Árleg vinna við svokallað þinglokasamkomulag er nú í gangi. Þingflokksformenn stjórnarflokkanna funda með þingflokksformönnum andstöðu og tilkynna að nú standi svo vel á í þing- og nefndastörfum að útlit sé fyrir að öll stjórnarmál sem mælt hafi verið fyrir á þinginu klárist. Þetta er hefðbundið.
Þingflokksformenn stjórnarandstöðu brosa innra með sér og hugsa: það er einmitt það.
Þegar pistillinn birtist verða sjö dagar eftir af starfsáætlun Alþingis, þar af er einum varið til svokallaðrar eldhúsdagsumræðu. Sem sagt sex þingfundadagar. Það er auðvitað vandalaust að bæta tíu dögum við, til loka júní, en þá þrengir heldur að hvað svigrúm til slíks varðar. Sjálfur vil ég gjarnan sjá þingið standa til loka júní, en sjáum hvað setur.
Þegar málaruna ráðherranna, upp á tæplega áttatíu þingmál, er skoðuð er átakanlegt að sjá hversu fá þeirra eru raunverulega til gagns fyrir land og þjóð.
Óli Björn Kárason, fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, orðaði þetta ágætlega í grein sem birtist hér á leiðaraopnunni í gær, þar sem hann sagði: „Öllum má vera ljóst að útilokað er að afgreiða öll stjórnarmál á yfirstandandi þingi, þótt ráðherrar eigi enga ósk heitari. En hvorki himinn né jörð mun farast.“ Þetta er hárrétt hjá Óla Birni, en enn berja ráðherrarnir hausnum við steininn.
En hvað fá þingflokkarnir svo út úr þessu þegar til kastanna kemur? Nú fær þingflokkur Sjálfstæðisflokksins nýja Mannréttindastofnun og stórhækkuð listamannalaun, þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fá hert útlendingalög (þó fyrr hefði verið) og breytt lögreglulög. Þingflokkur Framsóknarflokksins fær aukin ríkisútgjöld (eins og vanalega). Allir ætla þeir sér að ljúka þingvetrinum með óbragð í munni, sönglandi möntruna um að „þetta væri enn verra ef við værum ekki í þessu samstarfi“. En er það svo, í raun?
Allt ber þetta að sama brunni, hátt í áttatíu frumvörp og þingsályktanir eru enn á færibandinu. Markmiðið virðist á köflum vera að hafa flóknustu og umdeildustu málin öll í einni bendu á lokadögum þingsins, mögulega til að sleppa við efnislega umræðu um þau eftir að þinglokasamningar nást. Svo leiðrétta menn villurnar og mistökin bara þegar betur stendur á.
En má ég biðja um færri frumvörp og þingsályktanir, best væri ef þær væru til gagns fyrir land og þjóð og að samhljómur væri með efnisatriðum og þeim markmiðum sem ætlunin er að ná fram. Svo væri gott ef stjórnarflokkarnir myndu láta af þessari linnulausu útgjaldaaukningu, útþenslu báknsins og þeirri tilhneigingu að gera líf borgaranna flóknara og leiðinlegra.
Ef ekki, nú þá verð ég bara að biðja um kerti og spil.