Markaðsátak stjórnvalda þarf að ná til landsins alls
Saman í sókn
Á dögunum kynntu stjórnvöld aðgerðir vegna Covid-19, meðal þeirra var markaðsátak sem kallast „Saman í sókn“ og er ætlað að kynna Ísland sem áfangastað. Það er í höndum Íslandsstofu að annast verkefnið og er ætlunin að haga hlutum þannig að hægt verði að bregðast við með hraði ef aðstæður og ferðaáhugi fólks glæðist. Það eru miklir hagsmunir í húfi nú og hefur framkvæmdastjóri Íslandsstofu nefnt í því sambandi aðgerðir sem þáverandi stjórnvöld fóru í vegna afleiðinga gossins í Eyjafjalljökli en þá lögðu þau til 350 milljónir króna til verkefnisins „Inspired by Iceland“ en núna er ætlunin að leggja fram 1.500 milljónir króna auk fjármagns og mannskapar sem Íslandsstofa leggur til.
Við verðum að vanda til verka
Á undanförnum árum hefur tekist prýðilega að markaðssetja landbyggðina sem áfangastað, það hefur aðeins tekist vegna þess að einstaklingar og fyrirtæki hafa lagt allt sitt í sölurnar og eiga þar af leiðandi allt sitt undir núna. Það er hætt við því að margir nái ekki að rétta úr kútnum nema þeir verði styrktir sérstaklega og það ber okkur að gera. Á Norðausturlandi er ferðþjónustan árstíðarbundin og á það vissulega við um fleiri landsvæði, margir hafa ýtt skuldbindingum á undan sér í vetur eins og áður nema hvað nú eru aðstæður fordæmalausar. Landsmenn munu væntanlega ferðast innanlands í sumar og vonandi hafa sem flestir tækifæri til þess, við getum sagt að það sé hluti af lausninni en engu að síður skammtímalausn. Meira þarf til, hugsa þarf til lengri tíma og þá þarf að huga að blessuðum gáttunum inn í landið, sem oft er talað um á tyllidögum og í staðbundnum hátíðarræðum. Á Norðausturlandi eru tveir millilandaflugvellir, á Akureyri og á Egilsstöðum, fjarlægðin á milli þeirra er 248km. Til samanburðar er fjarlægðin milli Akureyrar og Reykjavíkur 381km. og á milli Akureyrar og Keflavíkur eru 427km. Til Seyðisfjarðar siglir svo ferjan einu sinni í viku og ferðamönnum fer fjölgandi sem nýta sér að koma til landsins með þeim hætti.
Þá að langtímahugsuninni og markaðssókninni
Í skýrslu sem kom út fyrir stuttu og ætlað var að skýra kosti þess að auka vægi Akureyrarflugvallar sem millilandaflugvallar segir að núverndi flugstöð sé of lítil og byggja þurfi við hana, heildarkostnaður við verkið nemi um 900 m.kr. Tímalína verksins lítur þannig út samkvæmt skýrslunni, að á þessu ári verður hægt að ráðast í hönnun, færslu olíutanka og jarðvinnu, samtals 170 m.kr. Einnig segir að vegna óvissu um eiginleika byggingarsvæðisins og hugsanlegs sigtíma jarðvegsfyllingarinnar er mikilvægt að hefja jarðvinnuna sem fyrst þar sem byggingartími frá því lóðin er tilbúin er á annað ár. Í fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar eru áætlaðar 200 milljónir króna til þessa verks á þessu ári en einnig er ætlunin að leggja 350 milljónir í flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli, það fjármagn dugar engan veginn ef vel á að takast.
Lítum um öxl
Árið 2015 var settur á stofn svokallaður flugþróunarsjóður, tilkoma hans gerði það að verkum að Norðausturlandið var komið á kortið, sjóðnum var ætlað að koma á reglulegu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaða. Segja má að hann hafi sannað gagn sitt á umliðnum árum. En meira þarf til, það að ekki enn hafi tekist að fá í gegn lækkun eldsneytiskostnaðar í millilandaflugi er umhugsunarvert en fyrir þinginu er nú tillaga okkar Miðflokksmanna þess efnis flutt í þriðja sinn. Í lok árs 2018 þegar tillagan var flutt í annað sinn var því svarað að þá þegar væri stefnt að verðjöfnun flugvélaeldsneytis á millilandaflugvöllum landsins, það væri á borði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og tillagan þess vegna óþörf. Þegar þetta er skrifað er ekki enn jöfnun kostnaðar á flugvélaeldsneyti.
Saman í sókn
Markaðsátak stjórnvalda þarf að ná til landsins alls. Það er hlutverk stjórnvalda að allir sitji við sama borð, það þarf að styrkja sérstaklega þá sem hingað til hafa búið við árstíðarsveiflur, það hlýtur að vera vilji allra að ferðaþjónustan blómstri um allt land. Skammtímalausnirnar felast, m.a. í niðurfellingu gjalda, frestun dugar engan veginn. Strax er hægt að jafna kostnað eldsneytis á millilandaflugvöllum. Ef ekki er hugað til landsins alls er hætt við því að ferðamenn komist aðeins í gegnum Keflavíkurflugvöll, skoði sig um í nágrenni hans og fari á mis við allt það sem við höfum að bjóða á öðrum landsvæðum. Þess vegna verður að sjá til þess að allar gáttir verði virkar um leið og tækifæri gefast.
Anna Kolbrún Árnadóttir, Þingmaður Miðflokksins