Samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði hefur sjaldan verið talin mikil.
Eins og meðfylgjandi mynd sýnir er vaxtamunur viðskiptabankanna hér á landi um þrefalt meiri en almennt þekkist í löndum Evrópusambandsins og á hinum Norðurlöndunum. Hér á landi er vaxtamunur um 3% en að jafnaði 1% innan ESB. Þessi viðbótar 2% vaxtamunur hér á landi kostar viðskiptavini íslensku bankanna um 80 milljarða króna á ári.
Ef samkeppni væri virk yfir landamæri á íslenskum fjármálamarkaði gætu íslenskir bankar ekki komist upp með að vera svona dýrir. Þeir yrðu undir í samkeppni við ódýrari þjónustu erlendis frá. Það er raunin t.d. þegar kemur að samkeppni um lánveitingar til stærstu íslensku fyrirtækjanna sem geta fjármagnað sig í erlendri mynt. Þar hafa erlendir bankar ýtt þeim innlendu að stærstum hluta út af markaðnum.
En við sem hér búum og þurfum að sinna bankaviðskiptum í íslenskum krónum njótum ekki góðs af slíkri samkeppni. Erlendir bankar hafa nefnilega aldrei viljað snerta á íslensku krónunni. Hún er of lítil og óstöðug til þess. Norrænu bankarnir hafa t.d. litið á Norðurlöndin sem einn fjármálamarkað um áratuga skeið en starfsemi þeirra hefur þó aldrei náð hingað til lands. Hér virkar krónan eins og verndartollur fyrir óhagkvæma íslenska banka.