Töluverð umræða hefur skapast undanfarin misseri um myglu í húsnæði víða um land. Hún hefur fundist í ýmiskonar húsnæði, á vinnustöðum, heimilum og skólum. Áhrifin er margvísleg og því miður kenna sumir sér meins þegar þeir hafa komist í snertingu við myglu. Maskínu lék því forvitni á að vita hversu stór hópur hérlendis telur sig hafa komist í snertingu við myglu undanfarið og hvort vert sé að hafa áhyggjur af ástandinu.
Konur hafa meiri áhyggjur af myglu en karlar
Um 20% aðspurðra sögðust telja sig hafa komist í snertingu við myglu að undanförnu og voru karlar þar í meiri hluta. Á bilinu 22–23% karla sögðust telja það en 17–18% kvenna. Þessu er öfugt farið þegar spurt var um hvort þátttakendur hefðu áhyggjur af tilvist myglu, en þær niðurstöður sýna að konur hafa í mun meiri mæli miklar áhyggjur af myglu. Um 45% kvenna sögðust hafa miklar áhyggjur en aðeins 27–28% karla. Á heildina litið höfðu um 36% svarenda miklar áhyggjur af myglu en um 30% litlar.
Breytileiki eftir aldri
Þá sýndu niðurstöðurnar einnig að fólk yngra en fertugt hafði helst komist í snertingu við myglu. En 22–25% svarenda á aldrinum 18–39 sögðust hafa komist í snertingu við myglu sem var nokkuð fleiri en hjá þeim eldri. Til samanburðar voru fæstir sem töldu sig hafa komist í snertingu við myglu meðal 60 ára og eldri eða um 15%.
Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.043, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 25. nóvember til 2. desember 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.