Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 142 þúsund í nýliðnum apríl samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Um er að ræða þriðja stærsta aprílmánuð frá því mælingar hófust en brottfarir voru um 93% af því sem þær mældust í apríl árið 2017 og 89% árið 2018. Ríflega tvær af hverjum fimm brottförum voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna og Breta.
Brottfarir Íslendinga voru um 56 þúsund eða 90% af því sem þær mældust árið 2017 þegar mest var.
Bandaríkjamenn og Bretar fjölmennastir
Flestar brottfarir í apríl voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna og Breta eða um tvær af hverjum fimm (43,2%). Bandaríkjamenn voru tæplega 38 þúsund talsins eða ríflega fjórðungur (26,6%) og Bretar um 24 þúsund eða 16,6%. Bandaríkjamenn og Bretar hafa verið stærstu þjóðernin í apríl frá árinu 2010.
Brottfarir Pólverja voru í þriðja sæti í nýliðnum apríl eða 6,4% af heild og Þjóðverjar í því fjórða (5,5%). Þar á eftir fylgdu Frakkar (4,1%), Danir (3,3%), Ítalir (3,2%), Spánverjar (2,6%), Norðmenn (2,2%) og Kanadamenn (1,9%)
Brottfarir erlendra farþega janúar-apríl
Frá áramótum hafa 176 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 30,4% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra. Um er að ræða álíka margar brottfarir og á tímabilinu janúar-apríl árið 2017, 89% af því sem þær mældust árið 2018 og 97% árið 2019.
Brottfarir Íslendinga
Brottfarir Íslendinga voru um 56 þúsund í apríl eða álíka margar og í sama mánuði og í fyrra (2022). Þegar mest var mældust brottfarir Íslendinga í aprílmánuði um 62 þúsund eða árið 2017. Frá áramótum (jan-apríl) hafa brottfarir Íslendinga mælst um 176 þúsund eða 93% af því sem þær mældust á sama tímabili árið 2018 þegar mest var.
Nánari skiptingu á milli þjóðerna má sjá undir liðnum Gögn/Fjöldi ferðamanna á vef Ferðamálastofu, www.ferdamalastofa.is
Niðurstöður um brottfarartalningar má jafnframt nálgast í Mælaborði ferðaþjónustunnar undir liðnum Farþegar.