Átta sóttu um setningu í embætti dómara við Landsrétt. Ástráður Haraldsson hrl. var enn á ný á meðal umsækjenda en þetta er í þriðja sinn sem hann sækir um stöðuna. Hann var í hópi þeirra sem hæfnisnefnd mat á meðal hæfasta umsækjenda en þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen kom í veg fyrir að það mat væri notað og var dæmd fyrir þann gjörning af Mannréttindadómstóli Evrópu og sagði af sér í kjölfarið.
Ástráði voru dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur eftir að Hæstiréttur felldi dóm um að Sigríður Andersen hefði brotið lög með því að endurraða umsækjendum í samræmi við það hvernig hún teldi persónulega að rétt hefði verið að meta þá.
Þann 20. desember 2019 auglýsti dómsmálaráðuneytið enn á ný, tvö embætti dómara við Landsrétt og rann sá umsóknarfrestur út þann 6. janúar sl. ,,Sett verður í embættin hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefur lokið störfum.“ Segir nú á vef dómsmálaráðuneytisins.
Umsækjendur um embættin eru:
1. Ása Ólafsdóttir, prófessor
2. Ástráður Haraldsson, héraðsdómari
3. Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar
4. Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari
5. Hildur Briem, héraðsdómari
6. Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari
7. Ragnheiður Snorradóttir, héraðsdómari
8. Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómari