Miðað við bráðabirgðatölur sem byggja á fyrstu skilum fyrir janúarmánuð má ætla að gistinætur á hótelum í janúar hafi verið um 20.000 (95% öryggismörk 16.000-23.000), þar af hafi íslenskar gistinætur verið um 16.000 (95% öryggismörk 13.000-19.000) og gistinætur útlendinga um 4.000 (95% öryggismörk 2.000-5.000).
Borið saman við 291.100 gistinætur í janúar 2020 má ætla að orðið hafi um það bil 93% samdráttur á fjölda gistinátta í janúar á milli ára. Þar af má ætla að gistinóttum Íslendinga hafi fækkað um á að giska 48% frá sama mánuði í fyrra en gistinætur útlendinga hafi á sama tíma dregist saman um 98,5%..
Samkvæmt sömu áætlun var rúmanýting í janúar 2021 um 4,8% (95% öryggismörk: 4,1%-5,5%) samanborið við 41,4% í sama mánuði í fyrra.
Þar sem samanburður á bráðabirgðamati og endanlegum tölum leiddi í ljós að fyrstu bráðabirgðatölum hætti til að ofmeta fjölda gistinátta miðað við endanlegar tölur var leiðréttingu bætt við útreikninga frá og með tölum fyrir október 2020 til þess að gera ráð fyrir þessu. Bráðabirgðatölur fyrir desember 2020 gerðu ráð fyrir að gistinætur hefðu verið um 25.000 (95% öryggismörk 20.000-31.000) en þegar búið var að vinna úr öllum tölum fyrir desember reyndist endanlegur fjöldi gistinátta hafa verið 21.277 sem var innan 95% öryggismarka.