Fleiri segjast sjá falsfréttir á Íslandi en í Noregi og flestir sjá þær á Facebook
Átta af hverjum tíu sögðust hafa rekist á upplýsingar á netinu á síðustu 12 mánuðum sem þau hafi efast um að væru sannar og sjö af hverjum tíu höfðu séð falsfréttir, fengið þær sendar eða rekist á þær með öðrum hætti á netinu á síðustu 12 mánuðum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu sem byggir á niðurstöðum úr víðtækri spurningakönnun Maskínu sem fór fram í febrúar og mars 2021.
„Niðurstöðurnar eru sérlega athyglisverðar þegar að þær eru bornar saman við sambærilega könnun sem gerð var í Noregi, þar sem hlutfall þeirra sem segjast hafa séð falsfréttir eða efast um sannleiksgildi upplýsinga á netinu er mun hærra á Íslandi en í Noregi,“ segir Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd. Í Noregi voru 13,4% færri sem efuðust um sannleiksgildi upplýsinga heldur en á Íslandi og 25,7% færri sem höfðu rekist á eða fengið sendar falsfréttir.
Þriðjungur viðurkenndi að hafa myndað sér ranga skoðun vegna villandi upplýsinga
Um þriðjungur þátttakenda á Íslandi sagðist hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu (t.d. stjórnmálamanni eða frægri manneskju) vegna villandi upplýsinga um hana í ýmsum miðlum. Til samanburðar var svarhlutfallið 15% í norsku könnuninni þegar að spurt var á sambærilegan hátt. „Við þetta mætti bæta þeim sem viðurkenna ekki að þeir hafi myndað sér ranga skoðun og þeim sem hafa ekki ennþá áttað sig á því að þeir hafi myndað sér ranga skoðun vegna villandi upplýsinga. Það er mikilvægt að átta sig á því hvaða áhrif ósannar og misvísandi upplýsingar geta haft á okkar eigin skoðanir og lýðræðislegu umræðuna í samfélaginu sem við búum í. Við eigum rétt á okkar eigin skoðunum á sama tíma og við eigum rétt á að hafa aðgang að réttum upplýsingum svo við getum tekið upplýstar ákvarðanir. Staðan er oft mjög ójöfn þar sem við sem neytendur upplýsinga höfum oft færri tól til að vinna með en þeir sem beina upplýsingunum að okkur eins og t.d. algóriþma, persónusnið, djúpfalsanir og gervigreind. Það eru allt tól sem hægt er að misnota til þess að hafa áhrif á okkar skoðanir og umræðu í samfélaginu,“ segir Skúli.
Flestir sögðust hafa rekist á falsfréttir á Facebook
Sjö af hverjum tíu sögðust hafa rekist á upplýsingaóreiðu/falsfréttir um kórónaveirufaraldurinn á netinu. Af þeim voru langflestir sem rákust á slíkt á Facebook, eða 83,1%. Þá voru 49,5% sem rákust á falsfréttir á vefsvæðum sem ekki eru með ritstjórn og 38,7% á öðrum samfélagsmiðlum (eins og t.d. Twitter, Snapchat, TikTok, Instagram eða WhatsApp). Aðrir staðir sem þátttakendur nefndu voru YouTube (30,9%), ritstýrð dagblöð (22,3%), Google (20,1%), blogg (8,7%) og tölvupóstur (4,3%). Í Noregi hafði helmingur þátttakenda (51%) í sambærilegri könnun rekist á falsfréttir um kórónaveirufaraldurinn og einn af hverjum þremur sagði það hafa verið á Facebook.
Er það ósatt sem við erum ósammála?
„Það geta verið ýmsar ástæður fyrir þessum mikla mun á Íslandi og Noregi þegar að kemur að falsfréttum. Mögulega er miðlalæsi meira hér á landi og því erum við frekar að koma auga á falsfréttir. Þá gæti líka verið að skilningur á falsfréttum hér sé annar en í Noregi og því séum við t.d. að flokka fréttir sem við erum ósammála sem ósannar. Í könnuninni voru 76% þátttakenda sem fengu það á tilfinninguna að frétt væri ósönn vegna þess að hún fjallaði um ummæli sem áttu ekki við rök að styðjast. Hér gæti tungumálið verið að þvælast fyrir okkur og okkur vanti hugtök á íslensku þar sem við gerum ekki grein á falsfréttum sem dreift er vísvitandi, þeim sem er dreift án ásetnings og þegar að réttum upplýsingum er dreift í annarlegum tilgangi,“ segir Skúli.
Fæstir í aldurshópnum 60 ára og eldri sem sögðust hafa séð eða fengið sendar falsfréttir
Hlutfall þeirra sem efast hafði um sannleiksgildi upplýsinga á netinu á síðust 12 mánuðum var hæst í aldursbilinu 18-49 ára (að meðaltali 86,3%) en lægst í hópi 60 ára og eldri (69,4%). Elsti aldurshópurinn (60 ára og eldri) var einnig ólíklegastur til þess að hafa séð falsfréttir eða fengið þær sendar, þar sem 48,1% höfðu upplifað það á síðustu 12 mánuðum meðan að meðaltalið úr öllum öðrum aldurshópum (15-59 ára) var 72,1%. Þær tölur eru hærri en í norsku könnuninni þar sem 30% í hópi 60-79 ára höfðu séð falsfréttir í samanburði við 50% í hópi 16-59 ára.
Yngsti aldurshópurinn (15-17 ára) ólíklegastur til að efast um sannleiksgildi upplýsinga
Alls töldu 87% þátttakenda sig frekar eða mjög líklega til þess að efast um sannleiksgildi upplýsinga á netinu. Yngsti (15-17 ára) og elsti (60 ára og eldri) aldurshópurinn skáru sig úr þar sem hlutfallslega fleiri í þeim hópum töldu sig frekar ólíklega til þess að efast um sannleiksgildi upplýsinga en í öðrum aldurshópum. Yngsti aldurshópurinn var einnig líklegastur til að segjast hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga í ýmsum miðlum. Menntun og tekjur höfðu áhrif á það hversu auðvelt eða erfitt þátttakendur töldu sig eiga með að bregðast við þeim aðstæðum að mynda sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga í fjölmiðlum. Í heildina var um helmingur (53%) sem taldi sig eiga frekar eða mjög auðvelt með að bregðast við slíkum aðstæðum. Flestir í hópi 60 ára og eldri áttu frekar eða mjög erfitt með að bregðast við, eða 30,2%. Næst á eftir komu aldurshópar 15-17 ára (18,2%) og 50-59 ára (17,7%).
Aldur, menntun og tekjur allt áhrifaþættir þegar að kemur að viðbrögðum við falsfréttum og sannleiksgildi upplýsinga
Aldurshópurinn 60 ára og eldri er sá hópur sem átti í mestum erfiðleikum með að bregðast við í öllum þeim aðstæðum sem spurt var um, þ.e. að láta blekkjast af falsfréttum, efast um sannleiksgildi upplýsinga á netinu og mynda sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga í fjölmiðlum. Þar á eftir koma aldurshóparnir 15-17 ára og 50-59 ára þar sem hlutfallslega fleiri áttu í erfiðleikum með viðbrögð, í þessum aðstæðum sem spurt var um, í samanburði við aðra aldurshópa. Í öllum þremur þáttum var munur milli hópa eftir menntun og tekjum, þar sem hlutfallslega fleiri þátttakendur áttu auðveldara með að bregðast við eftir því sem menntun varð meiri og heimilistekjur hærri. „Þessar niðurstöður eru gríðarlega mikilvægar til þess að við getum áttað okkur á því hvar við stöndum þegar að kemur að miðlalæsi. Við sjáum í gegnum alla skýrsluna að yngstu (15-17 ára) og elstu (60 ára og eldri) þátttakendurnir eiga í mestum vandræðum með að að koma auga á og bregðast við falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Það eru því þeir aldurshópar sem við þurfum að byrja á að beina spjótum okkar að þegar að kemur að fræðslu á miðlalæsi,“ segir Skúli.
Um 55% þátttakenda kannaði aðrar heimildir sem þeir treystu en 23,8% gerðu ekkert þegar að þau rákust á fréttir sem þau efuðust um á netinu
Þátttakendur í spurningakönnuninni voru beðnir um að rifja upp og merkja við hvað þeir hefðu gert í síðasta skipti sem þeir rákust á frétt á netinu og drógu þá ályktun að hún væri röng eða um falsfrétt væri að ræða. Þar sögðust 55,1% hafa kannað aðrar heimildir sem þau treystu, 44,9% hafa skoðað aðrar fréttir sem birtar höfðu verið á vefmiðlinum, 38,7% hafa slegið efni fréttarinnar inn í leitarvél til að kanna hvort hún væri sönn, 23,8% sögðust ekki hafa aðhafst og 20,8% hafa kannað vefslóð/URL, https eða IP-tölu viðkomandi vefmiðils. Aðrir valmöguleikar sem færri merktu við voru 12,7% sem sögðust hafa kannað upplýsingar um eigendur/ritstjórn vefmiðilsins, 12,2% sem könnuðu hvort fréttin væri sönn með aðstoð staðreyndavaktar (eins og staðreyndavakt Vísindavefsins), 12,1% sem leitaði ráða hjá öðrum, 7,2% blokkuðu vefsíðuna eða þann sem sendi fréttina eða deildi henni og 1,4% sem tilgreindu aðrar aðgerðir. Flestir sem sögðust leita ráða hjá öðrum voru í aldurshópnum 15-17 ára, eða 38,7% sem var mun hærra hlutfall en hjá öðrum aldurshópum.
Hluti 2 af skýrslu fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Skýrsluna má nálgast hér.