrir jemenska flugfélagið milli Jemen, Egyptalands og fleiri arabalanda. Flugreksturinn kringum þessar tvær þotur varð þannig umfangsmikill.
Við höfðum borgað vélarnar mjög hratt niður, greitt þær niður um helming á tæplega tveimur árum — kaupverðið; en nutum lítilfjörlegrar bankafyrirgriðslu. Vélarnar voru keyptar með erlendum lánum — með leyfi stjórnvalda. Haustið 1975 var fyrirhugað að önnur vélin færi í svokallaða C-skoðun, stófskoðun. Eins og almennt gerist leituðum við eftir því að fá erlent lán og stóð ekki á að það fengist, til þess að hægt yrði að greiða fyrir þessa skoðun. Þá gerðist það að íslensk stjórnvöld vildu allt í einu alls ekki leyfa slíkt.
Það átti að gera mig að glæpamanni
Og við vorum ekki að biðja um ríkisábyrgð eða innlenda bankafyrirgreiðslu, aðeins um leyfi til að taka erlent lán fyrir nauðsynlegri skoðun — að sá aðili sem framkvæmdi skoðunina gæti lánað okkur tiltekinn tíma, eins og tíðkast í þessum bransa.
„Þegar svo var komið að við vorum með tvær þotur í alþjóðlegum viðskiptum, fórum við að heyra sögur af sérkennilegum draugagangi, sem vinir okkar höfðu orðið varir við í byggingu einni niðri í Hafnarstræti. Þar er stofnun ein í bráðabirgðahúsnæði og flytur senn í betra hús. Þessi draugagangur tók á sig undarlega mynd. Þarna voru menn að yfirheyra þá sem höfðu haft við okkur viðskipti, látið okkur í té eðlileg rekstrarlán. Þegar við í nóvember 1975 vorum komin í þessi erlendu verkefni á fullt og framundan var samningur til þriggja ára um áætlunarflug fyrir jemenska og saudi-arabiska flugfélagið, varð þessi draugagangur fyrirferðameiri og loks alveg opinber. Sennilega vill enginn gangast við því núna að hafa vakið upp þennan draug, en þarna voru að verki öfl í þjóðfélaginu sem töldu nauðsynlegt að stöðva þessa flugstarfsemi sem allra fyrst.
Og þá var sett á svið þetta fræga Alþýðubankamál. Það átti að gera mig að glæpamanni fyrir það að ég hafði tekið lán í banka. Málaferli voru fyrirskipuð, rannsókn á mínu atferli og annarra aðila. En ríkissaksóknari neitaði að setja þessa rannsókn í gang — gegn mér og fyrirtækjum mínum einum. Hann vildi ekki hefja rannsókn nema jafnframt væru rannsökuð níu (eða hvort þau voru ellefu) önnur fyrirtæki á sama hátt.
Niðurstaðan af þessum draugagangi varð svo auðvitað sú (og það vissi ég fyrir) — að allir voru sýknaðir. Sökin yar engin. En samt skyldi nú krossfesta einhvern — (þótt ég vilji ekki líkja mér við meistarann frá Nasareth.) Það kom nefnilega í ljós að Air Viking hafði fengið fé að láni vegna þess að ferðaskrifstofan Landsýn gat ekki greitt 30 milljón króna skuld fyrir launþegana sem Landsýn og Air Viking höfðu flutt í stórum hópum suður á bóginn. Og þar sem að bankinn var í eigu sömu aðila og Landsýn, þá var talið heppilegra fyrirkomulag, að lána mínum fyrirtækjum það sem Landsýn gat ekki borgað mér — og enda ekki óeðlilegt, því að í gegnum starfsemi Air Viking og Sunnu nutu launþegar ákaflega hagstæðra kjara varðandi sólarlandaferðir.
Þessi starfsemi gerði þúsundum launþega kleift að komast til sólarlanda — fólki sem annars átti þess ekki kost. Það var þannig ekkert óeðlilegt við þetta mál — nema ef vera skyldi málatilbúnaðurinn… „Eftir að ég hafði verið sýknaður af öllum ákærum og dylgjum í sambandi við þessi mál, þá hættu þessar stofnanir að birta fréttatilkynningar um Alþýðubankamálið, svokallaða. En afleiðingin af þessu varð hins vegar sú, að reksturinn var stöðvaður og einn aðili — aðeins einn bað um gjaldþrot vegna viðskiptaskuldar sem á engan hátt var óeðlileg, en ekki hægt að greiða fyrirvaralaust, þegar út í þennan darraðardans var komið. En niðurstaðan var sú, að nýir aðilar keyptu þotur og varahluti Air Viking á hálfvirði og seldu síðan aðra þotuna (hin var útgengin) til útlanda fyrir svipað verð og allt dótið hafði fengist á.
Hvers vegna þá að stöðva reksturinn?
Þrátt fyrir þessa mjög svo harkalegu og raunar einstæðu aðför í íslandssögunni, þá hafði ég haft svo miklar tekjur á góðu árunum, að fasteignir mínar og aðrar eignir stóðu undir því að greiða þessar skuldir — sem vissulega voru fyrir hendi. Ég var einn eigandi — einn skuldari — einn greiðandi. Ætli það yrði ekki leitun á flugfélagi með tvær þotur sem yrði stöðvað á einum degi og eignirnar gætu borgað sínar skuldir? Og hvers vegna þá að stöðva reksturinn? Ætli þar hafi ekki ráðið einhyer önnur sjónarmið…
Fyrir tveimur árum skrifaði ég stjórn Seðlabankans bréf og bað um afrit af bréfum, fundargerðum og öðru því sem kynni að snerta afskipti Seðlabankans af þessu víðfræga máli. Þeir eru víst ennþá að leita. Það hefur víst ekkert fundist — en í millitíðinni hafa mér áskotnast ljósrit af bréfum, sem ég er viss um að gætu hresst upp á minni þeirra…“
„Í upphafi þessa draugagangs var greinilega lagt kapp á að koma á mig glæpamannastimpli. Og það olli mér vissulega miklu tjóni. Og barnabörnin mín urðu fyrir aðkasti í skólanum. En einhvern veginn er það nú svo, að mér er sama um fjármunina sem þarna fóru til spillis. Og ég ber ekki kala til nokkurrar persónu vegna þessa. En það hefur aldrei verið frá því skýrt, að í þessu máli var um algera sýknu að ræða… Enda er það sjálfsagt ekki eins góð frétt og sú sem sögð var í upphafi málsins…“
„Nýja flugfélagið, sem stofnað var með vélum Air Viking, fékk allt aðra fyrirgreiðslu almættisins en ég hafði orðið við að búa. Það félag vantaði í upphafi aðeins eitt: viðskiptamenn. Eg, eða Sunna, varð að útvega Arnarflugi farþega. Þannig urðu verkefni nýja flugfélagsins fyrsta árið svotil eingöngu flug fyrir mig. 1978 gerðust svo þau afleitu tíðindi, að Arnarflug var selt Flugleiðum. Þar með var ekki lengur samkeppni í flugi — og Sunnu bannað að gera samning við Arnarflug beint, heldur urðum við að semja við Flugleiðir.
Við þessa sameiningu versnuðu svo kjör Sunnu að ekki var lengur hægt að reka ferðaskrifstofuna með hagnaði. Tvö síðustu árin var Sunna rekin með tapi. Þess vegna ákvað ég það, síðla sumars 1979, að loka Sunnu, leggja starfsemina niður í lok sumars þegar staðið hafði verið við samning og farpantanir. Starfseminni var hætt, ferðaskrifstofuleyfinu skilað inn. Ég gat staðið við allar óumdeilanlegar skuldir fyrirtækisins. — Mér er raunar ekki kunnugt um að neinni ferðaskrifstofu hafi verið lokað, eða starfsemi hætt á þennan hátt fyrr.