Nú keppast ofurlaunaðir framkvæmdastjórar lífeyrissjóða við að réttlæta gríðarlegt tap þeirra árið 2022. Þeir eru hættir að rengja rauntapið upp á ríflega 800 milljarða en gagnrýna framsetningu á rauntapi. Sem hlýtur samt að vera eina rétta viðmiðið þar sem lífeyrisréttindi eru verðbætt.
Svo koma fram fullyrðingar að taka þurfi tillit til lengri tíma í ávöxtun sem er einnig áhugaverð nálgun. Sérstaklega í ljósi þess þegar innlendur hlutabréfamarkaður þurkaðist út í hruninu 2008.
Lífeyrissjóðirnir töpuðu 97% allra innlendra hlutabréfa en langtímaávöxtun, meðaltalið, var samt gott. Samanborið við Icelandair sem hefur tvisvar orðið „gjaldþrota“ frá 2008 en samt er langtímaávöxtun sjóðanna í félaginu góð.
Þetta er þekkt aðferð sjóðanna til að fegra stöðuna þar sem sá meðaltalsútreikningur sem sjóðirnir nota er í besta falli vafasamur og stenst auðvitað enga skoðun. Svo notast sjóðirnir við nafnávöxtun þegar það henttar þeim betur að fegra hrikalega stöðu sína.
Það sem vekur sérstaka athygli er að „uppgefinn“ rekstrarkostnaður, með fjárfestingargjöldum, fimm stærstu sjóðanna var um 15,7 milljarðar árið 2020 en 21,8 milljarðar árið 2022 þegar þeir töpuðu að raunvirði um 845 milljörðum króna. Það er von að maður spyrji hvers við sjóðfélagar eigum að gjalda fyrir þetta bull. Til að toppa vitleysuna greiddum við framkvæmdastjórum fimm stærstu sjóðanna 167 milljónir í launagreiðslur og önnur hlunnindi á tap árinu mikla 2022.
Stjórnendur sjóðanna koma fram af sama fádæma hrokanum og yfirlæti þegar eigendur sjóðanna gagnrýna sjálftökuna og ég leyfi mér að segja spillinguna sem þrýfst í þessu kerfi. Þetta er svo sannarlega ríki í ríki og okkur kemur þetta ekki við.