Tekjur ríkissjóðs af innflutningi nýrra bíla námu 10,1 milljarði
Tekjur ríkissjóðs af innflutningi nýrra bíla halda áfram að aukast. Árið 2017 námu tekjurnar 10,1 milljarði kr. eða um 21% aukningu á milli ára.
Tekjuaukningin er fyrst og fremst tilkomin vegna aukins fjölda innfluttra bifreiða á árinu eftir því sem fram kemur í Árbók bílgreina 2018.
Þá virðast álögur einnig hafa hækkað. Að meðaltali voru tekjur af vörugjöldum 4,5% hærri á hvern nýskráðan bíl en í fyrra en ástæðuna má rekja til hækkunar á vörugjöldum.
Á síðasta ári lækkaði þessi tekjustofn um 9% að meðaltali á hvern bíl en þá var ástæðan sú að innfluttar bifreiðar voru eyðslugrennri en árið áður skv. upplýsingum FÍB.
Mestsala var í bílum á síðasta ári en það sem af er þessu ári eru nýskráðir fólksbílar hér á landi mun færri en á sama tíma í fyrra. Helsta skýringin er minnkandi sala til bílaleiga.
Samkvæmt tölum frá Bílgreinasambandinu voru 3.146 bílar nýskráðir í júní í fyrra. Í nýliðnum mánuði voru bílarnir hins vegar 2.597. Þar munar 549 bílum sem gerir 17,5 prósenta samdrátt. Þegar fyrstu sex mánuðir ársins eru skoðaðir, kemur í ljós rúmlega 13 prósenta samdráttur miðað við fyrri hluta síðasta árs.