Það er ekki eftir neinu að bíða – og tónninn þarf að breytast
Þjóðin er að koma úr fríi. Samfélagið er að komast í gang á ný. Horfurnar í nálægri framtíð eru dökkar. Það eru líkur á harkalegum átökum á vinnumarkaði.
Þeim er hægt að forða. En til þess þarf að hefjast handa strax. Þótt verkalýðshreyfingin hafi ekki lagt fram formlega kröfugerð eru meginlínurnar skýrar. Það er ljóst við hvað er að fást. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða.
Ríkisstjórnin verður að hefja nú þegar óformlegar viðræður við verkalýðsforingjana til þess að átta sig á hvað til þarf til að koma í veg fyrir þau meiri háttar átök á vinnumarkaði, sem ella eru framundan.
Í slíkum viðræðum verður ríkisstjórnin að gefa til kynna, hvað hún er tilbúin til að gera m.a. vegna þess að það getur haft áhrif á kröfugerð verkalýðsfélaganna.
Eitt af því sem þarf að breytast er tónninn í garð verkalýðshreyfingarinnar, sem berst úr stjórnarherbúðum.
Eins og nú er talað úr þeirri átt er það líklegra til að auka vandann en draga úr honum.“ Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins