Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, harmar ákvörðun Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, um að loka fangelsinu á Akureyri og hvetur hana til að skoða málið betur og frá fleiri hliðum, m.a. út frá tillögum félagsins um annars konar nýtingu þeirra fangarýma sem þar eru til staðar.
Fyrir það fyrsta skal á það bent að mikil ánægja hefur ríkt meðal fanga með fangelsið og ekki síður starfsfólkið sem mun að óbreyttu láta af störfum. Þar missir Fangelsismálastofnun afskaplega vandað og hæft fólk úr vinnu. Áslaug Arna hefur einnig gert mikið úr því að um lokað fangelsi sé að ræða en að mati Afstöðu er ekki hægt að bera fangelsið á Akureyri saman við önnur lokuð fangelsi því andrúmsloftið líktist miklu frekar því sem ríkir á Kvíabryggju.
Með því að loka fangelsinu á Akureyri er ljóst að fjölskyldur fanga á Vestfjörðum og Norðurlandi þurfa um langan veg að fara sem er ekki í samræmi við það sem kemur fram í lögum um fullnustu refsinga þar sem segir að Fangelsismálastofnun skuli taka tillit til búsetu fanga og fjölskyldu hans þegar ákvörðun um vistunarstað er tekin.
Þá segir Áslaug Arna að tryggt verði að gæsluvarðhaldsrými megi áfram nýta á Akureyri en til þess hlýtur að þurfa fangaverði. Án fangavarða er um fangageymslur lögreglu að ræða og í 17. grein laga um fullnustu refsinga segir að eingöngu sé heimilt að vista gæsluvarðhaldsfanga í skamman tíma í fangageymslum lögreglu, þó ekki lengur en í fjóra sólarhringa nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.
Önnur nýting rýma
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 var vísað til þess að þegar endurbótum og stækkun fangelsisins á Akureyri lauk árið 2008 hefði orðið breyting á samsetningu fangahópsins og að þar afpláni nú fangar með fjölbreyttan og oft alvarlegan brotaferil. Ríkisendurskoðun benti á að þetta væri í ósamræmi við þær áherslur Fangelsismálastofnunar að á Akureyri vistist fangar sem hafi sýnt fyrirmyndarhegðun, væru að ljúka afplánun eða hefðu framið minni háttar afbrot.
Afstaða og áfangaheimilið Vernd unnu sameiginlega skýrslu fyrir Fangelsismálastofnun í lok síðasta árs þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að deildaskipta Litla-Hrauni og Sogni þannig að verulegur munur yrði á deildum. Í skýrslunni var gert ráð fyrir því að fangar gætu „útskrifast“ af Litla-Hrauni og yfir á Sogn sem yrði þá meðferðar- og endurhæfingardeild. Þar yrðu lögð áhersla á að samskipti á milli fanga og fangavarða væru heimilislegri og frjálslegri heldur en í lokuðum fangelsum auk þess sem ívilnanir væru fleiri. En að sama skapi yrði þá lendingin harkaleg ef fangar brytu af sér og þyrftu að fara aftur á Litla-Hraun.
Hugsunin var sú að gera það eftirsóknarvert að nota ekki fíkniefni í fangelsum og þannig gætu þeir sem nota ekki fíkniefni fengið forskot á aðra. Þetta snýst um að leyfa föngum að taka ábyrgð á sinni afplánun og aðstoða þá við að halda sig á þeirri línu.
Fangelsismálastofnun tók skýrslunni og niðurstöðum hennar vel en svo hefur árið 2020 verið eins og allir þekkja. Því hafa allar breytingar verið settar á ís, nema lokun fangelsisins á Akureyri greinilega. Þannig að þarna sér Afstaða fyrir sér tækifæri fyrir framsækinn stjórnmálamann til að setja mark sitt á fangelsismál.
Að mati Afstöðu væri vert að skoða það að hverfa frá lokun fangelsisins á Akureyri og breyta því frekar í meðferðar- og endurhæfingardeild. Nýja deildin myndi þá taka við af hinum gamla meðferðargangi á Litla-Hrauni þar sem árangur hefur hvort eð er ekki verið til að hrópa húrra fyrir. Miklu meiri líkur eru á góðum árangri á sérstakri og aflokaðri meðferðardeild á Akureyri þar sem ekkert samneyti er við fanga sem eru á öðrum deildum og hafa engan áhuga á því að halda sig frá vímuefnum.
Þar sem að meðferðardeildin á Akureyri yrði svokölluð fyrirmyndardeild mætti jafnvel fækka starfsgildum þannig að hægt yrði færa 1-2 fangaverði í önnur fangelsi. Aftur á móti yrði að hefja náið samstarf við AA samtökin og Hjálpræðisherinn á Akureyri til að tryggja þeim föngum sem hefðu fengið þar inni nauðsynlega meðferðarþjónustu, þá myndi Afstaða hin raunverulega „grasrót“ æi fangelsismálum leggja sitt af mörkum en enda þau samtök sem hafa langmestu reynslu og þekkingu í þessum málaflokki ásamt Vernd fangahjálp. Jafnframt sér félagið fyrir sér að fangar á Akureyri fengju að hafa tölvur og síma, rétt eins og í opnu fangelsunum, auk hugsanlega fleiri dagsleyfa.
Í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að kostnaður við hvert fangarými á Akureyri sé tiltölulega lágur og Afstaða sér fyrir að með þessum breytingum myndi hann lækka enn frekar, alla vega til lengri tíma litið. Jafnframt myndi ráðherra koma til móts við óskir allra þeirra sem mótmælt hafa lokun fangelsisins harðlega að undanförnu auk þess sem þá væri á nýjan leik fylgt áherslum Fangelsismálastofnunar um að á Akureyri væru vistaðir fyrirmyndafangar.
Ekki þarf að minna ráðherrann á að betrun fanga er talin þjóðhagslega hagkvæm því hún dregur úr endurkomum í fangelsi. Því má á ýmsan hátt finna fleti sem benda til þess að um hagræðingaraðgerð sé að ræða til lengri tíma auk þess sem aðgerðin myndi efla traust á fangelsismálakerfið í heild sinni en fíkninefnavandinn í fangelsunum hefur verið viðvarandi í mörg ár, án þess að gripið hafi verið til nokkurra raunhæfra aðgerða. Hér sér Afstaða tækifæri til að koma meðferðarmálum fanga í betra horf og er félagið þess fullvisst að það muni bera gríðarlegan árangur.
F.h Afstöðu, Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður