Tíu samtök atvinnurekenda og bænda lýsa yfir vilja til að taka þátt í vinnu við gerð nýrrar landbúnaðarstefnu ásamt stjórnvöldum. Samtökin eru sammála um að skora á atvinnuveganefnd Alþingis að fresta afgreiðslu frumvarps um breytingar á úthlutun tollkvóta.
Félag atvinnurekenda sendi síðastliðinn fimmtudag, ásamt tíu öðrum samtökum atvinnurekenda, bænda og neytenda, hvatningu til Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og atvinnuveganefndar Alþingis, að fresta tollkvótafrumvarpinu, sem nú liggur fyrir þinginu. FA hefur gert miklar athugasemdir við frumvarpið, eins og fram kom í umsögn félagsins um það. FA telur meðal annars að óbreytt þýði frumvarpið að reglulega muni koma upp skortur á matvörum, með tilheyrandi verðhækkunum.
Samtökin sem áttu aðild að yfirlýsingunni auk FA eru Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök iðnaðarins, Landssamband kúabænda, Landssamband sauðfjárbænda, Félag eggjabænda, Félag kjúklingabænda, Félag svínabænda, Samband garðyrkjubænda
og Sölufélag garðyrkjumanna. Í gær áttu samtökin ellefu með sér fund, þar sem fram kom að þrátt fyrir ólíkar skoðanir á tollvernd og mismunandi forsendur fyrir gagnrýni á frumvarpið eru samtökin sammála um að vinna hefði þurft málið betur og að þau væru öll reiðubúin að taka þátt í slíkri vinnu.
FA saknar hins breiða samtals
Fulltrúar samtakanna áttu svo fund með Kristjáni Þór Júlíussyni landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í gær, að beiðni ráðherra. Framkvæmdastjóri FA benti þar meðal annars á að hægt væri að draga úr neikvæðum áhrifum frumvarpsins með því að ljúka vinnu við áform, sem fram koma í búvörusamningi um garðyrkju frá 2016, en þar kemur fram að samningsaðilar, garðyrkjubændur og ríkið, muni greina hagkvæmni þess að taka upp uppskerutengdar greiðslur vegna útiræktaðra garðyrkjuafurða og kartaflna gegn lækkun eða niðurfellingu tollverndar. Þá sagðist framkvæmdastjóri FA sakna þess breiða samtals um landbúnaðarmál sem fram fór í samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga á síðasta kjörtímabili. Ráðherra ákvað í upphafi embættistíðar sinnar að endurskipa hópinn og þrengja „þjóðarsamtalið“ sem þar átti að fara fram eftir að búvörusamningar fengu harða gagnrýni víða í samfélaginu. FA andmælti þeirri breytingu harðlega.
Allir aðilar komi að mótun landbúnaðarstefnu
Nú er hins vegar vilji til að ræða ýmis mál tengd landbúnaðinum á breiðum vettvangi. Áðurnefndur hópur, að Neytendasamtökunum frátöldum, sendi atvinnuveganefnd Alþingis nýja yfirlýsingu í morgun, en hún er svohljóðandi: „Fulltrúar eftirtaldra félaga fóru til fundar við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beiðni hans, mánudaginn 9. desember 2019, til að ræða 382. mál, um breytingu á búvörulögum og tollalögum
Þó innan hópsins séu ólíkar skoðanir á tollamálum og framkvæmd þeirra er það niðurstaðan að leggja til að afgreiðslu frumvarpsins í núverandi mynd verði frestað og því vísað til umfjöllunar við gerð heildrænnar stefnumótunar í landbúnaði. Að gerð landbúnaðarstefnu komi neytendur, seljendur, innflytjendur og framleiðendur auk stjórnvalda. Þar verði mótuð sameiginleg sýn til lengri tíma, skilgreind hlutverk hvers og eins í samstarfinu o.fl. Lokamarkmið er sameiginleg landbúnaðarstefna sem styðji við aðra opinbera stefnumótun.“