3.8 C
Reykjavik
Laugardagur - 28. janúar 2023
Auglýsing

Hvað gerði ríkisstjórnin vegna gjaldþrots WOW air?

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img

Ríkisstjórnin hefur birt á vef Stjórnarráðsins, upplýsingar um það hvað hún gerði vegna gjaldþrots WOW air, en þar kemur m.a. fram að margir fundir voru haldnir og mikið af minnisblöðum skrifuð af ráðherrunum auk verkefna eftir að WOW var fallið. Ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd af t.d. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Miðflokksins fyrir algert aðgerðar- og úrræðaleysi varðandi WOW air. Sigmundur Davíð sagði m.a. ríkisstjórnina hafa verið eins og áhorfendur að horfa á stórt skip sökkva í sjóinn, en stæði sjálf úrræða- og getulaus í fjörunni og horfði á skipið sökkva án þess að koma neitt þar að til björgunar.
Gífurlegar afleiðingar eru vegna gjaldþrotsins fyrir land og þjóð, og þúsundir hafa misst vinnu sína með beinum eða óbeinum hætti vegna áhrifa af gjaldþrotinu og um stórkostlegt áfall er um að ræða fyrir ferðaiðnaðinn þar sem að WOW var með mikla markaðshlutdeild og því öllum ljóst að stórt skarð er hoggið í tekjur af ferðamönnum vegna þessa á Íslandi. Hér að neðan er svo lýsing ríkisstjórnarinnar á verkum sínum varðandi málefni WOW

,,Viðbrögð stjórnvalda vegna gjaldþrots WOW air“

  • Aukið fjármagn til Vinnumálastofnunar og heilbrigðisstofnana
  • Viðbragðsáætlanir stofnana virkjaðar
  • Úrræði fyrir námsmenn sem misst hafa vinnuna
  • Nám og námsaðstaða efld
  • Ráðherrar funda með fulltrúum sveitarfélaga, mennta- og heilbrigðisstofnana
  • Viðbúnaðarhópur stjórnvalda fylgdist með heimflutningi farþega
  • Komið verður til móts við þarfir samfélagsins á Suðurnesjum

,,Stjórnvöld hafa brugðist við með fjölmörgum aðgerðum frá því að flugfélagið WOW air hætti starfsemi 28. mars sl. Ráðherrar hafa fundað með fulltrúum vinnumálastofnana og heilbrigðisstofnana. Þá hafa stjórnvöld fylgst með erfiðleikum í alþjóðlegum flugrekstri og samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga í því ljósi allt síðasta ár m.a. með það að markmiði að kortleggja þætti sem þyrfti að ráðast í færi flugfélagið WOW í þrot.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, boðaði til fundar í Stjórnarráðinu með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúum Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkur og Voga, auk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins 1. apríl sl. og fór yfir stöðuna sem upp var komin eftir gjaldþrot WOW og mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög vinni sameiginlega að viðbrögðum til skemmri og lengri tíma. Hún hefur sömuleiðis kallað eftir upplýsingum um viðbrögð og aðgerðir frá viðeigandi ráðuneytum og samhæfing verkefna verið rædd á ríkisstjórnarfundum.
Áður hafði ríkisstjórnin ákveðið að hækka atvinnuleysisbætur og hámarksgreiðslur úr ábyrgðarsjóði launa, en atvinnuleysisbætur hækkuðu úr 227 í 270 þúsund krónur þann 1. maí 2018 og hámarksgreiðslur úr ábyrgðarsjóði hækkuðu úr 385 í 633 þúsund krónur frá 1. júlí 2018.
Settur var á fót hópur sem var ætlað að fara yfir áhættu af kerfislega mikilvægum fyrirtækjum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, forsætisráðuneytið, fjármála- og  efnahagsráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áttu fulltrúa í þeim hópi.
Hópurinn fór þegar að skoða umhverfi flugrekstrar og samfarandi áhættu. Meðal þess  sem hópurinn vann að var gerð viðbúnaðaráætlunar ef illa færi fyrir íslenskum  flugrekanda. Hún var útbúin á haustmánuðum 2018 og var stuðst við hana í mars 2019 þegar WOW varð gjaldþrota.
Settur var á fót viðbúnaðarhópur stjórnvalda. Sæti í honum áttu fulltrúar frá samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Auk þess komu að vinnunni upplýsingafulltrúar ráðuneyta og ríkisstjórnar sem og aðstoðarmenn ráðherra. Viðbúnaðarhópur stjórnvalda var virkjaður aðfararnótt 28. mars sl.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lagði fram minnisblað í ríkisstjórn 29. mars sl. þar sem farið var yfir rekstrarstöðvun WOW og aðgerðir viðbúnaðarhópsins í kjölfarið. Verkefni hópsins var að tryggja rétta upplýsingagjöf, afla upplýsinga um fjölda strandaglópa og meta þörf á viðbúnaði og aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Samgöngustofa hafði ábyrgð á að upplýsa erlend yfirvöld, stofnanir og flugvelli. Var upplýsingagjöf samræmd á vefsíðu Samgöngustofu þ.m.t. upplýsingar um flugfélög sem buðu björgunarfargjöld. Vel var fylgst með brotflutningi farþega af landinu og fór fram stöðugt mat á því hvort nauðsynlegt væri að bjóða upp á leiguflug frá landinu. Að endingu varð niðurstaða sú að bjóða ekki upp á slíkt. Í ljós kom að flestir farþegar WOW höfðu möguleika á að fljúga til síns heima með reglubundnu flugi annarra félaga frá landinu.
Eftirlit með rekstri WOW var í höndum Samgöngustofu. Eftirlitið frá haustmánuðum og þar til WOW fór í þrot var nánast daglegt. Fundir fulltrúa Samgöngustofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hafa frá þeim tíma einnig verið reglulegir, a.m.k. vikulegir. Eftirlitið laut fyrst og fremst að því hvort öryggiskröfum og fjárhagskröfum væri fullnægt.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, lagði fram minnisblað um stöðu mála á ríkisstjórnarfundi föstudaginn 29. mars sl. og í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að veita Vinnumálastofnun tímabundið 80 milljón króna framlag til að tryggja stofnuninni svigrúm til að takast á við verkefnið sem blasir við.
Félags- og barnamálaráðherra fundaði sömuleiðis með fulltrúum sveitarfélaga á Suðurnesjum, þ.m.t. fulltrúum félagsþjónustu sveitarfélaganna, sem og fulltrúum stéttarfélaga á svæðinu og Vinnumálastofnun á föstudaginn 29. mars sl. Tilefni fundarins var annars vegar að upplýsa framangreinda aðila um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að grípa til í því skyni að styrkja starfsemi Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum og hins vegar að fá upplýsingar um hvernig sveitarfélögin á svæðinu sjá fyrir sér þann vanda sem við blasir í ljósi þess að flugfélagið WOW air hf. hefur hætt starfsemi. Ráðherrann hefur fylgst grannt með starfi Vinnumálastofnunar og gerir það áfram með reglubundinni upplýsingagjöf til ríkisstjórnarinnar.
Auk þess að styrkja starfsemi Vinnumálastofnunar Suðurnesja fær Heilbrigðisstofnun Suðurnesja aukna fjármuni til að efla ýmsa þætti í þjónustu sinni og laga hana að breyttum þörfum og aðstæðum íbúa vegna stóraukins atvinnuleysis á svæðinu. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu
Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, þessa efnis á fundi sínum 2. apríl sl.
Þar sem gera má ráð fyrir að aukið atvinnuleysi á Suðurnesjum hafi í för með sér aukna þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á svæðinu óskaði heilbrigðisráðuneytið eftir ráðgjöf Embættis landlæknis og áliti stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á því hvaða þætti heilbrigðisþjónustu á svæðinu væri mikilvægast að efla. Á grunni þess lagði heilbrigðisráðherra tillögu fyrir ríkisstjórnina sem kveða á um aukna fjármuni til að efla þá þjónustuþætti sem stofnunin telur mikilvægasta.
Samkvæmt áherslum stofnunarinnar verður geð- og sálfélagsleg þjónusta efld með bættri mönnun og sömuleiðis skólaheilsugæslan og þjónusta mæðra- og ungbarnaverndar. Búist er við auknu álagi á slysa- og bráðadeild þar sem þegar er skortur á læknum og hjúkrunarfræðingum og verður auknum fjármunum varið til að bregðast við því. Einnig verður áhersla lögð á að auka samstarf við félagsþjónustu sveitarfélaga á svæðinu, Vinnumálastofnun og VIRK vegna starfsendurhæfingar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur hvatt þá námsmenn sem misst hafa vinnuna í kjölfar gjaldþrots vinnuveitenda til að leita til náms- og starfsráðgjafa Vinnumálastofnunar og fá nánari upplýsingar um réttindi sín og stöðu. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur framlengt umsóknarfrest sjóðsins vegna yfirstandandi vorannar til 30. apríl nk. Upplýsingar um framfærslu sjóðsins er að finna á heimasíðu hans. Vakin er athygli á því að nýverið hækkaði frítekjumark námsmanna umtalsvert og fyrir skólaárið 2019/2020 nemur það 1.330.000 kr.
Fram kemur í tilkynningu á vef Vinnumálastofnunar að námsmenn eigi rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa, bæði vegna vangoldinna launa og launa sem greidd eru vegna uppsagnafrests. Námsþátttaka hefur því ekki áhrif á endanlegt uppgjör á launakröfum hjá Ábyrgðasjóðinum. Þar er einnig bent á að nemendur í fullu námi geti sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar önn þeirra lýkur í vor. Annars er atvinnuleitendum heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ETCS-einingum á önn án skerðingar á slíkum bótum.
Menntaframboð á Suðurnesjum er fjölbreytt og nú er unnið að því á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins að meta þá möguleika sem eru þegar fyrir hendi til að koma til móts við þarfir samfélagsins og þeirra einstaklinga sem misst hafa vinnuna. Unnið er að bráðaaðgerðum sem gripið verður til sem fyrst, m.a. með bættu aðgengi að náms- og starfsráðgjöf, sem og langtímaaðgerðum. Mikilvægt er að þær byggi á greiningu á þeim hópum sem mest hafa þörf fyrir liðsinni á þessum tímapunkti. Unnið er að þessu verkefni í nánu samstarfi við sveitarfélögin, fræðsluaðila og menntastofnanir á Suðurnesjum.
Aðgerðahópur mun hafa yfirumsjón með viðbrögðum. Hlutverk hans verður m.a. að vinna áætlun í samstarfi við heimamenn og vakta og greina þær upplýsingar sem berast um þróun mála – með sérstakri áherslu á þá hópa/fjölskyldur sem verst standa. Nú þegar hefur verið tryggt fjármagn til að hefja kennslu nýrrar námsleiðar til stúdentspróf í tölvuleikjagerð við Keili næsta haust. Þá verður ráðist í viðbyggingu við Fjölbrautarskóla Suðurnesja til þess að bæta aðstöðu nemenda.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur átt fjölmarga fundi með haghöfum. Ráðherra fundaði með fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar sama dag og WOW fór í þrot. Þá fundaði ráðherra einnig með stjórnarformanni ISAVIA og óskaði eftir greiningu á möguleikum til að auka flugframboð. Samráðshópur fulltrúa ANR, Ferðamálastofu, UTN, Íslandsstofu, Höfuðborgarstofu, SAF og markaðsstofanna hittist við upphaf og lok dags og fóru yfir stöðuna sem upp var komin.
Ráðherra lagði fram minnisblað í ríkisstjórn daginn eftir þrot WOW þar sem farið var yfir hvað kom fram á fundum hennar og fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnarformanni Isavia. Ráðherra óskaði eftir við stjórnarformann Isavia að fyrirtækið myndi greina möguleika til að auka flugframboð.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði fram minnisblað í ríkisstjórn þar sem farið var yfir stöðu mála í kjölfar rekstrarstöðu WOW varðandi fjölmiðlaumfjöllun erlendis, stöðu flugframboðs og verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Reykjanesi. Icelandic Startups og Íslenski ferðaklasinn hafa lýst yfir áhuga á verkefni til að virkja hugvit í ferðaþjónustu. Þá hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra einnig fundað með framkvæmdastjóra Íslandsstofu.
Ráðherra fundaði með atvinnuveganefnd Alþingis 4. apríl sl. þar sem hún fór m.a. yfir stöðuna eftir fall WOW, viðbragðshóp stjórnvalda sem fylgdist með heimferð strandaglópa, áhuga ferðamanna á Íslandi og aðgerðir til að auka sætaframboð til landsins.“ Segir á vef Stjórnarráðsins.
https://www.fti.is/2019/03/30/sigmundur-david-undrast-adgerdarleysi-rikisstjornarinnar-vegna-wow-air/
https://www.fti.is/2019/04/02/ut-af-hverju-var-1100-manns-ekki-hjalpad/