Hér er átakanleg frásögn Sævars Kolandavelu af reynslu hans eftir alvarlegt slys, af íslensku heilbrigðiskerfi sem hann segir að sé í molum
Komið þið sæl.
Ég hef ekki fengið tækifæri til að segja söguna mína hérna inni í rituðu máli, en ég hef verið skilinn eftir til að bjarga mér sjálfum af íslensku heilbrigðiskerfi í fjögur ár.
Í raun hefur öll málsmeðferð mín verið heldur grimmileg, en líka svo skrítin, því það er í raun hverjum manni ljóst að ég sé stórslasaður bara með því að nota augun, svo enginn hefur skilið hvernig það geti skeð að heilbrigðisstarfsmenn láti ítrekað eins og það sé ekki staðan, meðan nánustu aðstandendur fylgjast með mér liggja mestmegnis dagsins, ófær um að standa til lengri tíma, sitja eða liggja á nokkurn eðlilegan hátt, og þurfa annast mína hverja þörf.
Á þessum tíma hef ég orðið fyrir barðinu í raun á hverju einasta atriði sem hefur verið talað um í þessari grúppu, hvort sem það er að vera ekki hlustað á, reynt að troða á mig geðgreiningum af ófaglærðu starfsfólki, verið logið upp á mig í sjúkraskýrslum, verið sagður í erfiðum andlegum og félagslegum aðstæðum, mér hafa verið tilkynntar niðurstöður rannsókna sem aldrei voru framkvæmdar, úthýst með lögregluvaldi ósjálfbjarga af bráðamóttöku, aðstandendur gaslýstir, vændur um allskonar hluti sem ég hef aldrei gert, læknar ekki byggt niðurstöður sínar á neinu nema giski og í raun var eins og ég væri mættur án þess að vita það á einhvern vígvöll þar sem markmið andstæðingsins væri að sigra mig með öllum tiltækum ráðum.
Ég átti mér einskis ills von þegar ég fór að leita mér hjálpar og hef ekki gert neitt nema tjá stöðu mína heiðarlega, og átti aldrei von á því að það væri að fara hefjast einhver allsherjar barátta heilbrigðiskerfisins við að sanna það væri ekkert að mér og þau þyrftu ekki að gera neitt í málinu.
Eftir ligg ég engu að síður hér, bara einhverja daga, vikur eða mánuði frá því að hreinlega gefast upp að lifa við stoðkerfisáverka sem er hægt að laga, fjórum árum seinna.
Það liggja fyrir undirskriftalistar hundraða manna sem staðfesta að hafa verið í samskiptum við mig og ég sé nákvæmlega eins illa slasaður og ég lýsi, vísindaleg gögn unnin í samvinnu við erlenda sérfræðinga, skýr greining sem er staðfest eftir þeim vísindalegu kröfum sem um slíkt gilda ásamt sönnunargögnum, þrjú geðmöt sem öll taka skýrt fram að ég er hvorki í geðrofi, bráðageðveikur né með ranghugmyndir, og svo hin einfaldasta staðreynd sem hægt er að bjóða upp á, að ég er raunverulega stórslasaður og það er til stöðluð lausn á því.
Við höfum verið að vinna fréttaskýringu þar sem við förum mjög nákvæmlega yfir hvað er að gerast inn í heilbrigðiskerfinu með leynilegum upptökum, gögnum og yfirferð sjúkraskrár og sögu einstakra atvika, þar sem það viðgangast hlutir sem ég sjálfur hefði aldrei getað trúað að ættu sér stað, og má segja þetta sé ótrúlegra en hin mesti skáldskapur.
Þetta viðtal hér er partur af heimildarmyndaþáttaröð sem fyrirhuguð er til að varpa ljósi á stöðu heilbrigðiskerfisins, þar sem saga mín er rakin. Ætlunin var að setja allt efnið út samtímis, en þar sem ekki er fyrirsjáanlegt ég lifi næstu vikur og mánuði af, hef ég ákveðið að birta sögu mína hér.
Ég vonast til þess að þessi saga varpi ljósi á hvað er að gerast í íslensku heilbrigðiskerfi, þau mannréttindabrot sem eru þar framin, og þau telji kjark í aðra sem eru í svipuðum sporum til að halda áfram að berjast fyrir lífi sínu og betra samfélagi.
Það er engin hefndarhugur í mér, né er ég að reyna „draga einhvern til ábyrgðar“, ég er einfaldlega bara biðja um þá læknishjálp sem ég á rétt á samkvæmt lögum og lífi mínu verði bjargað áður en það er of seint, og málið unnið í takt við vísindalega þekkingu og raunveruleika stöðu minnar, því það er til frekar auðveld lausn við því sem er að mér, en heilbrigðiskerfið hefur hingað til neitað að veita mér.
Setan gegnum þetta vídjó þar sem ég þarf að halda mér í stað á handafli, og hálsinum á mér á réttum stað með höndunum er líklega það erfiðasta sem ég hef gert, og eins og sést er ég mjög illa farinn á líkama og sál, en ég vona það muni þjóna einhverjum tilgangi.