Flokkur fólksins ásamt Miðflokknum hafa haldið fram kröftugum mótmælum varðandi innleiðingu Orkupakka 3. Vonast hefur verið til að örugg skoðunarkönnun verði gerð um afstöðu þjóðarinnar en sagt hefur verið að 80% þjóðarinnar sé á móti Orkupakka 3 og að málið sé allt of stórt til þess að treysta 63 þingmönnum til þess að fara með málið, þar sem að um 80% þjóðarinnar treystir ekki Alþingi. Þá hafa verið mynduð samtök með þúsundum meðlima sem að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og fara fram á að forseti Íslands neiti undirritun.
Þá hefur verið bent á það að fyrirvarar sem að Alþingi setur gagnvart ESB halda ekki vatni og er þar nýjasta dæmið innflutningur á hráu kjöti. Þar hafa fyrirvarar Íslands ekkert að segja. Þá hefur það verið nefnt að hreinlegast sé bara að ganga í ESB og vera ekki með hálfkák.
Þá fengi ESB líka yfirráð yfir fiskimiðunum og öðrum auðlindum landsins og það væri kannski þjóðhagslega hagkvæmara, ef að breytingar verða gerðar á mjög svo umdeildu og gölluðu fiskveiðistjórnunarkerfi skv. gagnrýni sérfræðinga og það er e.t.v. næst á dagskránni m.v. áherslurnar í dag í orkumálum.
Sérfræðingur í fiskveiðum bendir á að það sé örugglega betra fyrir þjóðina að markaðsvæða kvótann og gefa ESB ríkjum kost á að bjóða í leigu á fiskveiðikvóta þjóðarinnar á frjálsum markaði því að þjóðin fengi örugglega hagstæðara verð fyrir auðlind sína en í dag og að almenningur mundi þá losna úr ánauð örmyntar og okurs á öllum sviðum í leiðinni. Þá mundi landið fyrst opnast fyrir frjálsum viðskiptum.
Umhverfisflokkurinn svokallaði, VG gengur jafn hart fram og Sjálfstæðisflokkurinn um að Orkupakki 3 verði samþykktur en var harðlega á móti Orkupökkum nr.1 og nr.2 en það var áður en flokkurinn fékk stólana í ríkisstjórninni núverandi.
Flokkur fólksins birtir álit sitt á málinu á heimasíðu sinni og svo er ræða Ingu Sæland einnig hér að neðan á myndbandi.
,,Ríkisstjórnin ákvað í lok síðustu viku að leggja fram þingsályktunartillögu um að Alþingi samþykkti innleiðingu á þriðja orkupakka ESB. Stjórnarflokkarnir þrír ætla í krafti meirihluta á þingi að samþykkja að Ísland verði eins og kostur er hluti af sameiginlegum orkumarkaði Evrópusambandsins.
Hér gildir engu þó núverandi stjórn sverji og sárt við leggi að ekki standi til að leggja sæstreng fyrir raforku til Evrópu. Slíkt er marklaust hjal. Núverandi stjórnarflokkar hafa ekkert um það að segja hvað meirihluta Alþingis gæti dottið í hug að samþykkja í framtíðinni. Að innleiða þriðja orkupakkann er að bjóða heim óþarfa hættu á rafstreng til Evrópu.
Ísland er eyja. Okkur varðar ekkert um orkumál annars staðar í Evrópu. Orkan hér er okkar eign. Við eigum að nýta hana með sem ódýrustum hætti til að bæta og halda uppi góðum lífskjörum hér á landi á okkar eigin forsendum og undir okkar eigin sjálfræði og fullveldi. Utanaðkomandi eiga aldrei að fá hlutdeild í henni. Flokkur fólksins hafnar aðild Íslands að þriðja orkupakkanum og mun berjast gegn henni með ráðum og dáð.
Eitt vil ég gagnrýna hér. Það er hve seint ríkisstjórnin kemur með þetta mál inn í þingið. Hvers vegna lagði hún það ekki fram fyrir áramót eða í þingbyrjun sl. haust svo tryggja mætti vandaða þinglega meðferð?
Utanríkisráðherra á sér engar málsbætur með tal um að stjórnin hafi þurft svo mikinn tíma til að aðgæta hvort leggja ætti málið fram, því leita þurfti álits lögspekinga. Í mörg undanfarin misseri hafar ráðamenn vitað að sú stund væri að renna upp að Íslendingar yrðu að taka afstöðu til þriðja orkupakkans. Norska Stórþingið samþykkti þetta fyrir ári síðan að undangengnum mjög hörðum deilum í Noregi sem enn sér ekki fyrir endann á. Þá sást hvert stefndi og við höfum beðið þess hvað ríkisstjórn Íslands ætlaði að gera í málinu.
Vondur bragur er á því þegar ríkisstjórn kemur með jafn risavaxið og umdeilt mál inn í þingið til samþykktar þegar einungis örfáar vikur eru eftir af starfstíma þess. Slíkt vekur grunsemdir um að ríkisstjórnarflokkarnir séu með slæma samvisku út af þessu máli. Það á koma aftan að okkur. Keyra málið í gegn undir tímapressu, svo umræðan verði sem minnst og andstæðingum þriðja orkupakkans gefist sem minnst ráðrúm til andmæla. Ég minni á að það ríkir lítið traust til þingsins. Minna en helmingur kjósenda styðja ríkisstjórnina. Svona vinnubrögð eru ekki til þess fallin að auka þetta traust, né draga úr tortryggni almennings í garð löggjafavaldsins og kjörinna fulltrúa.
Kjósi meirihluti þingsins að innleiða þriðja orkupakkann hlýtur krafa að koma fram um að forseti Íslands vísi málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þjóðin sem á að eiga lokaorðið.“
https://www.facebook.com/FlokkurFolksinsXF/videos/2382867601999707/