Þurfum stöðugan gjaldeyri – Krónan hrynur og er áhættugjaldmiðill – Stærsta mál þjóðarinnar!
,,Sjávarútvegurinn er eini aðilinn sem vill halda krónunni en gerir sjálfur upp í evrum“
Í ár eru 55 ár frá því að hægri umferð var tekin upp á Íslandi. Það var að morgni 26. maí árið 1968. Að baki lá mikill undirbúningur. Kostir þess að skipta yfir í hægri umferð voru augljósir enda voru flest nágrannalöndin með hægri umferð, flestir bílar voru framleiddir fyrir hægri umferð og erlendir ferðamenn komu flestir frá löndum með hægri umferð.
Ísland lagaði sig að alþjóðlega viðurkenndum umferðarreglum með upptöku hægri umferðar.
Nú er kominn tími til að Ísland taki upp alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðli með upptöku evru enda eru kostir þess augljósir. Skoðum málið nánar.
Krónan kostar of mikið
Krónan er eins og vinstri umferðin, hún gengur ekki lengur. Gengi krónunnar sveiflast upp og niður, hún krefst óvissuálags á alla vexti, engin leið er að gera fjárhagsáætlanir fram í tímann, hvorki hjá heimilum, ríkinu, fyrirtækjum né sveitarfélögum.
Þessi óvissa, verðbólguvæntingar krónunnar og gengissveiflur leiða til krónuálags á öll lán sem þýðir að um 4 prósentustig vaxta bætast ofan á öll lán á Íslandi miðað við evrulöndin.
Skuldir eru 8000 milljarðar og kostar okkur rúmlega 300 milljarða í auka vaxtakostnað
Heildarskuldir ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja sem nota krónur og fjölskyldna í landinu eru um 8000 milljarðar sem þýðir að það kostar okkur rúmlega 300 milljarða í auka vaxtakostnað að hafa krónuna í stað evru á ári eða tæp 10% af þjóðarframleiðslunni.
Þetta samsvarar um 3 milljóna aukakostnaði árlega á hvert meðalheimili í landinu.
Aukavaxtakostnaður ríkissjóðs vegna krónunnar er áætlaður um 70 milljarðar á ári (um 2% af þjóðarframleiðslu) sem er í raun okkar herkostnaður en flest ríki á Vesturlöndum veita um 2% af þjóðarframleiðslu í herútgjöld.
Gjaldmiðill er innviður
Oft er talað um innviði þjóða sem vegakerfi, ljósleiðara, orkukerfi og vatnsveitur.
Stærsti og mikilvægasti innviðurinn er þó gjaldmiðillinn – krónan. Til að hann sé nothæfur fyrir þjóðina þarf hann að vera stöðugur, geta geymt verðmæti og vera skiptanlegur.
Örgjaldmiðillinn krónan gerir ekkert af þessu og besta vísbendingin um algjört vantraust á krónunni er að hvergi í heiminum er hægt að skipta krónum fyrir annan gjaldmiðil.
Að nota íslenska krónu í dag er eins og að vera enn með vinstri umferð, hafa allar brýr einbreiðar, nota 1G í stað 5G eða nota 110 volt í stað 220 volt eins og allar nágrannaþjóðir gera.
Sjálfstæða íslenska króna var tekin í notkun árið 1922 en fram að því hafði hún verið í myntsamstarfi við hin Norðurlöndin með fast gengi í um fjóra áratugi sem voru mestu hagvaxtarskeið Íslands fyrr og síðar. Hægt var að nota krónuseðla í viðskiptum um öll Norðurlönd og í Skotlandi. Hún var viðurkenndur gjaldmiðill, stöðugur og skiptanlegur.
Síðan 1922 hefur krónan verið mjög „sjálfstæð“ og í frjálsu falli. Hún hefur rýrnað um 99,98% gagnvart dönsku krónunni
Ef hún hefði ekki verið minnkuð um tvö núll fyrir um 40 árum kostaði bensínlítrinn um 30 þúsund krónur í dag, kaffipokinn um 100 þúsund og meðalstór íbúð um 7 milljarða króna.
Krónuhagfræðin hefur brugðist
Okkur hefur verið talin trú um það að sveigjanleg króna tryggi lítið atvinnuleysi. Samt er lægsta atvinnuleysið í heiminum í Færeyjum samkvæmt tímaritinu Economist. Færeyingar hafa búið við stöðugan gjaldmiðil í um 30 ár en færeyska krónan er beintengd við evruna gegnum dönsku krónuna. Færeyingar eru þannig í raun með evru.
Hagkerfi Færeyja er svipað og okkar. Það byggist um 70% á þjónustugreinum og útflutningi sem byggir á sjávarútvegi og ferðamennsku.
Frá því að elstu menn muna, þar á meðal ég, hefur íslenska hagkerfið einkennst af eilífum sveiflum í vöxtum, verðbólgu og gengi krónunnar. Íslensk heimili þurfa að starfa eins og vogunarsjóðir eða áhættustýringarfyrirtæki. Þau þurfa stanslaust að huga að lánabreytingum og viðbrögðum við sveiflum í hagkerfinu.
Hrunið 2008 fór langverst með okkur hér á Íslandi. Hvergi í hinum vestræna heimi hrundi gjaldmiðillinn um 50%, hvergi fóru lán upp um allt að 100% og hvergi fóru hlutfallslega jafn mörg fyrirtæki og heimili í gjaldþrot. Allt bendir til að krónan hafi þarna verið helsti orsakavaldurinn.
Í öllum nágrannalöndum okkar er verðbólgan komin niður í 2-5% meðan við erum enn í um 8% verðbólgu. Vaxtahækkanirnar hér á landi ýta undir verðbólgu með hækkun byggingarkostnaðar og rekstrarkostnaðar í verslun og matvælaiðnaði.
Í heiminum eru um 200 lönd. Ísland er 60. fámennasta landið.
Lausleg athugun sýnir að ekkert land með hagkerfi svipað okkar er með sjálfstæðan gjaldmiðil. Allir nema við hafa gert sér grein fyrir því að sjálfstæður gjaldmiðill í litlu hagkerfi er allt of dýr fyrir almenning.
Kjöraðstæður eru á Íslandi fyrir stöðugleika
Íslenska hagkerfið ætti að vera stöðugasta hagkerfi Vesturlanda.
Við veiðum um 1,5 milljón tonn af fiski á ári, ár eftir ár. Stóriðjan framleiðir tæp milljón tonn af afurðum á ári og hefur gert það í áratugi.
Við framleiðum stöðugt um 18 gígawattstundir af raforku á ári og seljum að mestu til stóriðju og flytum orkuna þannig út sem ál og járnblendi.
Við fáum um 2 milljónir ferðamanna ári og hugverkaiðnaðurinn flytur út hugvit og þjónustu fyrir um hundruð milljarða á hverju ári.
Þetta ætti að þýða stöðugt gengi og stöðuga lága vexti í öllum venjulegum hagkerfum.
Samt erum við með mestu sveiflur á gengi, vöxtum og verðbólgu á Vesturlöndum.
Orsakavaldurinn er okkar sveiflukennda, rándýra og úrelta króna.
Það sem við þurfum er stöðugur, alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill.
Frá því í ágúst hefur krónan hrunið um 7% sem myndi í öllum hagkerfum kalla á hörð viðbrögð en hér þykir þetta sjálfsagður hlutur, enda krónan eins og veðrið, óútreiknanleg.
Við eigum betra skilið
Allir kvarta undan háum vöxtum. Heimilin, bændur, byggingarverktakar, sveitarfélögin og ríkissjóður. En hin 248 fyrirtæki sem hafa kosið með fótunum og flúið krónuna, þar á meðal ríkisfyrirtæki, taka hagstæð lán í evrum og dollurum og vorkenna okkur hinum sem þurfum að láta krónulánin duga.
Aðskilnaðarstefnan í gjaldmiðlamálum lifir þannig góðu lífi á Íslandi. Sumir mega taka upp erlendan gjaldmiðil, aðrir ekki.
Þetta minnir á ástandið í Austur Þýskalandi þegar elítan í landinu gat fengið laun í erlendum gjaldmiðli og verslaði í sérstökum gjaldeyrisbúðum. Það minnir líka á að áður gátu sumir keypt bjór á Íslandi, aðrir ekki.
Unga fólkið á Íslandi þarf að borga rúm 12 prósent húsnæðisvexti meðan jafnaldrar þeirra í Færeyjum borga rúmlega 4 prósent. Bara vextir af 40 milljón króna láni eru þannig um 5 milljónir fyrsta árið. Það þarf að hafa um 700 þúsund í mánaðarlaun, bara til að geta greitt vextina.
Unga fólkið okkar á betra skilið.
Kostir upptöku evru á Íslandi eru auk þess margir:
- Við fengjum stöðugan gjaldmiðil sem myndi auka erlenda fjárfestingu.
- Með evru yrði nýsköpunarumhverfið mun betra og stöðugra.
- Launþegar gætu notað evrurnar í Evrópu án skiptikostnaðar sem nemur allt að 5%
- Erlendir bankar og tryggingafélög kæmu til landsins og samkeppni myndi aukast.
- Seðlabankinn yrði að mestu óþarfur en hann kostar rúma 8 milljarða á ári.
- Gjaldeyrisvarasjóður yrði óþarfur en hann kostar okkur nú um 40 milljarða á ári.
- Gjaldeyrisskiptakostnaður vegna milliríkjaviðskipta með evrur myndi minnka um 20-30 milljarða á ári.
Þetta þarf ekki að vera svona
Ókostir krónunnar eru miklir og alvarlegir. Ef krónan væri lyf, væri hún bönnuð vegna mikilla aukaverkana.
Við getum tekið upp evru eins og 20 önnur Evrópuríki, auk Danmerkur og Færeyja sem eru með krónur sem eru beintengdar evru og lifa við vexti kringum 4 prósent.
Til þess þurfum við að ljúka aðildarviðræðum við ESB enda erum við nú þegar með hagstæða aukaaðild án atkvæðisréttar. Full aðild væri stórt skref til stöðugleika og þátttöku í ákvörðunartöku innan ESB.
Með stöðugum gjaldmiðli er auðveldara að ná verðbólgunni niður þar sem samkeppni ríkir. Krónan okkar er nefnilega besta vörn fyrirtækja gegn samkeppni enda eru engir erlendir bankar eða tryggingafélög á Íslandi vegna sveiflukenndrar krónu.
Eini kostur krónunnar er að hana má gengisfella með einni ákvörðun eða með markaðslögmálinu en því ráða örfáir spákaupmenn og Seðlabankastjórinn.
„Tími krónunnar er liðinn“
Þessa yfirskrift er að finna á vefsíðu Samtaka Atvinnulífsins. Þar stendur:
„Það er hagstætt fyrir Íslendinga að taka upp evru og hægt er að gera slíkt án aðildar að ESB. Sjálfstæðum gjaldmiðli í jafn litlu landi og Íslandi fylgir umtalsverður fórnarkostnaður og ávinningur sjálfstæðrar peningastefnu er mun minni en kostnaðurinn sem henni fylgir“
Síðar er á vefsíðu SA vitnað í orð núverandi seðlabankastjóra sem sagði á fundi um málið þetta:
„Staðan væri í rauninni sú að á Íslandi væri minnsta myntsvæði í heimi sem liggi að stærsta myntsvæði í heimi. Upptaka evru væri því augljós kostur fyrir Íslendinga. Einhliða upptaka evru væri vel möguleg og myndi ekki fela í sér álitshnekki fyrir hagstjórn Íslendinga“ segir á vef Samtaka Atvinnulífsins.
Í skýrslu Alþjóðamálastofnunar HÍ til aðila vinnumarkaðarins, 2013 segir m.a.: „Þegar allt þetta er dregið saman, auk þess að taka tillit til þess mikla viðskiptaábata sem alþjóðleg og greiðsluhæf mynt getur sannanlega fært smáþjóðum, verður ekki önnur ályktun dregin en að upptaka evru með aðild að myntbandalagi Evrópu muni fela í sér gríðarlegan velferðarábata fyrir Ísland“
Klárum aðildarviðræður við ESB
Til þess að taka upp evru þurfum við að klára aðildarviðræðurnar og ganga í ESB.
Ríkisstjórnarflokkarnir segja að „hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB“.
Engin greining um þetta stóra mál hefur verið gerð. Þessu er bara slegið fram án röksemda og er hvergi að finna gögn eða greiningar sem komast að þessari niðurstöðu.
Þegar aðildarviðræður voru í gangi var búið að semja um öll málefni nema landbúnað og sjávarútveg.
Ljóst er að íslenskir bændur munu fá ríflega styrki frá ESB enda er norðlægur landbúnaður að fá mikla aðstoð í Finnlandi og Svíþjóð.
Sjávarútvegur og fiskeldið fengi tollfrjálsan aðgang á fullunnum afurðum. Engin þörf er fyrir undanþágur fyrir sjávarútveginn enda er tryggt að engar aðrar þjóðir fá að veiða í íslenskri landhelginni okkar.
Með aðild að ESB fengjum við evru með tilheyrandi stöðugleika, vaxtalækkun, erlendar fjárfestingar og aukna samkeppni á Íslandi.
Viðreisn er eini flokkurinn á Alþingi sem hefur það á stefnuskrá sinni að ljúka aðildarviðræðum við ESB og taka upp evru í stað krónu í framhaldinu.
Thomas Möller, varaþingmaður Viðreisnar, mætti í Bítið til Lilju og Heimis:
Engir gallar við upptöku Evru – Viðtal
https://frettatiminn.is/06/12/2023/vid-eigum-900-milljarda-en-lepjum-daudann-ur-skel/