Ríkisráð Íslands kom saman til tveggja funda á Bessastöðum í kvöld. Á fyrri fundinum endurstaðfesti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tillögur sem staðfestar höfðu verið utan ríkisráðs, þ. á m. tillögu Katrínar Jakobsdóttur um að veita ráðuneyti hennar lausn frá störfum. Á seinni fundinum féllst forseti Íslands á tillögu Bjarna Benediktssonar, alþingismanns, um skipun annars ráðuneytis hans og gaf út úrskurð um skiptingu starfa ráðherra sem er með eftirfarandi hætti:
- Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra
- Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra
- Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra
- Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
- Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra
- Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra
- Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
- Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra
- Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra
- Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra
Áframhaldandi stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs byggir á grunni sáttmála flokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 28. nóvember 2021.
Umræða