,,Bankarnir eru stútfullir af peningum“
En fyrir hverja eru bankarnir? Ég hef t.d. staðið í rekstri á minni fyrirtækjum í áratugi og bæði ég og kollegar mínir getum staðfest það að bankarnir eru ekki fyrir minni fyrirtækin. T.d. var einn af vinum mínum í þessum hópi að koma sér upp góðu og arðbæru fyrirtæki í ferðaþjónustu.
Hann var búinn að leggja 30 milljónir í fyrirtækið sem á eignir og er í ferðaþjónustu þar sem afþreying fyrir ferðamenn er í forgrunni. Þessi sami maður var með veð upp á 25 milljónir fyrir bankann og bað um tvær til þrjár milljónir til að klára verkefni sem þurfti að vera tilbúið fyrir sumarið. Bankinn sagði nei og gaf ekki upp aðra ástæðu en þá að þeir væru ekki að lána.
Bankarnir eru bara fyrir þá sem þurfa ekki lán og fyrir innmúraða gæðinga
Bankarnir eru greinilega bara fyrir þá sem þurfa ekki lán, innmúraða gæðinga og jafnvel oligarka Íslands. Maður þarf kannski að vera í réttum flokki og þekkja réttu mennina? Við sjáum t.d. hvernig fór fyrir Arionbanka varðandi United Silico í Reykjanesbæ þar sem milljarðar töpuðust. Við borgum fyrir það klúður eins og öll önnur klúður bankanna með okurvöxtum sem við eigum heimsmet í. Hefði ekki verið nær að setja alla þá milljarða sem bankarnir eru að tapa á ævintýrum sínum í útlánum, í minni fyrirtæki í staðinn fyrir að veðja á fáa gæðinga?
Allir sem ég ræði við segja að bankarnir séu ónýtir fyrir minni fyrirtækin í landinu, fyrirtæki sem skapa gjaldeyristekjur sem önnur. Einstaklingsfrelsið er fótum troðið og einungis lánað í ævintýraleg stórfyrirtæki og braskara. Þetta er raunveruleikinn í kringum alla þá sem ég ræði við um rekstur fyrirtækja á Íslandi.
Eina sem getur bjargað minni fyrirtækjum og fólkinu í landinu er að Landsbankanum verði breytt í Samfélagsbanka sem er svipað rekstrarform og Sparisjóðirnir voru. Í Sparisjóðnum var maður ekki bara kennitala, heldur manneskja og gat átt mannleg samskipti við starfsfólkið. Núna eru einokunarbankarnir á Íslandi búnir að byggja glerhallir upp á tugi milljarða og hleypa engum að sér nema í gegnum tölvusamskipti. Hvað varð um mannlega bankaþjónustu? Fyrir hverja eru bankarnir?
,,Bankarnir eru stútfullir af peningum og eru að skila okkur 70 milljörðum í arð“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Silfrinu. Hún telur að það eigi að koma í gegn sölu á ríkisbönkunum með miklum hraða, það hafi verið byrjað að undirbúa söluna korter í jól og telur hún þá tímasetningu alls ekki neina tilviljun. Það blasir við að það á að hirða þessa eign af þjóðinni í skjóli myrkurs miðað við hvernig hún lýsir þessum undarlegu vinnubrögðum.
Sérhagsmunir eða almannahagsmunir?
Þá þykir henni undarlegt að vera að selja eignir ríkisins í miðjum heimfaraldri, það geti varla verið hagsmunir ríkisins sem þar ráði för. ,,það á alls ekki að selja bankana á þessum tímapunkti, það er enginn í veröldinni að gera slíkt í miðjum heimsfaraldri.“ Sagði Oddný en auðvitað sér hver heilvita maður hvað er í gangi. Það á að gefa einhverjum gæðingum bankana aftur og ég er viss um að það er þegar búið að ákveða hverjir eiga að fá þá eins og síðast.
Hafa Vinstri grænir ekkert lært?
Rán var það og rán skal það heita sagði fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon um rannsóknarskýrslu ríkisins sem fletti ofan af síðasta snúning með einkavinavæðingu á bönkunum, það þarf ekki að gera annað en fara á Youtube til þess að rifja þetta upp. Hafa Vinstri grænir ekkert lært? Er ekki verið að framkvæma nýtt rán á þeirra vakt þegar Vinstri grænir eru með stól forsætisráðherra? Hér er smá upprifjun fyrir ykkur:
Hagnaður Landsbankans 29 milljarðar og 14,4 milljarðar í arð til hluthafa
Landsbankinn dæmdur – ,,Tugir milljarða sem talið er að bankarnir hafi oftekið“