- Hreinsunarstarf gengur vel á Seyðisfirði
- Áfram í gildi hættustig almannavarna á Seyðisfirði.
Samráðsfundur lögreglunnar á Austurlandi, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Múlaþings var haldinn í gær. Þar var fjallað um hreinsunarstarf, vöktun og mælingar á upptakasvæðum skriðanna og forgangsmál næstu vikna.
Hreinsunarstarf hefur gengið vel og er nú búið að opna leið í gegnum stóru skriðuna sem féll 18. desember. Á áhrifasvæði hennar eru stórar vinnuvélar í notkun og því varhugavert að vera á ferðinni þar nærri. Ýmis hætta getur auk þess falist í og við skriðuna eins og brak úr byggingum og annað lauslegt. Af þeim sökum er óviðkomandi umferð óheimil á því svæði samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á Austurlandi.
Ekki hefur orðið vart við skriðuföll úr hlíðinni ofan Seyðisfjarðar frá því fyrir jól. Vöktun hlíðanna ofan bæjarins hefur þegar verið efld umtalsvert frá því sem var áður en skriðurnar féllu. Fylgst er með hreyfingu jarðlaga sem og vatnshæð í borholum í hlíðinni. Ekki hafa mælst merkjanlegar hreyfingar né óeðlileg vatnshæð. Unnið er að því að auka tíðni og nákvæmni mælinga enn frekar með sjálfvirkum búnaði. https://www.vedur.is/um-vi/frettir/nyr-bunadur-til-ad-vakta-skriduhaettu-a-seydisfirdi-fluttur-til-landsins
Um helgina verður gert hlé á hreinsunarstörfum en veðurspá er slæm og búist er við norðvestan 20-28 m/s með snjókomu og skafrenningi, stórhríð á köflum. Lélegt skyggni og ekkert ferðaveður. Áfram er í gildi hættustig almannavarna á Seyðisfirði vegna skriðufalla sem féllu fyrir jól.
Þjónustumiðstöð almannavarna verður opin í Herðubreið á Seyðisfirði í næstu viku en einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir á netfangið sey@logreglan.is og hringja í 839 9931 utan opnunartíma.