Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður Landsvirkjunar og fyrrverandi stjórnarformaður Kjararáðs, skipaður af Sjálfstæðisflokknum. Sagði m.a. á fundi Landsvirkjunnar á dögunum: ,,Hin nýju lög, sem byggðu á raforkulöggjöf Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, hafa falið í sér grundvallarbreytingu fyrir íslenska orkumarkaði og stuðlað að heilbrigðara viðskiptaumhverfi, þar sem komið hefði verið á samkeppni í vinnslu, heildsölu og smásölu“
Í gær birtum við grein tengda orkumálum undir fyrirsögninni: ORKAN Á EKKI AÐ VERA AUÐLIND Í ÞJÓÐAREIGN SEGIR RÁÐHERRA. HA?
Ársfundur Landsvirkjunar 2019 – Í landi endurnýjanlegrar orku – haldinn í Silfurbergi í Hörpu
,,Þórdís fjallaði um eignarrétt á orkuauðlindinni og sagði það misskilning að vatnsafl og jarðvarmi væru þjóðareign, líkt og fiskurinn í sjónum. Vatnsafl og jarðvarmi tilheyrðu eignarrétti á landi, eins og laxveiðiréttindi tilheyrðu jörðum.“
Sparnaður með samkeppni
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins, vék að samkeppni á orkumarkaði. Hún sagði að í því frjálsa markaðsumhverfi sem hér hefði ríkt á síðustu árum hefðu fyrirtæki nýtt sér frelsi til að kaupa rafmagn af hverjum sem þau kjósa og þannig sparað sér talsvert fé. Einstaklingar hefðu hins vegar síður nýtt sér þetta, en þó megi færa rök fyrir því að möguleikinn á því stuðlaði að lægra verði en ella.
Þá greindi Þórdís frá því að ríkisstjórnin hefði fyrir nokkrum vikum samþykkt að teknar yrðu upp viðræður um kaup ríkisins á eignarhlutum núverandi eiganda Landsnets, en Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða.
Þórdís fjallaði um eignarrétt á orkuauðlindinni og sagði það misskilning að vatnsafl og jarðvarmi væru þjóðareign, líkt og fiskurinn í sjónum. Vatnsafl og jarðvarmi tilheyrðu eignarrétti á landi, eins og laxveiðiréttindi tilheyrðu jörðum.
Hægt að koma í veg fyrir sóun
Þórdís líkti þeirri sóun sem hún sagði felast í einangrun orkukerfisins, sem fæli í sér að tvær teravattstundir færu til spillis á ári hverju, við brottkast í sjávarútvegi. Miðað við að þrjú þúsund krónur fengjust fyrir hverja megavattstund á markaði næmi þessi sóun um sex milljörðum króna í meðalári. Tvær leiðir væru helstar til að koma í veg fyrir þetta; með því að leggja sæstreng eða fá sveigjanlegan viðskiptavin, sem væri tilbúinn að slaka á notkun sinni í slæmum vatnsárum.
Þá vék Þórdís að þeim möguleikum sem skapast hefðu í vindorku á Íslandi. Hún sagði að áhugi á því að reisa vindorkuver á Íslandi hefði farið ört vaxandi undanfarin ár, tæknin væri orðin hagkvæmari en áður, en ókostur væri hve regluverkið um vindorku væri óljóst og háð óvissu. Þessari óvissu yrði að eyða.
Farsælar breytingar
Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður fór yfir sterka stöðu fyrirtækisins, sem hefði „gert því góða fólki sem starfar hjá fyrirtækinu kleift að huga að mikilvægum málum. Áhersla er ekki síst lögð á ábyrgan rekstur, sjálfbæra þróun og jafnréttismál. Í þeim efnum er Landsvirkjun í stöðu til að láta gott af sér leiða og hjálpa til við að draga vagninn þegar kemur að þjóðþrifamálum. Orkuvinnsla úr endurnýjanlegum orkugjöfum er ef til vill mikilvægasta samfélagsmál alls mannkyns nú um stundir. Erindi Landsvirkjunar við almenning er því margþætt og mikilvægt, hvar og hvernig sem á er litið.“
Jónas rakti hvernig ný raforkulög frá 2005 hefðu reynst farsæl fyrir fyrirtækið. Hin nýju lög, sem byggðu á raforkulöggjöf Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, hefðu falið í sér grundvallarbreytingu fyrir íslenska orkumarkaði og stuðlað að heilbrigðara viðskiptaumhverfi, þar sem komið hefði verið á samkeppni í vinnslu, heildsölu og smásölu. Tilgangurinn hefði m.a. verið að virkja krafta samkeppninnar, neytendum til hagsbóta.
Orkuöryggi mikilvægt
Jónas vék að mótun orkustefnu fyrir Ísland, sem nú er unnið að. Hann sagði að eitt mikilvægasta atriðið við ákvörðun orkustefnu hlyti að lúta að orkuöryggi þjóðarinnar og framboði á orku. Fyrirtækið hefði áður bent á að eftir að fyrrnefnd raforkulög tóku gildi hefði enginn einn aðili borið ábyrgð á að aukinni orkuþörf væri mætt með aukinni orkuöflun. Þá væri að sjálfsögðu nauðsynlegt að stefnan tæki mið af þeim aðstæðum sem nú væru uppi í orkumálum heimsins, en orkuvinnsla þyrfti að standast kröfur sjálfbærrar þróunar og baráttunnar við loftslagsbreytingar.
Jónas vitnaði í Jóhannes Nordal, sem starfaði sem stjórnarformaður félagsins í 30 ár, frá stofnun þess til 1995. Jóhannes horfði í erindi árið 1965 til reynslu Norðmanna, sem höfðu verið í svipuðum sporum og Íslendingar 40 árum áður og byrjað þá að beisla sín stórfljót, með þeim afrakstri að þeir ættu fullafskrifuð orkuver og stétt sérfræðinga og vísindamanna í orkuvinnslu.
„Jóhannes horfði þarna til reynslu Norðmanna, sem höfðu verið í svipuðum sporum og við fjörutíu árum áður. Að vissu leyti má segja að sú sé ennþá raunin – að ekki sé síður ástæða til að horfa til reynslu frænda okkar síðustu ár og áratugi. Þeir hafa áttað sig á kostum þess að tengja raforkukerfið við fleiri markaði með því meðal annars að leggja lengsta sæstreng í heimi, NorNed-strenginn, til Hollands, auk þess að vera tengdir með Skagerrak-strengnum til Danmerkur. Til viðbótar er unnið að lagningu þriggja sæstrengja – tveggja til Bretlands og eins til Þýskalands. Með þessum framkvæmdum hafa þeir tryggt orkuöryggi á heimaslóðum, hámarkað afrakstur og nýtingu endurnýjanlegra auðlinda sinna og síðast en ekki síst lagt sitt af mörkum í loftslagsmálum og orkuskiptum.“ sagði Jónas.
„Lítill fiskur í stórri tjörn“
Að lokum vék Jónas að fyrirhuguðum þjóðarsjóði. „Eins og kunnugt er nú í burðarliðnum þjóðarsjóður sem á að byggja á arðgreiðslum frá Landsvirkjun, sem fyrirsjáanlegt er að muni aukast í framtíðinni með bættri stöðu fyrirtækisins. Þessi arður getur orðið töluverður, í þjóðhagslegu samhengi. Því má segja að starfsemi og afkoma Landsvirkjunar sé mikilvæg sem aldrei fyrr fyrir íslensku þjóðina og framtíð hennar. Það er þess vegna áríðandi að fyrirtækinu verði búið stöðugt umhverfi og aðstæður sem gera því kleift að hámarka afraksturinn af auðlindinni,“ sagði hann.
„Eins og fyrr var getið er Landsvirkjun lítill fiskur í stórri tjörn, ef svo má að orði komast, í samningaviðræðum við stórfyrirtæki á alþjóðlegum raforkumarkaði. Því ber að gjalda varhug við öllum tillögum sem miða að því að veikja fyrirtækið á þeim markaði. Verði rétt á málum haldið getur Landsvirkjun orðið enn styrkari stoð í efnahagslífi Íslendinga næstu ár og áratugi og á sama tíma stuðlað að því að Íslendingar leggi sitt af mörkum til orkuskipta í heiminum,“ sagði Jónas Þór að lokum.
Uppbygging í sátt við samfélagið
Hörður Arnarson forstjóri kynnti starfsemi og afkomu fyrirtækisins á síðasta ári, en átjánda aflstöð þess, Búrfellsstöð II, var tekin í rekstur, undirliggjandi hagnaður var í hámarki, sala til gagnavera og kísiliðnaðar jókst og félagið lagði áherslu á jafnréttismál í starfsemi sinni.
Þá fór Hörður yfir vegferð félagsins á síðustu árum, eða allt frá því að ný raforkulög tóku gildi árið 2005. Hörður sagði að lögin hefðu haft jákvæð áhrif á þróun raforkumála á Íslandi, með skýrri umgjörð um þróun flutnings- og dreifikerfis, samkeppni í orkusölu og nýju viðskiptalegu umhverfi fyrir samninga við stórnotendur rafmagns, sem heyrðu nú undir samkeppnislög og ríkisstyrkjareglur.
Hörður rakti uppbyggingu síðustu ára, en síðan 2014 hefur fyrirtækið reist þrjár aflstöðvar fyrir 90 milljarða króna og nam kostnaðarverð orkunnar frá þessum virkjunum um 30-40 Bandaríkjadollurum á megavattstund. Að mati Harðar fór þessi uppbygging fram í ágætri sátt við samfélagið, nær og fjær.
Tæpur helmingur aukningar til gagnavera og kísilmálmverksmiðja
Samanlögð aukin orkusala vegna þessara nýju stöðva nemur um 1,6 teravattstundum á ári og að sögn Harðar fer tæpur helmingur hennar til gagnavera og kísilmálmiðnaðar, enda hefur viðskiptavinahópur fyrirtækisins í hópi stórnotenda farið breikkandi og hefur þeim fjölgað úr fjórum árið 2008 í tíu árið 2018.
Hörður fjallaði um þróun raforkuverðs heimilanna að undanförnu, en heildsöluverð frá Landsvirkjun hefur í stórum dráttum fylgt verðlagi undanfarin ár og hlutdeild þess í raforkureikningi heimilanna hefur á síðustu árum farið úr 31% í 23%. Ef horft er til tekna af sölu á heildsölumarkaði er hlutdeild fyrirtækisins einungis 12%. Landsvirkjun hefur því lítil áhrif á það hvernig raforkuverð til heimila þróast.
Breytt verð með nýjum samningum og endursamningum
Hörður fór einnig yfir þróun raforkuverðs til stórnotenda, en síðan fyrirtækið tók upp þá stefnu, í kjölfar setningar nýrra raforkulaga, að bjóða verð sem væri sambærilegt verði í öðrum löndum með sambærilegt orkukerfi, hafa verið gerðir nýir rafmagnssamningar og verið endursamið við eldri viðskiptavini. „Eldra“ verðið, sem samið var um fyrir setningu raforkulaganna, var í kringum 15-25 dollarar á megavattstund, en „nýja“ verðið er um 30-45 dollarar. Á þessu ári, þegar nýir samningar við Norðurál og Elkem taka gildi, verða 60% af raforkumagni til stórnotenda komin á þetta „nýja“ verð.
Hörður sagði að Landsvirkjun tæki ábyrgð sína alvarlega, þegar fyrirtækið færi með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í samningaviðræðum við öflug alþjóðleg stórfyrirtæki, með starfsemi víða um heim. Hlutverk fyrirtækisins væri að tryggja að Íslendingar fengju eðlilegan hlut af arði orkuauðlindarinnar.
Loftslagsmál eru orkumál
„Loftslagsmál væru orkumál,“ sagði Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri í erindi sínu. Hún sagði að orkutengd losun væri 65% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, þar af væri losun vegna raforkuvinnslu 26%. Því lægi í augum uppi að baráttan gegn loftslagsbreytingum hlyti að hverfast um raforkuvinnslu í heiminum og orkuskipti: skipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa.
Ragna fjallaði um þá almennu aðdáun, sem hún sagðist verða áskynja hjá útlendingum gagnvart stöðu og sögu Íslendinga í orkumálum. Hér hefðu átt sér stað skipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í 100% endurnýjanlega orkuvinnslu, sem væri það sem erlendar þjóðir sæju í hillingum, enda væri viðfangsefni heimsbyggðarinnar að spyrna við fótum og reyna eftir megni að hægja á eða stöðva þær loftslagsbreytingar sem ógnuðu framtíð mannkyns.
Blendnar tilfinningar til auðlindanna
Við sjálf hefðum hins vegar ekki alveg sömu sýn á stöðu mála hér á landi. Í orði kveðnu hefðum við Íslendingar jú áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga í heiminum, en tilfinningar okkar til þeirra einstöku endurnýjanlegu náttúruauðlinda sem við hefðum aðgang að væru blendnar. Við hefðum tilhneigingu til að finnast alþjóðlegar aðgerðir í loftslagsmálum óþarfa fyrirhöfn og stundum væri eins og við teldum alþjóðlega þróun í sjálfbærri orku ekki koma okkur við.
Mikil tækifæri í vindorku
Að mati Rögnu stöndum við frammi fyrir miklum tækifærum í aukinni sjálfbærri nýtingu orkuauðlindanna, þannig að hún hagnist samfélaginu öllu. Nefndi hún sérstaklega vindorku sem sífellt hagkvæmari, afturkræfan virkjunarkost og spurði: „Ef við veljum að gera ekki neitt, eigum við þá ekki að spyrja okkur: Af hverju?“.
Björk Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri á þróunarsviði, fjallaði um nýjar áherslur og stefnumið fyrirtækisins í landslags- og útlitshönnun mannvirkja, í samræmi við áherslu þess á að stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins og á að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála.
Björk sagði að sömu þættir í íslensku landslagi og gerðu það heillandi væru þeir sem gerðu hönnun í orkuverkefnum krefjandi. Landslag virkjunarverkefna væri að mestu á hálendinu, á svæðum með lággróðri og litlu skólendi. Oft væri það nærri jöklum, ungu hrauni, sandmelum, fjöllum og ám. Stóra spurningin væri hvort reyna ætti að fela mannvirki eða hvort orkuvinnsla mætti vera sýnileg.
Ný verkefni í anda nýrrar áherslu á landslag og ásýnd
Að sögn Bjarkar hefur staðið yfir vinna hjá Landsvirkjun um nokkurra ára skeið, sem miðaði að því að finna aukið jafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar við landslag og náttúrulegs umhverfis. Þetta væri framtíðarsýn, sem fyrirtækið hefði fikrað sig nær við hönnun Þeistareykjastöðvar, Búrfellsstöðvar II og tilheyrandi mannvirkja. „Sem starfandi landslagsarkitekt hjá fyrirtækinu er ég stolt að segja frá því að nokkur af nýjustu virkjanaverkefnunum, sem enn eru reyndar á teikniborðinu, hafa verið unnin að meirihluta eða heild í anda þessarar sýnar,“ sagði Björk.
Vindorka orðin samkeppnishæf
Næstur tók til máls Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnisstjóri á þróunarsviði. Stefán kynnti nýja endurhönnun vindmyllugarðs fyrir ofan Búrfell, Búrfellslundar, en þar hefur verið tekið tillit til athugasemda úr nærsamfélagi og mati á umhverfisáhrifum.
Stefán fagnaði því að loksins væri hægt að vinna verðmæti úr íslenska rokinu. Á síðustu tíu árum hefði kostnaður vindorku í heiminum lækkað um meira en helming, sem þýddi að hún væri orði samkeppnishæf við aðra orkukosti á Íslandi. Fyrirtæki um allan heim hefðu að undanförnu valið vindorku til að knýja starfsemi sína; fyrirtækið á borð við Lego, IKEA, Microsoft, Amazon, Google og Facebook. Þetta sýndi að tækifærin væru yfrin í beislun vindorku á Íslandi.
Vindorkuverkefni eru afturkræf
Sérstaða vindorku, að mati Stefáns, felst að miklu leyti í því að áhrif hennar á landslag eru afturkræf. Vindmyllugarðar hafi 25-30 ára líftíma, en að honum loknum væri hægt að fjarlægja vindmyllur, ef vilji væri til. Nýting vindorku byndi því ekki hendur framtíðarkynslóða, þegar kæmi að nýtingu á landsvæðum.
Búrfellslundur yrði á Þjórsár-Tungnaársvæðinu, stærsta starfssvæði Landsvirkjunar, en þar eru sjö vatnsaflsstöðvar. Verkefnið myndi nýta alla innviði á svæðinu og ekki yrði þörf á því að leggja nýja háspennulínu fyrir verkefnið.
Tekið tillit til ábendinga um ásýnd
Ný og endurunnin tillaga að Búrfellslundi tekur mið af ábendingum úr mati á umhverfisáhrifum og nærsamfélaginu vegna ásýndaráhrifa, en með eldri tillögu hefði hann haft áhrif á ásýnd á nokkrum ferðamannastöðum og útsýni að Heklu frá Landvegi og öðrum vegum í nágrenninu.
Ný tillaga færir Búrfellslund norður fyrir veg, þar sem hann hefur ekki áhrif á ásýnd að Heklu, auk þess sem flatarmál hans minnkar um tæp 40%, án þess að það hafi áhrif á hagkvæmni verkefnisins. Þessi breyting er afrakstur viðamikillar landslags- og ásýndargreiningar, þar sem vindmyllur voru settar á ljósmyndir sem teknar voru frá þeim ferðamannastöðum sem ábendingar snerust um. „Þetta er fyrsta vindorkuverkefnið sem við höfum þróað og lærdómurinn hefur verið mikill, en við erum ánægð með þær breytingar sem við höfum gert, þar sem landslag og ásýnd skipta miklu máli við hönnun vindmyllugarða,“ sagði Stefán Kári.
Hönnun Hvammsvirkjunar í takti við ný viðmið um ásýnd
Ólöf Rós Káradóttir, verkefnisstjóri á þróunarsviði, greindi frá nýrri ásýnd Hvammsvirkjunar, sem er í nýtingarflokki rammaáætlunar í neðri Þjórsá. Hún greindi frá því að þau nýju ásýndarviðmið fyrirtækisins, sem Björk minntist á hér að ofan, hefðu haft mikil áhrif á hönnun mannvirkja og landmótun í verkefninu.
Ólöf Rós sagði að hönnuðum hefðu verið gefnar frjálsari hendur en áður hefði tíðkast í útlitshönnun. Hún sýndi myndir af afrakstrinum, en sem dæmi má nefna að í stöðvarhúsið eru notuð lifandi efni: steypu með mosa og ryðgað stál sem vísar í mýrarrauða í náttúrunni. Þessi efni breyta um útlit eftir veðri, aldri og árstíma. Steyptur veggur stöðvarhússins vísar í klettavegg sem liðast í landslaginu og færir útliti hússins líf. Stíflan er í sama anda: klædd með gróðri, til að auka samspil landslagsarkitektúrs og arkitektúrs bygginga.
Framfaraskref í arkitektúr aflstöðva
Að sögn Ólafar skipti miklu máli við endurskoðun hönnunarinnar að gerðar voru margar litlar breytingar, sem skiptu höfuðmáli útlitslega, en höfðu hverfandi kostnað í för með sér, enda væri hagkvæmnin í fyrirrúmi hjá fyrirtækinu sem fyrr. Hún sagði að svæðið yrði opið fyrir gesti, sem gætu upplifað virkjunina með því að ganga um svæðið og skoða mannvirki. Hvammsvirkjun hefði að hennar mati alla möguleika á að verða vinsæll áfangastaður, enda aðgengilegur fyrir þá sem vildu kynna sér 100% hreina orkuvinnslu úr vatnsafli. Ólöf Rós sagði fyrirtækið vera afar stolt af verkefninu; hér væri um mikið framfaraskref að ræða í útlitshönnun á framtíðarvirkjunarkosti.
Meiri tekjur og hagnaður en nokkru sinni fyrr
Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kynnti fjárhagsstöðu félagsins og afkomu þess á árinu 2018. Í máli hans kom fram að tekjur voru meiri en nokkru sinni fyrr, eða 534 milljónir Bandaríkjadollara. Munaði þar mestu um aukna sölu og orkuvinnslu, m.a. vegna tilkomu nýrra aflstöðva að Þeistareykjum og við Búrfell, auk hækkandi verðtenginga.
Rafnar greindi frá því að hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hefði sömuleiðis aldrei verið meiri, eða 184 milljónir dollara, borið saman við 153 á árinu 2017. Þetta væri afrakstur skilvirkari rekstrar. Nettó skuldir hefðu lækkað um 8% og eigið fé væri nú meira en áður í sögu fyrirtækisins, eða 2.163 milljónir dollara.
Rafnar rakti hvernig eiginfjárhlutfall – hlutfall eigin fjár af heildarfjármagni fyrirtækisins – hefði þróast í sögulegu samhengi, en það er nú 48,6%, miðað við 32,5% árið 2010. Það var síðast á sömu slóðum og að undanförnu við stofnun fyrirtækisins fyrir rúmlega 50 árum, eða rúmlega 42% árið 1966. Árið 2018 náðist það takmark í rekstri félagsins að hlutfall nettó skulda af EBITDA-rekstrarhagnaði fór í fyrsta skipti niður fyrir 5, eða í 4,8.
Bætt lánshæfismat
Þessi bætta staða Landsvirkjunar hefur skilað sér í betra lánshæfismati frá alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum, sem skiptir höfuðmáli fyrir fjármagnskostnað og framtíðarrekstur fyrirtækisins. Landsvirkjun er nú komin í fjárfestingarflokk og nálgast nú sambærileg orkufyrirtæki á Norðurlöndum, eftir að hafa verið í svokölluðum spákaupmennskuflokki árið 2013.
Rafnar sagði að fjármál fyrirtækisins væru á tímamótum. Í ljósi bættrar stöðu væri komið að því að beina mætti sjóðstreymi í auknum mæli til arðgreiðslna til eiganda þess, íslensku þjóðarinnar.
Aukið verðmæti endurnýjanlegrar orku
Erindi Stefaníu G. Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs, bar yfirskriftina Endurnýjanleg orka er verðmætari. Hún byrjaði á því að rekja hvernig tæplega helmingur söluaukningar fyrirtækisins frá 2013 hefði farið til nýrra tegunda viðskiptavina: gagnavera og kísilmálmiðnaðar, enda hefði verið unnið að því að breikka hóp stórnotenda í hópi viðskiptavina undanfarin misseri og ár.
Þessi söluaukning, 1,6 teravattstundir, sem knúin hefur verið að mestu með nýjum aflstöðvum að Búðarhálsi, Þeistareykjum og Búrfelli, jafngildir að sögn Stefaníu aukinni orkuþörf almenns markaðar á Íslandi til 2030, samkvæmt raforkuspá Orkustofnunar miðað við „græna framtíð“, með orkuskiptum í samgöngum. „Tíu ár eru ekki langur tími. Aukningin á þessum markaði einum jafnast á við þessar aflstöðvar sem bættust við á síðustu fimm árum. Þetta er hins vegar ekki einstakt fyrir okkur á Íslandi. Þessi þróun á sér stað alls staðar í heiminum,“ sagði Stefanía.
Stefanía fór yfir þróun raforkuverðs á Norðurlöndunum síðustu ár, en verð á NordPool markaðinum, sem er leiðandi orkumarkaður í Evrópu, hefur farið hækkandi undanfarin ár. Greiningaraðilar spá því að raforkuverð á Norðurlöndum verði á bilinu 44-55 dollarar á megavattstund árið 2030.
Aukning í endurnýjanlegri orkuvinnslu óhjákvæmileg
Hún sagði að í augum uppi lægi að til þess að ná markmiðum um minni losun gróðurhúsalofttegunda þyrfti að margfalda aukningu í nýtingu endurnýjanlegrar orku í heiminum. Því hefði m.a. verið komið upp hvatakerfi á borð við græn skírteini, sem ætlað væri að ýta undir nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, m.a. í Evrópu.
„Í þessu kerfi fá framleiðendur auknar tekjur fyrir endurnýjanlega orku. Þannig er þetta hvatakerfi sem hvetur til uppbyggingar endurnýjanlegra orkugjafa, en lykillinn að því er að neytendur geta haft áhrif með sínu vali á vöru og þjónustu,“ sagði Stefanía.
Viðskipti með græn skírteini geta ekki skaðað ímynd Íslands
Um 20 lönd eru þátttakendur í markaðinum og hefur verið tilkynnt að fleiri séu í þann mund að bætast við. „Viðskipti með græn skírteini geta ekki skaðað ímynd Íslands,“ sagði Stefanía. Hún sagði að eftir sem áður væri orkuvinnsla á Íslandi úr 100% endurnýjanlegum auðlindum. Kerfið þýddi að í ofanálag fengi þjóðin aukatekjur fyrir endurnýjanlega þáttinn, sem væri enda markmið kerfisins.
Hlutfall vottaðrar endurnýjanlegrar orkuvinnslu af heildarorkuvinnslu í Evrópu hefur aukist í 12,1% árið 2017, úr 2,8% árið 2008. „Lönd sem stunda viðskipti með græn skírteini eru með hærra hlutfall af endurnýjanlegri orku en þau lönd sem ekki eru á þessum markaði,“ sagði Stefanía. „Þetta segir okkur að grænu skírteinin ná tilgangi sínum og hafa raunverulega áhrif.“
Aukin eftirspurn eftir grænum skírteinum frá fyrirtækjum á borð við Lego, Scandic, DNB og Schipol, sem sett hafa sér markmið um að nota einungis endurnýjanlega raforku, hefur orðið til þess að verð á skírteinunum hefur farið mjög hækkandi.
Stefanía sagði að í þessu ljósi væru græn skírteini mikilvæg og verðmæt fyrir íslensku þjóðina. Hér á landi geta allir sem kaupa raforku á smásölumarkaði fengið græn skírteini með kaupunum; alls eru því tvær teravattstundir úr orkuvinnslu Landsvirkjunar vottaðar með skírteinunum. Eftir standa 12 teravattstundir, sem seldar eru til stórnotenda sem ekki kaupa slík skírteini. Ef fyrirtækið seldi græn skírteini fyrir þá orku gætu tekjur af þeirri sölu numið 2-2,5 milljörðum á ári, miðað við núverandi markaðsverð.
Fjölmörgum aðilum neitað um viðræður
Að síðustu rakti Stefanía hvernig eftirspurn eftir þeirri raforku sem fyrirtækið vinnur úr endurnýjanlegum orkugjöfum hefur aukist síðustu ár. „Þetta eru góðu fréttirnar. En jafnvel þótt við höfum tekið í gagnið nýjar aflstöðvar er ljóst að þeir sem hafa áhuga á að byggja upp orkutengdan iðnað hér á landi geta ekki allir fengið orku fyrir þau verkefni. Sem dæmi má nefna að á síðustu fimm árum höfum við hitt rúmlega 5.000 aðila til að ræða Ísland sem staðsetningu fyrir orkutengd verkefni. Á síðasta ári þurftum við að neita fjölmörgum aðilum um viðræður, vegna þess að við sjáum illa fram á að geta afhent raforku á þeim tímaramma sem rætt er um. Þar að auki vilja margir núverandi viðskiptavinir gjarnan stækka við sig og auka orkukaup,“ sagði hún.
„En við munum engu að síður halda ótrauð áfram að þróa tækifæri og verkefni með nýjum og núverandi viðskiptavinum. Þessi verkefni eru grundvöllur öflugs atvinnulífs til framtíðar á Íslandi,“ sagði Stefanía að lokum.
Til máls á fundinum tóku Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður Landsvirkjunar, auk Harðar Arnarsonar forstjóra, Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra, Bjarkar Guðmundsdóttur verkefnisstjóra, Stefáns Kára Sveinbjörnssonar verkefnisstjóra, Ólafar Rósar Káradóttur verkefnisstjóra, Rafnars Lárussonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, Stefaníu G. Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs og Gerðar Bjarkar Kjærnested fundarstjóra.
Ávarp Þórdísar Kolbrúnar
Ávarp Jónasar Þórs
Kynning Harðar, Rögnu, Bjarkar, Stefáns Kára, Ólafar Rósar, Rafnars og Stefaníu
Birt fyrst í Fréttatímanum þann 5. mars 2019.