Það hefur varla farið fram hjá mörgum að kjarasamningavetur stendur fyrir dyrum. Verka- og láglaunafólk bindur nú vonir við að loksins sé komið að þeim. Að þau fái loksins að njóta hlutdeildar í því mikla góðæri sem ríkir um þessar mundir en hingað til hefur það þurft að sætta sig við mylsnu á meðan aðrir skammta sjálfum sér óhóflega af veisluborðinu, aftur og aftur.
Á Stór-Reykjavíkursvæðinu ríkir hússnæðiskreppa sem hefur gert það að verkum að óvenju grimmileg útgáfa af lögmálinu um framboð og eftirspurn ræður lífi fjölda fólks sem nauðbeygt þarf að leigja húsnæði af fjármagnseigendum og leigufélögum. Á hverjum degi berast sögur af algjörlega fráleitum upphæðum sem fólki er gert að greiða fyrir þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa aðgang að húsnæði. Samkvæmt nýjum tölum frá Íbúðalánasjóði hefur húsaleiga hækkað um 82% frá árinu 2011 og þau sem tilheyra lágtekjuhópum greiða nú um helming ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu. Aðflutt verkafólk þarf að sætta sig við að búa í ósamþykktu íbúðarhúsnæði, kytrum og gámum, jafnvel fjölskyldufólk, en greiða þó stórar upphæðir fyrir.
Við búum í samfélagi gríðarlegrar stéttaskiptingar. Láglaunafólki er gert að sætta sig við ráðstöfunartekjur sem ekki duga til að láta hlutina ganga upp frá einum mánaðarmótum til næstu og þarf því m.a. að leita á náðir smálánafyrirtækja til að eiga fyrir nauðsynjum. Á sama tíma fá þau sem tilheyra hátekjuhópum úthlutað trylltum launahækkunum, jafnvel afturvirkum um mörg ár.
Stórir hópar sem tilheyra hefðbundnum kvennastéttum þjást vegna svívirðilegrar láglaunastefnu sveitarfélaganna sem gerir það að verkum að til þess eins að komast af þurfa þessar konur að vinna hrikalega langa daga, oft í fleiri en einni vinnu. Það er staðreynd í íslensku samfélagi að sífellt stækkandi hópur fólks gengur fram af sér með vinnu, vegna þess að það einfaldlega hefur ekki val um annað. Stór hópur kvenna er sendur í endurhæfingu á ári hverju vegna álags og vinnuþrældóms. Einnig benda nýjar rannsóknir til þess að stéttaskipting fari vaxandi innan skólakerfisins, þar sem börn úr verkamannafjölskyldum geta ekki notið áhyggjulausrar æsku, sem er auðvitað réttur allra barna. Þau upplifa mikinn aðstöðumun þegar kemur að möguleikum í námi sem og aðgengi að efnislegum gæðum.
Samkvæmt rannsóknum Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar sem fjallað er um í bókinni Ójöfnuður á Íslandi kemur í ljós að efnahagsleg misskipting hefur aukist síðan á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar, þegar nýfrjálshyggjan hóf innreið sína í íslenskt þjóðfélag. Þessi samfélagslega óheillaþróun, sem stuttlega dró úr í kjölfar efnahagshrunsins, er aftur komin á kreik, enda hefur ekki ríkt pólitískur vilji til að stöðva hana. Þvert á móti. Í íslensku samfélagi er staðreyndin því þessi og þetta vita þau sem strita til að hafa í sig og á: Hin ríku verða ríkari á meðan þau sem tilheyra lægri stéttum skulu vinna alla ævi án þess þó að geta nokkru sinni um frjálst höfuð strokið þegar kemur að efnahagslegri afkomu.
Nú hefur verka- og láglaunafólk fengið nóg. Það hefur tekið að láta í sér heyra. Það hefur kosið til forystu í sínum verkalýðsfélögum fólk sem hefur heitið því að láta kjör þess sig öllu varða í komandi kjarasamningum. Það hafa vaknað vonir um að loks sé komið tækifæri til að leiðrétta, með sjónarmið réttlætis og jöfnuðar að leiðarljósi, óásættanleg laun, óréttlátt skattkerfi og skelfilega vaxta- og skuldpíningu fjármálakerfisins, svo dæmi séu tekin af þeim málum sem helst brenna á íslenskri alþýðu.
En þá bregður svo stórkostlega undarlega við að í stað þess að gleðjast og fylkja sér að baki kröfum um að reynt verði að vinna að efnahagslegu réttlæti á hinu stéttskipta Íslandi ákveður forysta ASÍ að taka afstöðu gegn öðrum talsmönnum verka- og láglaunafólks og senda frá sér áróðursefni sem augljóslega er beint gegn þeim háværu kröfum um jöfnuð sem hér hafa hljómað, áróðursefni sem dregur upp þá mynd að best sé fyrir allt þjóðfélagið að raddir þeirra sem tilheyra lægri stéttunum þagni alveg, áróðursefni sem málar þá mynd af samtímanum að krónur skipti ekki lengur neinu máli, aðeins svokallaður kaupmáttur, en skautar alveg fram hjá spurningunni sem augljóslega hlýtur að vakna hjá hinum vinnandi stéttum við áhorfið: Ef krónur skipta engu máli, hvernig stendur þá á því að hin auðugu virðast aldrei nokkurn tímann fá nóg og þurfa ótrúlegar hrúgur af þeim, svo stórar að þeim endist ekki ævin til að eyða þeim?
Ef skynsemin hefur ráðið för í íslensku samfélagi, eins og haldið er fram í auglýsingu ASÍ, allt frá árinu 1990 (einhverskonar ári Núll samkvæmt áróðri auglýsingaarms Alþýðusambands Íslands, þegar launafólk hætti að koma öllu í efnahagslegt uppnám með reglulegu millibili með óábyrgri hegðun sinni og leyfði yfirburðagáfuðum útreiknurum loksins að ráða för) hvernig stendur þá á því að haustið 2008, fyrir rétt tæpum áratug síðan, hrundi hér efnahagskerfið, með skelfilegum afleiðingum fyrir launafólk og þau skuldugu, afleiðingum sem ekki enn hefur verið tekist á við með réttlátum hætti?
Í kjölfar þess að hafa horft á þá skammarlega einfölduðu og yfirborðskenndu sýn á íslenskan veruleika sem boðið er uppá í auglýsingu ASÍ vaknar einnig þessi spurning: Hvernig er hægt að réttlæta það að forysta ASÍ noti fjármagn frá verkalýðsfélagi verka- og láglaunafólks, Eflingu, til þess að framleiða áróðursefni sem hefur þann augljósa tilgang að reyna að grafa undan og takmarka möguleikana á því að næsta vetur, þegar kemur að kjarasamningum, verði loksins hlustað á kröfur vinnuaflsins, að loksins verði tillit tekið til langana og þarfa okkar sem vinnum vinnuna á Íslandi, að kröfur okkar fái loksins að vega þyngra en kröfurnar um stöðugleika í lífi hinna ríku?
Er svo komið að forysta ASÍ tekur án þess að skammast sín undir þær ómanneskjulegu kröfur sem auðstéttin gerir til lágtekjuhópanna, að hlutskipti þeirra sé eingöngu að vera þögult og stillt vinnuafl á útsöluverði, í samfélagi misskiptingar og sífellt vaxandi stéttskiptingar þar sem jafnvel hugmyndin um að eignast húsnæði er orðin að fjárlægri draumsýn?
Þegar málflutningur ASÍ er farinn að ríma svo rækilega við málflutning forkólfa fjármagnseigenda og auðkýfinga að varla má greina í sundur hvor talar hverju sinni hlýtur verkafólk að hugleiða vel og lengi þá fráleitu staðreynd og spyrja í kjölfarið: Er það ætlun þeirra sem stjórna tilveru okkar að ASÍ og SA renni saman í eitt risavaxið samfélagslegt stjórnunar-fyrirbæri?
Er ekki tímabært, þó ekki væri nema vegna hinna óboðlegu aðstæðna sem láglauna- og verkafólki er gert að lifa við í hinu stéttskipta íslenska samfélagi, að þau innan verkalýðshreyfingarinnar sem upplifa að sitt helsta hlutverk sé að grafa markvisst undan eðlilegum kröfum um góð lífskjör öllum til handa og samfélagi réttlætis og jöfnuðar, eitthvað sem eitt sinn var upphaf og endir baráttu verkafólks, líti í eigin barm og hugleiði hverra hagsmuna þau eru að gæta?
Er ekki tímabært að forysta ASÍ sjái sóma sinn í því að halda sér til hlés þegar svo er komið að enginn samhljómur er lengur á milli hennar og verkafólks?
Eða er virkilega ætlast til þess að verkafólk sætti sig við að búa í samfélagi þar sem ekki er augljóst hvor talar; forseti Alþýðusambands Íslands eða talsmaður Samtaka atvinnulífsins?
Sólveig Anna Jónsdóttir
Formaður Eflingar-stéttarfélags
Umræða