Norðan hríð er nú á Norðurlandi og Vestfjörðum og gular viðvaranir í gildi, en hægari vindur í öðrum landshlutum. Í dag mun hvessa vestanlands og á Austurlandi með éljagang. Í nótt og á morgun dregur síðan úr vindi og úrkomu á landinu og annað kvöld verður vindur víðast hvar á bilinu 3-10 m/s, léttskýjað sunnantil en ennþá stöku él um landið norðanvert. Útlit er fyrir hæga norðlæga átt á miðvikudag og fimmtudag með bjartviðri og talsverðu frosti.
Veðurhorfur á landinu
Norðan og norðvestan 13-23 m/s V-til, en mun hægari A-lands. Snjókoma, jafnvel talsverð á N-landi og N-til á Vestfjörðum, úrkomulítið S-lands. Frost 0 til 4 stig, en heldur hlýnandi er líður á daginn. Norðaustlægari í kvöld og snjókoma eða él N-til, en léttir til syðra. Norðan 10-20 á morgun, éljagangur á norðanverðu landinu og stöku él seinnipartinn suðaustanlands en að mestu léttskýjað sunnantil. Dregur úr vindi og úrkomu er líður á morgundaginn. Frost 0 til 7 stig.
Spá gerð: 10.02.2020 05:23. Gildir til: 11.02.2020 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Norðaustlæg átt, 5-13 m/s, hvassast NV-til. Dálítil él fyrir norðan og syðst á landinu, en annars bjart með köflum og þurrt. Frost 1 til 10 stig, mest inn til landsins.
Á fimmtudag:
N-læg eða breytileg átt, 3-10 m/s og lítilsháttar él við N-ströndina, en annars víða bjart veður. Suðaustan 8-13 SV- og V-lands síðdegis og þykknar upp. Frost 2 til 14 stig, kaldast inn til landsins.
Á föstudag:
Austan stormur með snjókomu eða slyddu og rigningu syðst seinnipartinn, en þurrt fyrir norðan framan af degi. Dregur úr vindi um kvöldið og nóttina. Hlánandi S-lands, en minnkandi frost fyrir norðan.
Á laugardag:
Gengur í hvassa austanátt með talsverðri rigningu SA-til, slyddu eða snjókomu á Vestfjörðum, en annars úrkomulítið. Vægt frost, en hiti 0 til 4 stig S-lands.
Á sunnudag:
Útlit fyrir stífa norðaustanátt með snjókomu eða slyddu fyrir norðan, en þurru syðra. Hiti breytist lítið.
Spá gerð: 10.02.2020 09:02. Gildir til: 17.02.2020 12:00.