Þótt Sjálfstæðisflokkur og Samfylking berjist um hvor flokkurinn verði sá stærsti í borgarstjórn Reykjavíkur er ekki þar með sagt að sú barátta snúizt um sama kjósendahópinn. Hún snýst fremur um hvernig hvorum um sig gengur að fást við keppinauta á svipuðum slóðum og þeir sjálfir eru.
Í tilviki Sjálfstæðisflokksins er náttúrlega einhver barátta um kjósendur við Viðreisn, bæði í Reykjavík og annars staðar enda er þar hópur fyrrum sjálfstæðismanna á ferð. En spurning er, hvort frambjóðendur flokksins gæta nægilega að sér þar sem Miðflokkurinn er.
Stefnumál Miðflokksins eru á margan hátt í námunda við hefðbundin stefnumál Sjálfstæðisflokksins. Miðflokkurinn ætlar að hreinsa til í rekstri borgarinnar og þar er sterkur frambjóðandi á ferð í fyrsta sæti, sem er Vigdís Hauksdóttir, fyrrum alþingismaður en það er samhljómur á milli skoðana hennar og Sjálfstæðisflokksins í mörgum málum.
En jafnframt er ástæða til að vekja athygli á grein eftir Geir Þorsteinsson, sem skipar efsta sæti á framboðslista Miðflokksins í Kópavogi, næst stærsta sveitarfélagi landsins, í Morgunblaðinu í dag.
Hann boðar lækkun útsvars og fasteignagjalda. Og þar er á ferð sterkur frambjóðandi vegna fyrri starfa.
Sjálfstæðismenn,bæði í Reykjavík og Kópavogi ættu að gefa Miðflokknum gaum. Hann er að sigla upp að Sjálfstæðisflokknum í málefnalegri afstöðu.
Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins um stöðuna í pólitíkinni.