Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á fundi sínum í síðasta mánuði að hækka laun Bjarna Bjarnasonar, forstjóra fyrirtækisins, um 370 þúsund krónur á mánuði. Launin fara við það úr 2,5 milljónum í 2,87 milljónir króna á mánuði samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag. Bjarni fær auk þess þriggja milljóna króna eingreiðslu. Laun Bjarna hækka úr 30 milljónum í 34.4 milljónir á ári samkvæmt hækkuninni.
Drög að minnisblaði starfskjaranefndar Orkuveitu Reykjavíkur voru lögð fram á stjórnarfundi Orkuveitunnar 22. febrúar s.l. en þar var fjallað um ákvörðun launa forstjóra og innri endurskoðanda. Stjórnin ræddi starfskjör forstjóra á þeim fundi en úr varð að starfskjaranefnd myndi leggja tillögu fyrir aukafund stjórnar þremur dögum síðar. Fundargerð þess fundar hefur ekki verið birt á vef Orkuveitunnar en Fréttablaðið greinir frá niðurstöðunni um laun forstjóra í dag.