7.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

,,Tók á móti lögreglumönnum með stóran og beittan hníf í hendi“

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Í fréttum lögreglu er þetta helst frá 17:00 þann 09.03.2023.

Lögreglustöð 1 – Seltjarnarnes, Vesturbær, Miðbær og Austurbær

Tilkynnt um neyslu fíkniefna í bifreið í hverfi 170. Lögregla fer á vettvang og ræddi við umráðamann bifreiðarinnar sem heimilaði leit í bifreiðinni. Ekki fannst neitt saknæmt í bifreiðinni en einn farþegi reyndist eftirlýstur í kerfum lögreglu, farþeginn var því handtekinn og fluttur á lögreglustöð til frekari skoðunar.

Íbúi í hverfi 108 óskar eftir aðstoð lögreglu eftir að grunsamlegur aðili barði á dyr og glugga hans. Lögregla fer á vettvang og ræðir við húsráðanda sem tók á móti lögreglumönnum í miklu uppnámi, með stóran og beittan hníf í hendi. Húsráðanda tjáð að hafa samband við lögreglu ef aðilinn kæmi aftur en í kjölfarið óku lögreglumenn um hverfið í leit að aðila sem passaði við lýsingu frá tilkynnanda. Aðilinn fannst ekki en ekki bárust frekari tilkynningar til lögreglu um þessar grunsamlegu mannaferðir.

Tilkynnt um minniháttar umferðaróhapp í hverfi 103. Lögregla fer á vettvang og leiðbeina ökumönnum í gegnum tjónaferlið sem þeir treystu sér til að gera sjálfir án aðstoð lögreglu.

Lögregla stöðvar ökumann til þess að kanna ástand og réttindi. Ökumaður reyndist í góðu ástandi og alls gáður eftir að hafa látið í té munnvatnssýni. Ökuréttindi ökumannsins voru þó ekki í góðu ástandi en hann reyndist vera sviptur ökurétti. Ökumaðurinn viðurkennir brotið og skýrsla rituð um málið.

Hraði ökutækis mældist á 81 km/klst. þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. í hverfi 105. Lögreglumenn gefa ökumanni merki um að stöðva akstur með forgangsljósabúnaði lögreglubifreiðar og gefa sig á tal við ökumann. Ökumaður játar brotið og málið afgreitt með vettvangsformi.

Hótelstarfsmaður óskar eftir aðstoð lögreglu vegna rúðubrots í hverfi 101, í tilkynningu kemur fram að gerendur séu enn á vettvangi og mjög ölvaðir. Lögregla fer á vettvang og gefur sig á tal við meinta gerendur. Annar geranda var í annarlegu ástandi, honum kynnt ástæða afskipta og réttarstaða sakbornings. Framburður gerandans var mjög ruglingslegur og atburðarásin óljós. Gerandinn kvaðst ekkert kannast við neitt rúðubrot og viðurkenndi að hann hafði ekki hugmynd um staðsetningu hótelsins þar sem rúðan átti að hafa verið brotin. Þegar lögreglumenn á vettvangi ætluðu að ræða við hinn aðilann byrjaði hann á því að hlaupa undan lögreglu sem gekk illa sökum ástands en lögregla hljóp aðilann uppi eftir aðeins örfá skref. Var seinni aðilinn færður í lögreglutök og síðan handjárn til að tryggja öryggi og návist. Aðilanum var kynnt ástæða handtöku og réttarstaða sakbornings. Hinn grunaði kannaðist ekkert við það að hafa sparkað í rúðu og þvertók fyrir það að hafa ollið eignaspjöllum og tók ekki neina afstöðu til bótakröfunnar. Að viðræðum loknum voru gerendur lausir úr haldi lögreglu.

Lögreglumenn verða vitni af því þegar bifreið er bakkað inn götu þar sem innakstur er bannaður í hverfi 101. Ökumaður yfirgefur bifreiðina vegna ágreinings við tvo aðra menn. Lögregla gefur sig á tal við aðilana en þá kemur í ljós að ökumaðurinn reyndist vera einn af gerendum í meintu rúðubroti. Ökumaðurinn var því handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis en ökumaðurinn lét einnig í té munnvatnssýni sem sýndi jákvæða svörun á ávana- og fíkniefni. Ökumaðurinn var fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hjúkrunarfræðingur dró úr honum blóð, að sýnatöku lokinni var ökumaðurinn sem er jafnframt grunaður um rúðubrot vistaður í fangaklefa sökum ástands þar sem hann fær að sofa úr sér fyrir yfirheyrslu.

Lögreglustöð 2 – Hafnafjörður og Garðabær

Tilkynnt um mann sem að kraup á skeri rétt við strandlengju í hverfi 210. Lögregla fer á vettvang á forgangi og ræddi við sjónarvotta. Sjónarvottar tjáðu viðbragðsaðilum að maðurinn hefði staðið á skerinu, beygt sig niður og síðan horfið. Lögreglumenn sáu skóför í snjó sem lá milli strandar og skers en engin spor sem bentu til þess að aðilinn hafi gengið til baka frá skerinu.

Lögreglumenn á vettvangi mátu aðstæður sem slíkar að kalla þyrfti út þyrlu Landhelgisgæslunnar en einnig aðstoð frá Sérsveit Ríkislögreglustjóra og kafarahóp Slökkviliðsins á Höfuðborgarsvæðinu. Stuttu eftir að lögreglumenn óskuðu eftir frekari aðstoð rákust þeir á aðila á rölti við ströndina sem reyndist vera aðilinn sem leitað var að. Aðilinn kvaðst aldrei hafa farið í sjóinn en viðurkenndi að hafa farið út á skerið, kropið og tekið ljósmyndir af ísnum sem hafði myndast á skerinu. Lögreglumenn afturkölluðu aðstoð frá LHG, Sérsveit og SHS.

Tilkynnt er um umferðarslys í hverfi 220 og er tekið fram að tveir aðilar séu lemstraðir en þó með meðvitund. Lögregla er send á vettvang á forgangi. Lögregla gefur sig á tal við annan ökumanninn sem viðurkenndi að hafa verið að nota farsíma sinn við akstur og ekki verið í öryggisbelti. Ökumaðurinn blés í öndunarprófsmæli sem sýndi 0,0 promill. Í kjölfarið var tekið munnvatnssýni sem gaf jákvæða svörun á ávana- og fíkniefni. Ökumanninum tilkynnt að hann væri handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna ásamt réttarstöðu sakbornings. Ökumaðurinn reyndist einnig vera ökuréttindalaus. Ökumaðurinn var fluttur í lögreglubifreið á lögreglustöð þar sem vakthafandi hjúkrunarfræðingur dró úr ökumanninum blóð. Að sýnatöku lokinni var ökumaðurinn laus úr haldi lögreglu. Ökumaður og farþegi í hinni bifreiðinni voru báðir í öryggisbeltum og fundu til eymsla eftir áreksturinn.

Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 220 þar sem grímuklæddur aðili var að sniglast í garði hjá tilkynnanda. Aðilinn flúði vettvang er hann varð var við öryggismyndavél í garðinum. Lögregla fór á vettvang og ræddi við þennan grunsamlega aðila sem reyndist vera erlendur, áttavilltur ferðamaður í leit að AirBnB íbúð sinni sem hann hafði tekið á leigu.

Lögreglustöð 3 – Kópavogur og Breiðholt

Skráningarmerki fjarlægð af ökutæki sem reyndist ótryggt.

Lögreglu berst tilkynning um eld frá veitingastað í hverfi 201. Í ljós kemur að veitingastaðurinn er búinn ofni sem er kynntur með því að brenna við. Það útskýrði brunalyktina og eldglæðingarnar sem bárust upp úr strompi veitingastaðarins.

Tilkynnt um líkamsárás í hverfi 111 þar sem árásarþoli var laminn með gerefti. Lögregla fer á vettvang og handtekur árásaraðilann og hann kærður fyrir eignaspjöll og meiriháttar líkamsárás. Árásaraðilinn vistaður í fangaklefa vegna rannsókn þessa máls.

Lögreglustöð 4 – Grafarvogur, Árbær og Mosfellsbær

Lögregla gefur ökumanni bifreiðar merki um að stöðva akstur í hverfi 113 en í staðinn fyrir að stöðva gefur ökumaður í, ökumaður bifreiðarinnar lagði bifreið sinni í bifreiðarstæði og reyndi að hlaupa undan lögreglu. Lögreglumenn hlupu ökumanninn uppi og var hann handtekinn í anddyri fjölbýlishúss. Ökumaður bar þess merki að vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var hann færður í handjárn og honum fylgt í lögreglubifreiðina þar sem hann lét í té munnvatnssýni sem sýndi jákvæða svörun á ávana- og fíkniefni. Ökumaðurinn var fluttur á lögreglustöð þar sem hjúkrunarfræðingur dró úr honum blóð vegna rannsókn þess máls. Að sýnatöku lokinni var ökumaðurinn frjáls ferða sinna. Ökumaðurinn reyndist einnig vera réttindalaus.

Tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir þar sem aðili klifrar yfir svalahandrið sem tilheyrir séreign í fjölbýlishúsi. Tilkynnandi var ekki með augu á vettvangi kemur fram í bókun. Lögregla fer á vettvang og ræðir við húsráðanda íbúðarinnar. Þarna hafði húsráðandi sem betur fer bara gleymt lyklunum sínum og tekið þá ákvörðun þar sem hann er léttur á fæti að vippa sér yfir svalahandriðið og fara inn um svalahurð.

Ökumaður stöðvaður í hverfi 112, grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en grunur var staðfestur með munnvatnssýnaprófi. Ökumaðurinn var handtekinn en í öryggisleit fannst hnúajárn á ökumanninum. Ökumaðurinn var fluttur á lögreglustöð þar sem hjúkrunarfræðingur dró úr honum blóð. Hnúajárnið var haldlagt en ökumaðurinn kvaðst eiga hnúajárnið. Að sýnatöku lokinni var ökumaðurinn laus úr haldi lögreglu.