Vandamálin hrannast upp hjá ríkisstjórninni
Vandamálin hrannast upp hjá ríkisstjórninni og í flestum tilvikum hafa þau verið fyrirsjáanleg nema hugsanlega ekki, þegar horft er út um glugga stjórnarráðsins.
Líklegast er að þær samningaviðræður sem staðið hafa yfir frá því í gær um veiðigjaldafrumvarpið snúist ekki um þinglok fyrst og fremst heldur að það hafi einfaldlega ekki verið samstaða innan VG um frumvarpið. Og að málinu verði frestað með einhverjum hætti.
Vinnumarkaðurinn stefnir í uppnám á meðan þögnin ríkir um Kjararáð en vissulega eru tillögur fjármálaráðherra um tekjuskattslækkun framlag til lausnar. Þær eru hins vegar ekki lausnin.
Framundan er samdráttur í ferðaþjónustu með margvíslegum afleiðingum.
Svo sterk rök hafa verið sett fram um að í persónuverndarreglum ESB felist framsal bæði framkvæmdavalds og dómsvalds, sem sé brot á stjórnarskrá, að þingmeirihlutinn getur ekki leyft sér að afgreiða það mál án frekari skoðunar. Og framundan er annað áþekkt mál, orkupakki ESB.
Ríkisstjórnir standa alltaf frammi fyrir vandamálum. Þau sem blasa við núverandi ríkisstjórn eru mikil og enn hafa ekki komið fram skýrar vísbendingar um að hún geri sér grein fyrir því.
Straumhvörf í stjórnarsamstarfi?
Líklegt má telja að nú séu að verða eins konar straumhvörf í samstarfi núverandi stjórnarflokka. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt þess efnis að „mikil ólga“ sé í grasrót VG. Þetta staðfestir varaformaður Vinstri grænna, Edward Hákon Huijbens í samtali við blaðið. Hann segir:
„Ég skynja reiði meðal flokksmanna og töluvert öðruvísi og þyngri tón en áður… Mitt persónulega mat er að veiðigjaldamálið þurfi meiri yfirlegu“.
Þetta kemur ekki á óvart. Það eina sem kemur á óvart er að forysta VG hafi gengið jafn langt og tillögur, sem einn af þingmönnum flokksins flutti, gáfu til kynna. Síðustu sólarhringa hefur formaður flokksins verið að draga í land.
Það er ekki ólíklegt að þetta mál verði til þess að VG breyti háttsemi sinni í ríkisstjórn og undirstriki frekar sérstöðu sína en flokkurinn hefur gert fram að þessu. Það á ekki sízt við í kjaramálum.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verða þá að gera upp við sig, hvort þeir kyngi því.
Vandi Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum er sá, að erfitt er að sjá, að flokkurinn eigi aðra valkosti um stjórnarsamstarf.
Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins
Discussion about this post