Aron var vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja á árinu 2018 en þar á eftir Alexander og Emil. Emilía var vinsælasta stúlkunafnið, þá Embla og svo Ísabella. Þór var langvinsælasta annað eiginnafnið hjá drengjum, en þar á eftir Hrafn og Freyr. María var vinsælasta annað eiginnafn stúlkna en þá Rós og svo Sif .
Þegar litið er á heildarmannfjöldann í ársbyrjun 2019 má segja að litlar breytingar hafi orðið á mannanöfnum. Hjá körlum var Jón algengasta nafnið, þá Sigurður og svo Guðmundur. Af kvenmannsnöfnum var Guðrún algengast, þá Anna og svo Kristín. Nítján algengustu karlmannsnöfnin hafa verið þau sömu frá 2014 og þrettán algengustu hjá konum.
Eiginnöfn eftir fæðingarárgöngum
Bæði Jón og Guðrún hafa verið vinsælustu eiginnöfnin í gegnum tíðina en það má sjá þegar vinsælustu eiginnöfnin eru talin úr þjóðskránni 1. janúar 2019 og raðað eftir fæðingarárgöngum eins og sést í töflu 1. Það er ekki fyrr en komið er í árgangana sem fæddir eru milli 1981-1985 sem Anna veltir Guðrúnu af stalli sem vinsælasta eiginnafnið. Guðrún nær þó fyrri vinsældum hjá stúlkum fæddum 1991-1995 en Anna nær aftur fyrsta sæti meðal fæðingarárgangana 1996-2000. Sara hefur hins vegar verið vinsælasta eiginnafn kvenna sem fæddar eru 2006 eða síðar. Nokkuð meiri íhaldssemi gætir meðal karla en Jón heldur fyrsta sætinu þar til komið er í árgangana sem fæddust á frá 2006 til 2010 en þá varð nafnið Alexander vinsælla en Jón. Frá 2011 hefur Aron hins vegar verið vinsælasta eiginnafnið.
Tafla 1. Algengasta eiginnafn eftir fæðingarárgöngum 1. janúar 2019 | ||
Fæðingarárgangur | Karlar | Konur |
Fyrir 1961 | Jón | Guðrún |
1961-1965 | Jón | Guðrún |
1966-1970 | Jón | Guðrún |
1971-1975 | Jón | Guðrún |
1976-1980 | Jón | Guðrún |
1981-1985 | Jón | Anna |
1986-1990 | Jón | Anna |
1991-1995 | Jón | Guðrún |
1996-2000 | Jón | Anna |
2001-2005 | Jón | Anna |
2006-2010 | Alexander | Sara |
2011-2015 | Aron | Sara |
2016-2019 | Aron | Sara |
Flestir landsmenn bera fleiri en eitt nafn. Í ársbyrjun 2019 voru þrjár algengustu samsetningarnar hjá körlum Jón Þór, Gunnar Þór og Jón Ingi. Þetta voru einnig algengustu tvínefnin fimm árum fyrr. Hjá konum voru þrjár algengustu samsetningarnar Anna María, Anna Margrét og Anna Kristín hvort sem horft er til ársbyrjunar 2019 eða 2014.
Nöfn eftir landsvæðum
Flestir karlar á Íslandi heita Jón, Guðmundur eða Sigurður en algengustu nöfn kvenna eru Guðrún, Anna eða Kristín, óháð fæðingarstað. Líklegast er að stúlkur sem fæddust árin 2016-2019 heiti Íris, Embla eða Salka ef þær eru fæddar á Austurlandi; Sara, Bríet eða Emelía á Norðurlandi eystra; Karen á Norðurlandi vestra, Emma á Vestfjörðum, Emilía á Vesturlandi, Hanna á Suðurnesjum, Sara á höfuðborgarsvæðinu og Elísabet eða Saga ef þær eru fæddar á Suðurlandi (sjá töflu 2). Mestar líkur eru á að drengir sem fæddust árin 2016-2019 heiti Aron ef þeir eiga uppruna sinn að rekja til höfuðborgarsvæðisins, Alexander ef þeir eru frá Suðurnesjum eða Austurlandi, Haukur ef þeir eru frá Vestfjörðum, Baltasar á Norðurlandi vestra og Sigurður á Suðurlandi.
Tafla 2. Algengustu fimm eiginnöfn eftir landshlutum, kyni og fæðingarárgöngum 2016-2019 úr þjóðskrá 1. janúar 2019 | ||||||||
Höfuðborgarsv. | Suðurnes | Vesturland | Vestfirðir | Norðurland vestra | Norðurland eystra | Austurland | Suðurland | |
Drengir | (1) Aron | (1) Alexander | (1) Aron | (1) Haukur | (1) Baltasar | (1) Aron | (1) Alexander | (1) Sigurður |
(2) Alexander | (2) Jökull | (2) Viktor | (2) Jón | (2) Einar | (2) Jökull | (2) Guðmundur | (2) Aron | |
(3) Kári | (3) Jón | (3) Magnús | (3) Sigurður | (3) Hilmir | (3) Viktor | (3) Jóhann | (3) Arnar | |
(4) Mikael | (4) Arnar | (4) Emil | (4) Birkir | (4) Arnór | (4) Alexander | (4) Andri | (4) Gunnar | |
(5) Emil | (5) Ragnar | (5) Rúrik | (5) Elías | (5) Kristófer | (5) Guðmundur | (5) Úlfur | (5) Jón | |
Stúlkur | (1) Sara | (1) Hanna | (1) Emilía | (1) Emma | (1) Karen | (1) Sara | (1) Íris | (1) Elísabet |
(2) Lilja | (2) Bríet | (2) Kristín | (2) Auður | (2) Guðrún | (2) Bríet | (2) Embla | (2) Saga | |
(3) Embla | (3) Júlía | (3) Alexandra | (3) Ronja | (3) Árný | (3) Emilía | (3) Salka | (3) Karen | |
(4) Eva | (4) Rakel | (4) Maren | (4) Hekla | (4) Emma | (4) Lilja | (4) Maja | (4) Fanney | |
(5) Anna | (5) Sara | (5) Lilja | (5) María | (5) Arney | (5) Birta | (5) Margrét | (5) Sigrún |
Fæðingardagar
Afmælisdagar á Íslandi dreifast ekki jafnt yfir árið. Algengara er að börn fæðist að sumri og á hausti en yfir vetrarmánuðina, frá október og fram í mars. Alls eru 51,5% allra afmælisdaga á tímabilinu frá apríl til september. Í upphafi árs 2019 gátu flestir átt von á því að halda upp á afmælisdaginn 27. september, alls 1.123 einstaklingar. Fæstir áttu afmæli á hlaupársdag, 29. febrúar, eða 217 manns, en þar á eftir komu jóladagur (724) og gamlársdagur (783).
Um gögnin
Niðurstöðurnar eru unnar á grunni skráninga í Þjóðskrá í byrjun árs 2019.
Frá og með 1990 er fæðingarstaðurinn skilgreindur sem lögheimili móður en fyrir þann tíma er miðað við landsvæðið sem móðirin fæddi barnið í.